Samþykktir


Samþykktir Birtu lífeyrissjóðs eru grundvallarreglur um starfsemi sjóðsins og lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Nýjar samþykktir eða samþykktarbreytingar eru lagðar fyrir ársfund sjóðsins. Slíkar breytingar þurfa staðfestingar Fjármála- og efnahagsráðuneytis sem leitar umsagnar Fjármálaeftirlits, áður en þær taka gildi.

Samþykktir þessar voru staðfestar á ársfundi Birtu lífeyrissjóðs þann 2. maí 2018 og voru staðfestar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu 3. september 2018. Samþykktir þessar gilda frá og með 1. október 2018, að fenginn staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytis og koma í stað eldri samþykkta.

I. Hlutverk, skipulag og ávöxtun sjóðsins


1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1. Sjóðurinn heitir Birta lífeyrissjóður. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk sjóðsins

2.1 Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.

2.2 Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Einnig starfar lífeyrissjóðurinn á grundvelli samkomulags stéttarfélaga og atvinnurekenda frá 19. maí 1969 og 12. desember 1995 og tryggir sambærileg lágmarksréttindi og þar greinir miðað við jafnar greiðslur iðgjalda í 40 ár. Lífeyrissjóðurinn skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að sinna hlutverki sínu og er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

2.3 Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á eftirlaunatryggingar og áskilur sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykkta þessara.

3. gr. Deildaskipting

3.1 Sjóðurinn starfar í þremur aðaldeildum.

3.1.1 Samtryggingardeild. Í samtryggingardeild greiðast lögboðin eða samningsbundin iðgjöld, sbr. gr. 10.

3.1.2 Séreignardeild, sbr. gr. 16.

3.1.3 Tilgreind séreignardeild (T-deild). Í T-deild greiðast samningsbundin iðgjöld, sbr. gr. 17.

3.2 Halda skal fjárhag deildanna aðskildum. Rekstrarkostnaði sjóðsins skal skipt milli deilda í hlutfalli við umfang hverrar deildar samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur. Deildirnar bera ekki fjárhagslega ábyrgð hver á annarri.

4. gr. Um aðild að lífeyrissjóði og sjóðfélaga

Aðild að lífeyrissjóðnum byggir á ákvæðum kjarasamninga, sbr. ákvæði A hluta gr. 4 og aðild fyrirtækja sbr. B hluta gr. 4. Þá getur aðild að lífeyrissjóðnum byggt á almennum forsendum, sbr. C hluta gr. 4.

A. Sjóðfélagar á grundvelli kjarasamninga:

4.1 Sjóðfélagar eru:

4.1.1 Sjóðfélagar skulu vera allir þeir launamenn, sem náð hafa 16 ára aldri fyrir lok næsta almanaksmánaðar á undan og byggja starfskjör sín á kjarasamningum eftirtalinna stéttarfélaga sem ákvarða lágmarkskjör í viðkomandi starfsgreinum á því svæði sem samningarnir taka til eða njóta ráðningarbundinna starfskjara sem byggð eru á kjarasamningum þessara félaga:

Aðildarfélög Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ)
AFL. Starfsgreinafélag
Byggiðn – Félag byggingarmanna
Félag iðn- og tæknigreina
Félag málmiðnaðarmanna Akureyri
Félag skipstjórnarmanna
Félag vélstjóra og málmtæknimanna
Grafía – stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum
Iðnsveinafélag Skagafjarðar, Sauðárkróki
Matvæla- og veitingafélag Íslands
Samband stjórnendafélaga
Stéttarfélag Vesturlands, iðnaðarmannadeild
Veggfóðrarafélag Reykjavíkur
Þingiðn

4.1.2 Aðilar, sem hvorki eru bundnir kjarasamningum nefndra stéttarfélaga né njóta ráðningarbundinna starfskjara sem byggð eru á kjarasamningum, en óska eigi að síður eftir aðild að sjóðnum er heimil aðild að honum.

4.1.3 Þá eru enn fremur sjóðfélagar þeir sem njóta eftirlauna- eða örorkulífeyris, þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjald til sjóðsins og eiga hjá honum réttindi eins og nánar er mælt fyrir um í samþykktum þessum.

4.1.4 Aðrir launamenn, sem óska aðildar að sjóðnum og stjórn sjóðsins veitir heimild til aðildar.

B. Um aðildarfyrirtæki og sjóðfélaga sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum.

4.2 Aðildarfyrirtæki sjóðsins eru fyrirtæki og einstaklingar sem áttu skylduaðild að Samvinnulífeyrissjóðnum samkvæmt lögum, samþykktum og kjarasamningum við stofnun Samtaka atvinnulífsins (SA) þann 15. september 1999, en SA yfirtók alla kjarasamninga Vinnumálasambandsins (VMS) og Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ) við samruna VSÍ og VMS með stofnun SA, sbr. ályktun stofnfundar SA um afstöðu til lífeyrissjóðsmála.

4.2.1 Sjóðfélagar eru:

4.2.2 Sjóðfélagar geta verið allir starfsmenn, sem náð hafa 16 ára aldri fyrir lok næsta almanaksmánaðar á undan og starfa hjá ofangreindum aðildarfyrirtækjum.

4.2.3 Þeir sem njóta eftirlauna- eða örorkulífeyris, þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjald til sjóðsins og eiga hjá honum réttindi eins og nánar er mælt fyrir um í samþykktum þessum.

C. Almenn ákvæði um aðild, sjóðfélaga, tryggingarvernd o.fl.

4.3 Óheimilt er að neita einstaklingi um aðild að lífeyrissjóðnum á grundvelli heilsufars hans, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kynferðis.

