Makalífeyrir


Við andlát sjóðfélaga getur maki hans öðlast rétt til makalífeyris frá sjóðnum að uppfylltum vissum skilyrðum. Hafi sjóðfélagi verið yngri en 67 ára við andlát getur einnig komið til greiðslu fjölskyldubóta, sem greiðast einu sinni, til viðbótar maka- og barnalífeyri.

Hver er skilgreiningin á maka?

Maki sjóðfélaga telst sá eða sú sem var í hjúskap eða óvígðri sambúð sem jafna má til hjúskapar við andlát sjóðfélagans.

Upphæð makalífeyris ákvarðast af áunnum réttindum

Upphæð makalífeyris ákvarðast af áunnum réttindum sjóðfélagans og framreiknuðum réttindum til 65 ára aldurs, ef skilyrði til þess eru uppfyllt. Upphæð óskerts makalífeyris nemur 50% af áunnum eftirlaunalífeyrisréttindum miðað við 67 ára lífeyrisaldur.

Hversu lengi er makalífeyrir greiddur?
  • Fullur makalífeyrir greiðist alltaf í þrjú ár og a.m.k. 50% af fullum makalífeyri í næstu 2 ár þar á eftir.
  • Fullur makalífeyrir greiðist þar til yngsta barn sem hefur verið á framfæri sjóðfélaga og eftirlifandi maka hans hefur náð 18 ára aldri.
  • Fullur makalífeyrir greiðist ef maki sjóðfélaga er öryrki og yngri en 67 ára. Makalífeyrir er greiddur á meðan sú örorka varir eða þar til 67 ára aldri en náð.
Láti sjóðfélagi eftir sig barn eða börn undir 18 ára aldri getur verið réttur til barnalífeyris

Til að eiga rétt til barnalífeyris þarf að hafa greitt til Birtu lífeyrissjóðs a.m.k. 24 af síðustu 36 mánuðum fyrir fráfall eða orkuskerðingu.

Samþykktir Birtu lífeyrissjóðs gilda við úrskurð makalífeyris

Samþykktir Birtu lífeyrissjóðs gilda við úrskurð makalífeyris en sérstakar reglur gilda um makalífeyri vegna iðgjalda sem greidd voru til Sameinaða lífeyrissjóðsins, Samvinnulífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Frekari upplýsingar veita ráðgjafar Birtu lífeyrissjóðs.

Gangi maki að nýju í hjónaband eða hefur sambúð fellur makalífeyrir niður

Gangi maki að nýju í hjónaband eða hefur sambúð fellur makalífeyrir niður en stofnast aftur ef því hjónabandi eða sambúð er slitið án réttar til makalífeyris.

Fjölskyldubætur


Fjölskyldubætur eru greiddar einu sinni við fráfall sjóðfélaga yngri en 67 ára og hafa þann tilgang að létta undir með nánustu aðstandendum þegar ungir sjóðfélagar falla skyndilega frá. Fjölskyldubætur skiptast í maka- og barnagreiðslur.

Makagreiðsla

Greiðslan nemur 25 földu framlagi sem sjóðfélagi hefur greitt til sjóðsins síðustu tólf mánuði. Hafi hinn látni verið með 2.400.000 kr. í tekjur síðustu tólf mánuði og framlag hans til sjóðsins hefur verið 4% af launum nemur makagreiðslan 2.400.000 kr. Hafi hinn látni verið í tveimur störfum og greitt í annan lífeyrissjóð mun greiðslan einungis miðast við þau iðgjöld sem greidd voru til Birtu lífeyrissjóðs. Við þessa útreikninga lækkar fjárhæðin um 6% fyrir hvert ár sem sjóðfélagi er eldri en 45 ára við fráfall. Lækkunin verður þó aldrei meiri en 90%.

Barnagreiðsla

Hafi hinn látni verið yngri en 67 ára og börn hans yngri en 18 ára fá börnin eingreiðslu við fráfall sjóðfélagans. Greiðslan nemur eins mánaða barnalífeyri til hvers barns fyrir hvern mánuð sem iðgjöld bárust sjóðnum sl. tólf mánuði. Í júní 2018 er upphæð barnalífeyris 22.324 kr. og greiðslan því allt að 267.888 kr. á barn (12 x 22.324).

Dæmi um fjölskyldubætur vegna fráfalls sjóðfélaga yngri en 46 ára*
Laun 350.000 kr. á mánuði (4.200.000 kr. á ári) 550.000 kr. á mánuði (6.600.000 kr. á ári)
Framlag launafólks sl. 12 mánuði 168.000 264.000
Makagreiðsla 4.200.000 6.600.000
Barnagreiðsla m.v. tvö börn yngri en 18 ára 535.776 535.776
Fjölskyldubætur alls 4.735.776 7.135.776

* Tafla var síðast uppfærð í júní 2018.

Umsóknarferli


Það getur tekið 1-2 mánuði frá því umsókn berst sjóðnum með öllum gögnum þar til greiðslur fara að berast

Sótt um makalífeyrir

Við mælum eindregið með því að sækja um með rafrænum skilríkjum. Hafir þú ekki rafræn skilríki eða átt þú ekki kost á því að skila rafrænni umsókn þá er umsókn hér efst á síðunni. Einnig eru umsóknir og eyðublöð aðgengileg á forsíðu.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um fjölskyldubætur

Ráðgjafar sjóðsins kanna hvort réttur sé til fjölskyldubóta þegar sótt er um makalífeyri.

Greiðslur


Útgreiðsla makalífeyris

Makalífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á og er útborgunardagur síðasti virki dagur mánaðar. Hann er greiddur í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir að lífeyrisréttur myndaðist og í síðasta sinn fyrir þann mánuð er réttur til lífeyris fellur úr gildi.

Útgreiðsla fjölskyldubóta

Fjölskyldubætur greiðast einu sinni eftir á og er útborgunardagur síðasti virki dagur mánaðar.

Greiðslur eru skattskyldar

Við útgreiðslu makalífeyris og fjölskyldubóta er staðgreiðsla skatts dregin frá í samræmi við gildandi lög um skattlagningu tekna.