Innheimta


Mikilvægt er að launagreiðendur skili iðgjöldum starfsfólks reglulega. Berist greiðslur ekki getur starfsfólk orðið af ávöxtun iðgjalda sinna.

  • Iðgjaldatímabil er að hámarki einn mánuður. 
  • Gjalddagi iðgjalda er 10. dagur næsta mánaðar á eftir iðgjaldamánuði.
  • Eindagi er síðasti virki dagur næsta mánaðar á eftir iðgjaldamánuði.

 

Dæmi: Iðgjöld vegna launa í janúar eru með gjalddaga 10.febrúar og eindaga síðasta virka dag febrúar. 

Innheimtuferill


Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu auk áfallinna vanskilavaxta.

Öllum innborgunum er ráðstafað til greiðslu á elstu ógreiddu iðgjöldum ásamt áföllnum vanskilavöxtum , þar til hvoru tveggja er uppgert. Dráttarvextir eru ákvarðaðir af Seðlabanka Íslands og reiknast frá gjalddaga ef greiðsla berst eftir eindaga. Greiðandi sjóðfélögum er sent yfirlit um iðgjöld og réttindi sín tvisvar á ári. Yfirlitinu fylgir áskorun til þeirra um að gera án tafar athugasemdir ef í ljós koma vanhöld á iðgjaldaskilum.

  • Berist greiðsla ekki fyrir innsendar skilagreinar eða hafi launafólk sent lífeyrissjóðnum launaseðla vegna ógreiddra iðgjalda er launagreiðanda sent bréf með upplýsingum um tímabil skuldar, ásamt höfuðstól og áföllnum vöxtum. Er honum þá veittur 10 daga frestur til að greiða iðgjald eða semja um greiðslu. 
  • Hafi greiðsla ekki borist innan þriggja mánaða og ekki verið samið um greiðslu skuldar er skuldin send í lögfræðiinnheimtu. 
  • Upplýsingar um vangreidd iðgjöld þurfa að berast sjóðnum innan 6 mánaða frá því iðgjaldatímabili sem þau tilheyra. Eldri iðgjöld njóta hvorki ábyrgðar lífeyrissjóðsins né hjá Ábyrgðarsjóði launa, komi til gjaldþrots launagreiðanda. 

 

Móttaka iðgjalda eftir eindaga


Réttur sjóðfélaga til lífeyris er háður iðgjöldum sem greidd hafa verið hans vegna.

Undantekning frá þessari reglu eru iðgjöld sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum starfsfólks, en hefur hvorki staðið skil á þeim né á mótframlagi til sjóðsins. Þrátt fyrir vanskilin skulu slík iðgjöld metin að fullu til réttinda fyrir viðkomandi aðila við úrskurð lífeyris enda hafi upplýsingar um vangreidd iðgjöld frá viðkomandi iðgjaldatímabili borist sjóðnum innan 6 mánaða.

  • Þessi undantekning gildir þó eingöngu um launafólk. Önnur viðmið gilda um iðgjaldagreiðslur eigenda og stjórnenda fyrirtækja og um sjálfstæða atvinnurekendur. 
  • Ekki er sjálfgefið að iðgjald sem sjálfstæður atvinnurekandi greiðir eftir eindaga leiði til ávinnslu hvað varðar örorku- og makalífeyrisréttinda. Réttur til slíks lífeyris er háður því að tiltekinn tryggingaratburður hafi átt sér stað, þ.e. orkutap eða fráfall sjóðfélaga. 
  • Birta lífeyrissjóður tekur við iðgjaldagreiðslu frá sjálfstæðum atvinnurekanda með ákveðnum fyrirvara þegar iðgjaldagreiðsla berst eftir eindaga. Fyrirvarinn felur í sér að þegar úrskurðað er um örorku eða makalífeyrir t.d. í kjölfar orkuskerðingar ber sjóðnum að skoða sérstaklega iðgjöld sem greidd eru eftir eindaga.