4.4 Heimilt er launamanni, sem gerist sjálfstæður atvinnurekandi, að halda áfram þátttöku í sjóðnum. Þá er atvinnurekendum sem tengjast starfssviði sjóðsins heimil sjóðsaðild, en biðtími skv. 13. - 15. gr. skal reiknast frá lokum næsta mánaðar eftir þann mánuð, er iðgjöld berast sjóðnum fyrsta sinni.

4.5 Nú óskar stéttarfélag eftir aðild að þessum sjóði, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að veita félagsmönnum þess og þeim, sem taka laun eftir viðurkenndum launatöxtum þess, leyfi til að gerast sjóðfélagar. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að leyfa félögum og samböndum, sem standa að samningum um kaup og kjör þeirra launþega, er aðild eiga að sjóðnum, að tryggja í honum þá starfsmenn sína, sem ekki eiga aðild að öðrum lífeyrissjóðum. Brottfall aðildar skulu aðildarfélög sjóðsins tilkynna skriflega með 6 mánaða fyrirvara og miðast við áramót.

4.6 Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um sameiningu þeirra við lífeyrissjóðinn. Stjórnin skal gæta þess að réttur sjóðfélaga sjóðsins verði ekki skertur við sameininguna og jafnframt að hann sé ekki bættur á kostnað sjóðfélaga hinna sjóðanna. Stjórn sjóðsins er jafnframt heimilt að selja öðrum lífeyrissjóðum tryggingarvernd og hafa samstarf við aðra lífeyrissjóði um einstaka þætti tryggingarverndar. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að bjóða sjóðfélögum og öðrum aðilum samninga um viðbótartryggingarvernd og séreignarsparnað í samræmi við lög nr. 129/1997 og gera samninga við þá aðila sem uppfylla skilyrði 3. mgr. 8. gr. nefndra laga um einstaka þætti viðbótartryggingarverndar og rekstur séreignardeilda.

4.7 Þeir sem greiða til séreignardeildar eru rétthafar þeirrar deildar. Um réttindi þeirra og skyldur gilda ákvæði 16. gr.

4.8 Þeir sem greiða til tilgreindrar séreignardeildar (T-deildar) eru rétthafar þeirrar deildar. Um réttindi þeirra og skyldur gilda ákvæði 17. gr.

4.9 Aðild að sjóðnum fellur niður ef sjóðfélagi fær útborguð réttindi sín í einu lagi eða þau flytjast samkvæmt samskiptareglum lífeyrissjóða í annan lífeyrissjóð.

5. gr. Stjórn

5.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð fulltrúum launamanna og samtaka atvinnurekenda að jöfnu. Stjórnin skal skipuð átta mönnum og skulu fjórir kjörnir af fulltrúum launamanna og fjórir kosnir af samtökum atvinnurekenda, sbr. þó bráðabirgðaákvæði gr. 5.9. Kjörtímabil stjórnar er til tveggja ára og skal kjósa tvo fulltrúa launamanna og tvo fulltrúa atvinnurekenda hvert ár. Tryggja skal að kynjahlutföll í stjórninni séu í samræmi við ákvæði laga. Helmingi færri varamenn skal kjósa með sama hætti og til sama tíma og aðalmenn.

5.1.1 Fulltrúar samtaka atvinnurekenda skulu tilnefndir af framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins. Skal hlutfall kynja vera í samræmi við ákvæði laga. Fulltrúar í stjórn skulu tilnefndir að höfðu samráði við aðildarfélög sjóðsins og aðildarfyrirtæki, sbr. B hluta 4. gr. Láti stjórnarmaður af störfum áður en kjörtímabili hans lýkur, skal framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins tilnefna nýjan stjórnarmann samkvæmt sömu skilyrðum og áður og skal hann sitja út kjörtímabil fráfarandi stjórnarmanns.

5.1.2 Fulltrúar launamanna skulu kjörnir á sérstökum kjörfundi sem haldinn skal minnst viku fyrir ársfund lífeyrissjóðsins, sbr. ákvæði 6.3.1. Um rétt til að greiða atkvæði á þeim fundi fer eftir gr. 6.3.1. Þeir einstaklingar sem flest atkvæði fá, og uppfylla kröfur í þau stjórnarsæti sem kosið er til teljast kjörnir í stjórn lífeyrissjóðsins. Láti stjórnarmaður af störfum áður en kjörtímabili hans lýkur, skal kjörnefnd tilnefna nýjan stjórnarmann að fenginni tilnefningu valnefndar samkvæmt gr. 5.8 og skal hann sitja út kjörtímabil fráfarandi stjórnarmanns. Eigendur fyrirtækja, æðstu stjórnendur, stjórnarmenn og aðilar nákomnir þeim geta ekki orðið fulltrúar launamanna í stjórn. Framboð til stjórnar skulu afhent kjörnefnd sem skipuð er samkvæmt gr. 5.1.3 í síðasta lagi tveimur vikum fyrir kjörfund.

5.1.3 Fulltrúar launamanna skulu hafa starfandi kjörnefnd er annast framkvæmd kosninga til stjórnar og úrskurðar í ágreiningsmálum. Hún skal skipuð þremur mönnum og skulu þeir kjörnir á kjörfundi. Kjörtímabilið er þrjú ár. Fulltrúar launamanna kjörnir til setu á ársfundum skulu setja kjörnefndinni starfsreglur.

5.2 Stjórnarmenn lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Stjórnarmenn skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta sinnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Stjórnarmenn skulu jafnframt fullnægja hæfisskilyrðum laga nr. 129/1997. Um hæfi stjórnarmanns til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Aukinn meirihluti stjórnar skal skipaður virkum sjóðfélögum.

