Með greiðslum iðgjalda aflar sjóðfélagi sér réttinda til eftirlauna- og örorkulífeyris og maka og börnum sínum rétt til maka- og barnalífeyris og eftir atvikum fjölskyldubóta eftir því sem kveðið er á í greinum 12 til 15A í samþykktum sjóðsins og réttindatöflum sjóðsins I til III sem birtar eru í viðauka við samþykktirnar.
Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins. Réttindin eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá þeim launamánuði sem iðgjald er greitt af. Samhengi er á milli fjárhæðar greiddra iðgjalda og þeirra réttinda sem sjóðfélagi ávinnur sér í samtryggingardeild. Af því leiðir að ef sjóðfélagi ákveður að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreign í stað samtryggingardeildar ávinnur hann sér minni tryggingarréttindi í samtryggingu en að sama skapi meiri réttindi í tilgreindri séreign.
Sjóðfélögum sem eiga rétt á viðmiðunariðgjaldi frá Sameinaða lífeyrissjóðnum er heimilt að greiða áfram til samtryggingardeildar í jafnri ávinnslu samkvæmt réttindareglum og réttindatöflu sem voru í gildi fyrir sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Upplýsingar um iðgjald til jafnrar réttindaávinnslu má nálgast á skrifstofu sjóðsins eða á sjóðfélagavef viðkomandi sjóðfélaga.
- Eftirlaunalífeyrir er greiddur til æviloka. Almennur lífeyrisaldur er 67 ár en unnt er að flýta eða seinka töku lífeyris í samræmi við samþykktir sjóðsins.
- Örorkulífeyrir. Sjóðfélagi sem ekki er orðinn 67 ára en með skerta starfsgetu á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við nánari ákvæði samþykkta sjóðsins, enda hafi hann greitt í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði og tekjur hans sannanlega dregist saman vegna skertrar starfsgetu. Að tilteknum skilyrðum uppfylltum á sjóðfélagi rétt á framreikningi örorkulífeyrisréttinda auk áunninna réttinda í samræmi við nánari ákvæði samþykkta sjóðsins. Framreikningsréttur er til viðbótar áunnum rétti miðað við þau réttindi sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér til 65 ára aldurs hefði hann greitt til sjóðsins. Framreikningur tekur mið af meðaltali réttindaávinnslu hans næstu fjögur almanaksár áður en starfsgeta skerðist.
- Makalífeyrir. Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins í að minnsta kosti 24 mánuði á síðustu 36 mánuðum eða 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum, eða sem naut eftirlauna- eða örorkulífeyris úr sjóðnum. Eftirlifandi maki hans á þá rétt til lífeyris úr sjóðnum samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Upphæð makalífeyris nemur 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga og tekur til áunnins réttar og mögulegs framreikningsréttar sbr. nánari reglur í samþykktum sjóðsins. Óskertur makalífeyrir er greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði. Eftirlifandi maki fær ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 18 ára aldri enda sé það á framfæri makans. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn stofnar til hjúskapar eða óvígðrar sambúðar sem jafna má til hjúskapar.
- Barnalífeyrir. Börn og kjörbörn er sjóðfélagi lætur eftir sig eiga rétt á lífeyri úr sjóðnum til 18 ára aldurs samkvæmt nánari reglum í samþykktum sjóðsins.
Meðal áhættuþátta í samtryggingardeild er svonefnd lýðfræðileg áhætta sem felur m.a. í sér líkur á langlífi sjóðfélaga, örorkutíðni hjá sjóðfélögum sem og hjúskapartíðni og barneignum sjóðfélaga almennt. Einnig eru réttindi í samtryggingu háð ávöxtun eigna samtryggingardeildar. Eins getur komið til þess að sjóðurinn þurfi að auka eða minnka tryggingaréttindi í samtryggingardeild. Þar geta einkum haft áhrif þróun á tryggingafræðilegum og lýðfræðilegum forsendum sem og ávöxtun eigna samtryggingardeildar og verðlagsþróun.
Réttindi grundvallast á gildandi samþykktum: Athygli er vakin á því að þær upplýsingar sem hér eru raktar um réttindi í samtryggingardeild og tilgreindri séreign eru einungis settar fram til að einfalda sjóðfélaga ákvarðanatöku. Gerður er fyrirvari um mögulegar villur eða ónákvæmni. Ef þessum upplýsingum ber ekki saman við ákvæði samþykkta sjóðsins gilda ákvæði samþykktanna. Því er mikilvægt fyrir sjóðfélaga að kynna sér vel efni samþykkta sjóðsins. Þá er rétt að árétta að réttindi samkvæmt samþykktum geta breyst frá einum tíma til annars.