Útborgun


Tekjuskattur er dreginn af valkvæðum séreignarsparnaði og tilgreindri séreign við útgreiðslu enda var innborgunin ekki skattlögð. Skattlagning tekna er þrepaskipt. Það er á ábyrgð umsækjanda að tilgreina í hvaða skattþrepi skattgreiðslur skuli vera og um nýtingu persónuafsláttar.

Skattlagning tekna er í samræmi við lög á hverjum tíma og má nálgast nánari upplýsingar á vef Ríkisskattstjóra, rsk.is.

Hvenær má taka út séreign?


Hægt er að taka út valkvæðan séreignarsparnað í eftirfarandi tilvikum:

1. Valkvæð séreign við 60 ára aldur

 • Valkvæður séreignarsparnaður er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur, að því gefnu að a.m.k. tvö ár séu liðin frá fyrstu innborgun.
 • Hægt er að fá greidda út ákveðna fjárhæð, alla innistæðuna eða að dreifa útborgun með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.
 • Hægt er að greiða áfram í séreign eftir að útgreiðsla hefst. Slíkt kann að vera hagkvæmt vegna mótframlags launagreiðanda.

2. Vegna örorku

 • Séreignarsparnaður er laus til útgreiðslu fyrir 60 ára aldur ef starfsgeta skerðist vegna örorku. Greiðslum skal þá dreift jafnt á 7 ár, miðað við 100% örorku.
 • Árleg útgreiðsla lækkar og úttektartími lengist í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu. 

3. Vegna fráfalls

 • Séreignarsparnaður erfist að fullu við fráfall og skiptist samkvæmt reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða börn rennur séreignin til dánarbús.
 • Við skiptingu séreignarsparnaðar vegna fráfalls á að fylgja Yfirlit um framvindu skipta sem nálgast má hjá sýslumanni.
 • Erfingjar eiga kost á að geyma inneign sparnaðarins og ávaxta áfram eða að sækja um útgreiðslu. Tekjuskattur er dreginn af séreignarsparnaði við útgreiðslu en ekki erfðafjárskattur. 
Hægt er að taka út tilgreindan séreignarsparnað í eftirfarandi tilvikum:

1. Tilgreind séreign við 62 ára aldur

 • Valkvæður séreignarsparnaður er laus til útgreiðslu við 62 ára aldur, og skulu greiðslur að lágmarki dreifast fram til 67 ára aldurs. 
 • Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig.

2. Vegna örorku

 • Séreignarsparnaður er laus til útgreiðslu fyrir 62 ára aldur ef starfsgeta skerðist vegna örorku. Greiðslum skal þá dreift jafnt á 7 ár, miðað við 100% örorku. 
 • Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig.
 • Árleg útgreiðsla lækkar og úttektartími lengist í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu. 

3. Vegna fráfalls

 • Séreignarsparnaður erfist að fullu við fráfall og skiptist samkvæmt reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða börn rennur séreignin til dánarbús.
 • Við skiptingu séreignarsparnaðar vegna fráfalls á að fylgja Yfirlit um framvindu skipta sem nálgast má hjá sýslumanni.
 • Erfingjar eiga kost á að geyma inneign sparnaðarins og ávaxta áfram eða að sækja um útgreiðslu. Tekjuskattur er dreginn af séreignarsparnaði við útgreiðslu en ekki erfðafjárskattur. 

Sækja um útgreiðslu


Útgreiðsla valkvæðs séreignarsparnaðar

Beiðni um útborgun valkvæðrar séreignar.pdf

Fylla þarf út beiðni um útborgun valkvæðs séreignarsparnaðar, sem þarf að berast fyrir 20. dag þess mánaðar sem útgreiðsla á að hefjast í. Greitt er út síðasta virka dag mánaðar. 

Útgreiðsla tilgreindrar séreignar

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu sjóðsins. 

Tryggingastofnun


Greiðslur séreignarsparnaðar hafa hvorki áhrif á grunnlífeyri né tekjutryggingu frá Tryggingastofnun.

Séreignarsparnaður getur þó haft áhrif á útreikning greiðslna frá Tryggingastofnun þegar um er að ræða uppbót á lífeyri. Þetta getur t.d. átt við þegar um er að ræða mikinn lyfjakostnað, eða við svokallaða lágmarksframfærslutryggingu sem tryggir lífeyrisþegum lágmarksgreiðslu ef tekjur þeirra eru undir tilteknum tekjuviðmiðum.