5.3 Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skulu fulltrúar atvinnurekenda og launamanna hafa á hendi formennsku og varaformennsku til skiptis eitt ár í senn. Formaður boðar varamenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir. Stjórnin skal setja sér starfsreglur, hún skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnarmanna er mættur eða varamenn í þeirra stað. Viðhafa skal leynilega atkvæðagreiðslu ef þess er óskað.

5.4 Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun og starfsemi sjóðsins. Hún skal annast um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórn skal útfæra og samþykkja áhættustefnu fyrir sjóðinn. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast skipulagningu innri endurskoðunar. Stjórn skal einnig móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.

5.4.1 Framkvæmdastjóri skal vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæður, hafa óflekkað mannorð og má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota. Hann má ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Framkvæmdastjóri skal vera búsettur hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

5.4.2 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við stefnu og fyrirmæli sem stjórn hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjóri er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiri háttar ákvarðanir undir stjórnarfund, skal haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

5.4.3 Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum.

5.5 Allar meiri háttar breytingar á skipulagi sjóðsins, innra eftirliti, bókhaldi og reikningsskilum, skal framkvæmdastjóri aðeins gera að höfðu samráði við stjórn, og að fengnu samþykki hennar.

5.5.1 Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum ber einnig að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu sem og þeim útlánareglum sem stjórnin setur. Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins.

5.5.2 Framkvæmdastjóri skal veita stjórn og endurskoðanda allar þær upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins, sem óskað er eftir.

5.5.3 Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Um hæfi framkvæmdastjóra fer að öðru leyti eftir grein 5.4.1.

5.6 Stjórnarmaður lífeyrissjóðs eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Skylt er þeim, sem í hlut á, að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi samkvæmt framansögðu.

5.6.1 Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna, umfram aðra eða á kostnað sjóðsins. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðsins, eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

5.6.2 Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri sjóðsins skulu ekki sitja í stjórnum atvinnufyrirtækja í umboði hans. Þetta gildir þó ekki um fyrirtæki sem stofnuð eru til að sinna sérstökum þáttum í starfsemi sjóðsins. Um verkefni, hæfi stjórnar og framkvæmdastjóra fer að öðru leyti en hér segir eftir lögum nr. 129/1997.

5.7 Stjórn skal setja sjóðnum starfskjarastefnu varðandi starfskjör stjórnenda sem lögð skal fram til samþykktar á ársfundi og birt í ársskýrslu og á heimasíðu sjóðsins.

5.8 Fulltrúaráð launamanna skal skipa valnefnd sem skal hafa þann yfirlýsta tilgang að tryggja góða stjórnarhætti við stjórn sjóðsins og tryggja að stjórn sjóðsins endurspegli fjölbreytni og breidd í hæfni, reynslu og þekkingu stjórnarmanna sem og að tryggja gagnsæi í málum um tilnefningu stjórnarmanna. Einstaklingar í valnefndinni skulu vera fjórir. Að öðru leyti skal um skipan og starfsemi valnefndar ákveðið í sérstökum starfsreglum hennar sem fulltrúaráð launamanna skal samþykkja fyrir sitt leyti.

6. gr. Ársfundur

6.1 Ársfund lífeyrissjóðsins skal halda fyrir lok júní ár hvert og hefur hann æðsta vald í málefnum sjóðsins, ef ekki er öðruvísi ákveðið í samþykktum þessum. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti. Stjórn skal boða til fundar með skriflegu fundarboði til aðildarfélaga með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Þá skal stjórn sjóðsins boða til ársfundar með auglýsingu í a.m.k. einu dagblaði og útvarpi sem hafa dreifingu á landsvísu með a.m.k. sjö daga fyrirvara.

6.2 Stjórn sjóðsins getur boðað til aukaársfundar. Um boðun fundarins vísast í gr. 6.1.

6.3 Fulltrúar samtaka atvinnurekenda sem aðild eiga að sjóðnum annars vegar og fulltrúar launamanna hins vegar fara með jafnan fjölda atkvæða á ársfundi, 90 atkvæði hvor.

6.3.1 Fulltrúar launamanna skulu vera 90 að tölu. Skiptist fjöldi þeirra milli þeirra hópa sem aðild eiga að sjóðnum samkvæmt A og B hlutum 4. gr. Skal 90 fulltrúum skipt á milli þeirra hópa sem getið er í ákvæði 4.1.1 eftir annars vegar hlutfalli greiddra iðgjalda og hins vegar hlutfalli virkra félagsmanna þannig að meðaltal hlutfallanna ráði fjölda fulltrúa hvers hóps. Hver hópur um sig ákveður hvernig fulltrúaval fer fram innan sinna raða og skal hann eftir atvikum njóta aðstoðar starfsmanna lífeyrissjóðsins. Hvert aðildarfélag skv. gr. 4.1.1 skal að lágmarki eiga einn fulltrúa í fulltrúaráðinu. Með sama hætti skal launamönnum fyrirtækja sem aðild eiga að sjóðnum á grundvelli B hluta ákvæðis 4. gr. tryggður einn fulltrúi ef A. fleiri en 200 launamenn viðkomandi fyrirtækis eiga aðild að sjóðnum, B. um er að ræða einn af sjö stærstu iðgjaldagreiðendum sjóðsins. Kjörnefnd sjóðsins skal gefa út reglur um stjórnarkjör, fyrirkomulag, framboð og framboðsfresti, tilkynningar og samþykki í fulltrúaráði. Upplýsingar um hversu marga fulltrúa hver hópur skal skipa skulu liggja fyrir hjá sjóðnum eigi síðar en einum mánuði fyrir kjörfund. Hver fulltrúi kjörinn samkvæmt framansögðu fer með eitt atkvæði við kjör fulltrúa launamanna í stjórn sjóðsins og með 1/90 hluta atkvæða fulltrúa launamanna á ársfundi. Kjörtímabil fulltrúa launamanna á ársfundi er þrjú ár. Eigendur fyrirtækja, æðstu stjórnendur fyrirtækja, stjórnarmenn og aðilar nákomnir þeim geta ekki orðið fulltrúar launamanna á ársfundi. Með virkum félagsmanni er átt við félagsmenn sem greiða félagsgjöld til stéttarfélags sem aðild á að sjóðnum og/eða launamanna sem greiða lífeyrisiðgjald til sjóðsins svo og ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega sem aðild eiga að sjóðnum.

6.3.2 Fulltrúar atvinnurekenda á ársfundi skulu kosnir eftir þeim reglum sem framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og annarra atvinnurekendafélaga sem aðild eiga að sjóðnum setja. Þeir skulu vera 90 talsins og hver þeirra skal fara með eitt atkvæði á ársfundinum af þeim 90 sem um ræðir í 6.3. Skal heimilt að fela fulltrúa að fara með tvö atkvæði til viðbótar við eigið atkvæði eftir reglum sem framangreindir aðilar setja en ávallt skulu tilnefndir 90 fulltrúar.

6.3.3 Listi með nöfnum fulltrúa og varamanna á ársfundi skal afhentur stjórn viku fyrir boðaðan ársfund sjóðsins. Af hálfu samtaka atvinnurekenda skal koma fram fjöldi atkvæða sem hver fulltrúi fer með á fundinum.

6.3.4 Heimilt er að veita umboð til að fara með atkvæðisrétt við forföll, þó getur enginn fulltrúi farið með fleiri atkvæði en þrjú á ársfundi.

6.4 Við atkvæðagreiðslu ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum. Þó er heimilt að óska eftir skiptri atkvæðagreiðslu, þannig að fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launamanna greiði atkvæði hvor í sínu lagi og þarf þá einfaldan meirihluta í hvorum hópi fyrir sig svo að samþykkt sé lögmæt. Ef óskað er eftir skiptri atkvæðagreiðslu skal fundarstjóri verða við þeirri ósk.

6.5 Á ársfundi skal tekið fyrir:

6.5.1 Skýrsla stjórnar um starfsemi sjóðsins á liðnu starfsári, sbr. 41. gr. laga nr.129/1997
6.5.2 Kynning og afgreiðsla ársreiknings
6.5.3 Gerð grein fyrir tryggingafræðilegri athugun, sbr. 24. gr. laga nr.129/1997
6.5.4 Gerð grein fyrir fjárfestingarstefnu sjóðsins
6.5.5 Starfskjarastefna sjóðsins
6.5.6 Laun stjórnarmanna og nefnda á vegum sjóðsins
6.5.7 Stjórnarkjör, samkvæmt grein 5.1
6.5.8 Kjör endurskoðanda
6.5.9 Kjör nefndar um laun stjórnarmanna
6.5.10 Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins, þegar slíkar tillögur liggja fyrir. Með tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins fer samkvæmt ákvæðum 25. greinar.
6.5.11 Önnur mál. Tillögur til ályktunar, sem taka á fyrir á ársfundi, þurfa að berast stjórn sjóðsins eigi síðar en viku fyrir ársfund

6.6 Nefnd um laun stjórnarmanna skal undirbúa og leggja fram tillögur að launum stjórnarmanna, bæði aðal- og varamanna, fyrir hvern ársfund. Í tillögum sínum skal nefndin miða við að laun stjórnarmanna endurspegli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og þann tíma sem verja þarf til stjórnarstarfa. Nefndin skal kynna stjórn tillögur sínar eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársfund lífeyrissjóðs. Skulu fulltrúaráð skipa nefndina fjórum fulltrúum til þriggja ára. Skal vera jafnt hlutfall fulltrúa atvinnurekenda og launamanna í nefndinni.

6.7 Á sameinuðum aukaársfundi Stafa lífeyrissjóðs og Sameinaða lífeyrissjóðsins skal heimilt að taka ákvörðun um stjórn, kjör stjórnarmanna, reglur um valnefnd, nafn sameinaðs lífeyrissjóðs og annað sem máli skiptir svo tryggja megi að samruni lífeyrissjóðanna gangi eftir. Sú stjórn sem aukaársfundir Stafa lífeyrissjóðs og Sameinaða lífeyrissjóðsins velja skal móta fjárfestingarstefnu sjóðanna og að öllu leyti hafa þær heimildir sem mælt er fyrir um í samþykktum þessum.

7. gr. Reikningar og endurskoðun

7.1 Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og skal ársreikningur gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

8. gr. Tryggingafræðileg athugun

8.1 Stjórn lífeyrissjóðsins skal árlega láta reikna út fjárhag samtryggingardeildar og skal niðurstaða athugunarinnar vera hluti af reikningsskilum lífeyrissjóðsins um hver áramót. Athugunin skal framkvæmd af tryggingafræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hafa viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs. Fyrir 15. maí ár hvert skal senda Fjármálaeftirlitinu hina tryggingafræðilegu athugun. Tryggingafræðileg athugun skal framkvæmd í samræmi við 39. gr. laga nr. 129/1997.

8.2 Hrein eign samtryggingardeildar til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af.

8.3 Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að munur á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga, skv. 8.2, er meiri en heimilaður er í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997, er stjórn lífeyrissjóðsins skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans.

8.4 Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að fjárhagur samtryggingardeildar er ótryggur og ætla megi að eignir muni ekki duga fyrir skuldbindingum, samkvæmt 8.2, skal stjórn sjóðsins að höfðu samráði við tryggingafræðing gera tillögur til ársfundar um lækkun lífeyrisréttinda, sem grípa skal til, enda finnast ekki aðrar leiðir til að bæta fjárhag deildarinnar. Ekki er þó hægt að lækka réttindi meira en að þeim lágmarksréttindum, sem deildinni er skylt að veita, sbr. ákvæði greinar 2.2.

8.5 Nú leiðir tryggingafræðileg athugun í ljós að fjárhagur samtryggingardeildar er svo ótryggur að við svo búið má ekki standa og ætla má, miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur, að eignir hennar muni ekki duga fyrir skuldbindingum miðað við þau lágmarksréttindi, sem lífeyrissjóðnum er skylt að veita, sbr. grein 2.2. Skal stjórn sjóðsins þá boða til aukaársfundar eins fljótt og verða má og eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hin tryggingafræðilega niðurstaða lá fyrir. Á fundinum skal stjórn sjóðsins leggja fram tillögur um sameiningu við annan samtryggingarsjóð eða lokun sjóðsins. Jafnframt skal stjórn sjóðsins leggja fram tillögur um hjá hvaða lífeyrissjóði tryggja beri sjóðfélögum lífeyrisrétt. Tillögurnar skal afgreiða með sama hætti og tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins.

9. gr. Ávöxtun fjár sjóðsins

9.1 Stjórn sjóðsins mótar fjárfestingarstefnu sjóðsins og sér um ráðstöfun á fjármagni hans og er henni skylt að ávaxta það með hliðsjón af þeim kjörum, sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til áhættu og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum sjóðsins. Fjárfestingar sjóðsins og fjárfestingarstefna hans skulu vera í samræmi við heimildir laga og uppfylla allar þær kröfur um form og efni, sem gerðar eru í ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nú VII. kafla l. nr. 129/1997, og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma.

9.2 Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu þar sem sett eru viðmið um að hvaða marki skuli fjárfesta í einstökum eignaformum, sbr. gr. 9.1. Þar skal enn fremur koma fram markmið m.a. um dreifingu eigna, tímalengd krafna, myntsamsetningu, seljanleika og aðrar þær viðmiðanir, sem stjórn sjóðsins telur að gefi gleggsta mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins.

9.3 Á ársfundi skal stjórnin leggja fram fjárfestingarstefnu og gera grein fyrir breytingum frá fyrra ári.

10. gr. Iðgjöld

10.1 Lágmarksiðgjald til sjóðsins skal vera í samræmi við 2. gr. laga nr. 129/1997 eða hærra kveði samningar á um slíkt. Sé um launamann að ræða, skiptist iðgjaldið þannig, að launamaður greiðir 4% af iðgjaldastofni hið minnsta og launagreiðandi að lágmarki 8%. Um ráðstöfun iðgjalds umfram lágmarksiðgjald skal fara að ákvæðum kjarasamninga stéttarfélaga og/eða aðildarfélaga sjóðsins hverju sinni. Hlutfall iðgjalds í tilgreinda séreign, sbr. gr. 17, fer eftir ákvörðun sjóðfélaga og innan þeirra marka sem kjarasamningur mælir fyrir um.

10.2 Lágmarksiðgjald samkvæmt 10.1 skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana, fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrk, dagpeninga og fæðispeninga, sbr. 3. gr. laga nr. 129/1997. Nú eru laun greidd vikulega, og skal þá mánaðarlegt uppgjör miðast við þær vikur, fjórar eða fimm, sem lýkur í mánuðinum.

10.3 Iðgjaldastofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 58. gr. þeirra laga.

10.4 Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. dag næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan þess mánaðar, skal innheimta dráttarvexti eins og þeir eru ákvarðaðir af Seðlabanka Íslands, sbr. III. kafla vaxtalaga, frá gjalddaga til greiðsludags. Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna lífeyrissjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum.

10.5 Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

10.6 Iðgjöld sjóðfélaga, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil, sbr. 10.7 og 10.8. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda, sem glatast við gjaldþrot og Ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á, skv. 10. grein laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa. (Meðal annars er um að ræða réttindi eigenda, stjórnarmanna og annarra stjórnenda gjaldþrota fyrirtækis, maka þeirra og skyldmenna).

10.7 Hálfsárslega skal senda greiðandi sjóðfélögum yfirlit um iðgjöld og réttindi sín. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga um að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Sjóðnum er heimilt að skila yfirlitum með rafrænum hætti óski þeir eftir því. Sjóðurinn skal samtímis með opinberri auglýsingu skora á alla þá sem telja sig hafa greitt iðgjöld til sjóðsins á undangengnu tímabili og ekki fengið yfirlit skv. framansögðu að gera sjóðnum án tafar viðvart um ætluð vanskil. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Lífeyrissjóðurinn skal samhliða greiðsluyfirliti eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa eftirlaunalífeyrisaldri.

10.8 Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðenda. Heimilt er lífeyrissjóði að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil, ekki tilkynnt um að hann hafi hætt starfsemi eða að launþegar sem greiða til lífeyrissjóðsins hafi látið af störfum.

10.9 Öllum innborgunum launagreiðenda, hvort heldur sem þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, skal ráðstafa til greiðslu vanskilavaxta og elstu ógreiddra iðgjalda og mynda réttindi samkvæmt því. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í því tilfelli þegar hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum sbr. grein 10.8 fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þess tímabils. Enn fremur ef lög kveða á um annað samanber meðferð mála á greiðslustöðvunartímabili launagreiðanda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskilavaxta á hana.

10.10 Senda skal innheimtuviðvörun til launagreiðenda, ef iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum hans hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga. Formlega innheimtu skal hefja innan 15 daga frá útsendingu innheimtuviðvörunar.

10.11 Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að iðgjöld samkvæmt 10.1 skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð eftirlaunalífeyrisréttindi fyrir maka hans, sbr. 14.6. Þessari skiptingu iðgjalda skal hætt að ósk sjóðfélaga, enda framvísi hann skilríkjum um að fjárfélagi hans og maka hans hafi verið slitið eða aðilar gert með sér nýtt samkomulag.

11. gr. Grundvöllur lífeyrisréttinda

11.1 Grundvöllur lífeyrisréttinda sjóðfélaga eru þau iðgjöld sem greidd hafa verið til sjóðsins. Afla þau réttar til eftirlaunalífeyris, örorku-, maka- og barnalífeyris eins og kveðið er á um í greinum 12. til 15. og réttindatöflum sjóðsins. Réttindatöflur sjóðsins sem fylgja samþykktum í viðauka segja til um réttindi til eftirlaunalífeyris fyrir greitt iðgjald og áhrif af breytingu á lífeyrisaldri sbr. ákvæði 12. gr. og skoðast sem hluti af samþykktum þessum.

11.2 Áunnin lífeyrisréttindi í sjóðnum skulu taka sömu breytingum og vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Eftir að taka lífeyris hefst skal lífeyrir verðtryggður samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Krónutölur í samþykktum þessum, aðrar en tölur í réttindatöflum Töflu I og Töflu III, breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá gildi hennar í janúar 1996, 174,2 stigum.

11.3 Á hverjum tíma skal við það miðað að iðgjöld standi á hverju aldursskeiði undir þeim réttindum sem veitt eru með réttindatöflum sjóðsins ef miðað er við þær forsendur sem notaðar eru við tryggingafræðilega athugun sjóðsins. Myndist misræmi þar á milli vegna breyttra reikniforsenda, skal stjórn sjóðsins í samráði við tryggingafræðing sjóðsins gera tillögu um nýjar réttindatöflur sem lagðar skulu fyrir ársfund til samþykktar. Í tillögunni skal kveðið á um gildistökudag taflnanna og hefur slík breyting réttindataflna ekki áhrif á þau réttindi sem áunnist hafa fyrir gildistökudag hinna nýju taflna.

11.4 Ekki skal reikna réttindi fyrir tíma eftir lok þess mánaðar er sjóðfélagi nær 70 ára aldri.

11.5 Lágmarkstryggingarvernd sem sjóðurinn veitir ákvarðast af innborguðum iðgjöldum og ákvæðum Töflu I. Nánari ákvæði um lágmarkstryggingarvernd er að finna í greinum 12.-15. Iðgjald til öflunar lágmarkstryggingarverndar skal nema að lágmarki 12% af iðgjaldastofni. Lágmarkstryggingarvernd er miðuð við 40 ára réttindaöflun fyrir jafna greiðslu iðgjalda frá 26 ára aldri.

11.6 Áunnin geymd lífeyrisréttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóðnum Lífiðn og Samvinnulífeyrissjóðnum þann 31.12.2005 skulu varðveitt skv. réttindareglum sem giltu þann dag í hlutaðeigandi lífeyrissjóðum og uppfærist með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Um áhrif frestunar eða flýtingar á fjárhæð skv. áunnum rétti þann 31.12.2005 fer skv. meginreglu gr. 12.3 og 12.4 eins og sýnt er í Töflu II.

11.7 Áunnin geymd makalífeyrisréttindi sjóðfélaga er aflað var í Stöfum lífeyrissjóði frá 01.01.2006 til 31.12.2009 skulu varðveitt skv. réttindareglum sem þá giltu.

11.8 Áunnin geymd makalífeyrisréttindi sjóðfélaga er aflað var í Sameinaða lífeyrissjóðnum til 31.12.2016 skulu varðveitt skv. réttindareglum sem þá giltu.

11.9 Tryggingadeild samkvæmt samþykktum þessum yfirtekur áunnin réttindi tryggingadeildar Sameinaða lífeyrissjóðsins, þ.e. aldursháð réttindakerfi og stigakerfi, samkvæmt þeim réttindareglum sem um þær deildir giltu fyrir gildistöku samþykkta þessara. Jafnframt yfirtekur deildin eignir þessara deilda frá sama tíma.

11.10 Sjóðfélagi sem myndað hefur réttindi í tryggingadeild; stigakerfi, skv. eldri samþykktum Sameinaða lífeyrissjóðsins, er heimilt að greiða áfram til tryggingadeildar í jafnri ávinnslu, skv. þeim réttindareglum og réttindatöflu sem voru í gildi fyrir sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Réttur til jafnrar ávinnslu fellur niður, sé hann ekki nýttur án eðlilegra skýringa, að mati sjóðstjórnar.

11.11 Um áunnin réttindi fer eftir samþykktum Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs til og með 31. desember 2016. Eftir það skal fara um réttindin eftir reglum sameinaðs sjóðs. Skal fara um rétt til örorkulífeyris eftir reglum sjóðsins frá og með 1. janúar 2017. Hafi orkutap orðið fyrir það tímamark skulu þó gilda um rétt til örorkulífeyris þær reglur sem í gildi voru þegar orkutapið átti sér stað. Fara skal um makalífeyri sem greiddur hefur verið á grundvelli eldri reglna með sama hætti og verið hefur. Réttur til fjölskyldubóta samkvæmt samþykktum Sameinaða lífeyrissjóðsins nær aðeins til tilvika sem stofnast hafa fyrir 31. desember 2016 en eftir það samkvæmt samþykktum sameinaðs sjóðs.

11.12 Eigi sjóðfélagi við útreikning örorku- og makalífeyrisréttinda rétt vegna fleiri en 30 ára skulu þau reiknuð þannig að réttindi vegna 30 bestu áranna skulu talin að fullu, en réttindi vegna þess sem umfram er að hálfu. Þó skulu lífeyrisréttindi aldrei reiknast lægri en áunnin réttindi. Við framkvæmd reglu þessarar skal reikna með jafnri ávinnslu í samræmi við hlutdeild viðmiðunariðgjalds sjóðfélagans af þeim iðgjöldum sem lögð eru til grundvallar framreikningi.

II. Samtryggingardeild


12. gr. Eftirlaunalífeyrir

12.1. Hver sjóðfélagi, sem orðinn er fullra 67 ára að aldri, á rétt á eftirlaunalífeyri úr sjóðnum.

12.2 Eftirlaunalífeyrir ákvarðast af því iðgjaldi, sem greitt hefur verið til sjóðsins vegna sjóðfélagans sbr. þó ákvæði 12.6 um gagnkvæma og jafna skiptingu eftirlaunalífeyrisréttinda. Iðgjald veitir réttindi í samræmi við Töflu I. Aldur sjóðfélaga er reiknaður sem aldur í lok þess mánaðar sem iðgjaldatímabil telst til.

12.3 Heimilt er sjóðfélaga að hefja töku eftirlaunalífeyris, áður en hann nær 67 ára aldri, þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri. Skal þá upphæð eftirlaunalífeyris lækka frá því, sem í 12.2 segir, í samræmi við ákvæði Töflu II.

12.4 Við töku eftirlaunalífeyris fyrir 67 ára aldur ráðstafar sjóðfélagi eftirlauna- og örorkulífeyrisréttindum sínum endanlega og á því ekki sjálfstæðan rétt til örorkulífeyris eftir það. Hafi hann áunnið sér viðbótarrétt til eftirlaunalífeyris með iðgjaldagreiðslum eftir að hann hóf töku lífeyris skal endurúrskurða honum eftirlaunalífeyri hafi hann misst starfsorku sem nemur 50% eða meira.

12.5 Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku eftirlaunalífeyris allt til 80 ára aldurs, og hækkar þá upphæð eftirlaunalífeyris vegna réttinda, sem áunnin voru fram til 67 ára aldurs, í samræmi við ákvæði Töflu II. Greiða skal eftirlaunalífeyri eigi síðar en vegna næsta mánaðar eftir 70 ára afmælisdaginn, hafi umsókn ekki borist.

12.6 Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi, eftir að hann hefur hafið töku eftirlaunalífeyris, skulu réttindi hans reiknuð á ný, er hann hefur náð 70 ára aldri. Stjórn sjóðsins getur ákvarðað tíðari endurúrskurði vegna iðgjalda sem berast eftir að taka lífeyris hefst. Hækkun vegna frestunar reiknast á lífeyrisréttindi sem áunnin eru eftir að taka lífeyris hefst samkvæmt Töflu II.

12.7 Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku eftirlaunalífeyris hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku hálfs eftirlaunalífeyris hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta eftirlaunalífeyrisréttinda sinna, sbr. gr. 12.4. Ákvæði gr. 12.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði gr. 12.5 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.

12.8 Sjóðfélagi sem hafið hefur töku eftirlaunalífeyris við gildistöku þessa ákvæðis getur með sérstakri umsókn þar að lútandi fram til 1. janúar 2020 farið á hálfan eftirlaunalífeyri. Skal þá tryggingastærðfræðingur meta sérstaklega áhrif frestunar‐ og/eða flýtingar á fjárhæð lífeyris enda gilda ekki ákvæði gr. 12.3 og 12.5 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki, þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæðum gr. 12.3 og 12.5. Sjóðfélagi sem nýtir sér ákvæði þetta telst eftir sem áður hafa ráðstafað réttindum endanlega samkvæmt ákvæði gr. 12.4.

12.9 Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið skipan mála skv. 1.-3. tölul. þessarar málsgreinar. Samkomulag þetta skal eftir því sem við á ná til eftirlaunagreiðslna, verðmætis eftirlaunaréttinda eða eftirlaunaréttinda beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur eða óvígð sambúð hefur staðið eða stendur:

  1. Að eftirlaunagreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Viðkomandi lífeyrissjóður skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki sem nýtur slíkra greiðslna hinsvegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.
  2. Áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum, að verðmæti uppsafnaðra eftirlaunaréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð eftirlaunaréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.
  3. Að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda eftirlaunaréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar og viðbótartryggingarverndar skal litið svo á að iðgjaldastofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu.
13. gr. Örorkulífeyrir

13.1 Sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi, sem telja verður að nemi 50% eða meira skv. 13.2 og og greitt hefur í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum sem er jafn hár áunnum eftirlaunalífeyri fram að orkutapi.

13.1.1 Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 15.3 vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.

Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið reiknaðar til úrskurðardags, sbr. gr. 13.4.1 um framreikning. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á launavísitölu.

Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Tekjur vegna útgreiðslna á viðbótarlífeyrissparnaði skulu ekki teknar með við útreikning tekjumissis og viðmiðunartekna.

13.2 Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda aftur í tímann, svo og áliti trúnaðarlæknis sjóðsins. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skal mat orkutaps aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi, sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal hundraðshluti orkutaps ákvarðaður að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum. Hafi sjóðfélagi verið öryrki er hann hóf iðgjaldagreiðslur í sjóðinn fellur niður réttur til örorkulífeyris sem leiðir af þeirri örorku.

13.2.1 Heimilt er að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris, að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans, enda sé þess gætt að slík endurhæfing standi honum til boða og aðstæður viðkomandi leyfi að hann nýti sér hana.

13.3 Þegar skilyrði 13.1 og þessa töluliðs eru uppfyllt, miðast hámark örorkulífeyris við áunninn eftirlaunalífeyrisrétt samkvæmt 12. gr. að viðbættum lífeyri, er svarar til þeirra réttinda, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknað samkvæmt 13.4, enda hafi sjóðfélagi:

a. Greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og ekki minna en kr. 34.000 hvert þessara þriggja ára.

b. Greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. sex mánuði á undanfarandi 12 mánuðum.

c. Ekki orðið fyrir orkutapi, sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja, eða fíkniefna.

13.3.1 Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði, skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs, sbr. þó ákvæði Samkomulags um samskipti lífeyrissjóða.

13.3.2 Hafi sjóðfélagi skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldagreiðslur til þessa sjóðs á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til framreiknings í þessum sjóði, ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars, sem leitt hefur til orkutapsins.

13.3.3 Séu sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi, að hann hefur ekki getað uppfyllt tímaskilyrði þau, sem nefnd eru í a-lið 13.3, er sjóðstjórn heimilt að stytta þann tíma, sem þar er krafist, í tvö undanfarandi almanaksár. Hafi sjóðfélagi hins vegar öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til sjóðsins.

13.4 Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt samkvæmt 13.3 á framreikningi réttinda, skal sá framreikningur vera sem hér segir:

13.4.1 Reikna skal meðaltal greiddra iðgjalda sjóðfélaga næstu fjögur almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórn rökstudda ástæðu til að ætla að þetta fjögurra ára meðaltal endurspegli ekki venjubundnar greiðslur, er henni heimilt að leggja til grundvallar meðaltal greiddra iðgjalda átta ár aftur í tímann. Við útreikning meðaliðgjalds þessa tímabils skal hvorki taka tillit til þess árs sem lægst iðgjöld bárust vegna sjóðfélaga né þess árs sem iðgjaldsgreiðslur voru hæstar og reikna meðaliðgjaldið því af iðgjöldum þeirra sex ára sem þá standa eftir. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld í skemmri tíma en átta ár skal reikna út frá viðkomandi árafjölda.

13.4.2 Hafi sjóðfélagi skerta almenna starfsorku fyrir þann tíma, er hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins, og meta má þá starfsorkuskerðingu 50% eða meira, skal reikna meðaltal iðgjalda hans öll þau almanaksár, sem hann hefur greitt iðgjöld. Skal þá miða framreikning við þetta meðaltal.

13.4.3 Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular, að þær hafa fallið niður eða verið innan við kr. 34.000 á ári fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs, er sjóðfélagi náði 25 ára aldri,og sennilegt má telja að vanheilsa, áfengisneysla eða notkun lyfja eða fíkniefna hafi átt þátt í stopulum greiðslum, og skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára, sem árlegar iðgjaldagreiðslur hafa verið undir viðmiðunarmörkum og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Sama gildir, ef stopular iðgjaldagreiðslur stafa af undanskoti frá greiðsluskyldu til lífeyrissjóða.

13.4.4 Nemi meðaltal árlegra iðgjaldagreiðslna, sem miða skal framreikning við samkvæmt gr. 13.4.1 eða 13.4.2 meira en 120.000 kr., skal reikna með meðaltalinu allt að tíu árum, en síðan til 65 ára aldurs reiknað með 120.000 kr. iðgjöldum á ári að viðbættum helmingi þeirra iðgjalda sem umfram eru.

13.4.5 Ef rekja má sjúkdóma þá, sem valda orkutapi sjóðfélaga, svo langt aftur í tímann, að nemi a.m.k. helmingi almanaksára frá lokum þess árs, er sjóðfélagi náði 16 ára aldri, til þess tíma, er orkutap telst hafa orðið, skulu framreiknuð verðtryggð réttindi aldrei reiknast meiri en þau verðtryggðu réttindi, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér í lífeyrissjóðum fram að orkutapi.

13.5 Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó 13.1.

13.6 Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Ekki er greiddur örorkulífeyrir, ef orkutap, skv. 13.2 hefur varað skemur en í sex mánuði.

13.7 Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.

13.8 Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra sjóðfélaga, sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan eykst til muna frá því, sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma, er örorkan jókst, ekki verið í starfi, er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.

13.9 Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur. Eftirlaunalífeyrir skal þá ákveðinn þannig, að auk áunninna réttinda til eftirlaunalífeyris skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku segir til um og vegna þess tíma sem sjóðfélagi hefur notið örorkulífeyris, eftirlaunaréttindi vegna iðgjalda, sem við úrskurð örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum fram til 65 ára aldurs.

14. gr. Makalífeyrir

14.1 Nú andast sjóðfélagi, sem naut eftirlauna- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, greitt hafði iðgjald til hans a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, eða öðlast rétt til framreiknings skv. gr. 13.3 og lætur eftir sig maka, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.

14.2 Láti sjóðfélagi eftir sig eitt barn eða fleiri innan 19 ára aldurs, sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum, skal fullur makalífeyrir greiddur fram að 19 ára aldri yngsta barnsins, enda sé barn á framfæri eftirlifandi maka. Sama gildir ef makinn hefur á framfæri sínu barn sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt, enda hafi ættleiðingin átt sér stað áður en hann missti starfsorku sína.

14.3 Sé maki a.m.k. 50% öryrki við fráfall sjóðfélaga, skal greiddur fullur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára.

14.4 Stofnist réttur til makalífeyris skv. 14.1, 14.2, 14.3 eða 17.2 skal fullur makalífeyrir alltaf greiddur að lágmarki í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.

14.5 Fullur makalífeyrir er helmingur af áunnum réttindum til eftirlaunalífeyris. Þegar skilyrði 14.1 um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt, skal auk áunninna réttinda telja þau réttindi, sem ætla má, að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 13.4. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum, skal reikna réttindi frá þeim tíma, er honum var veittur örorkulífeyrir, og til þess tíma, er makalífeyrir er veittur allt að 65 ára aldri, í samræmi við ákvæði 13.9 en síðan til 65 ára aldurs í samræmi við þau iðgjöld, sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði, skal hann því aðeins njóta framreiknaðra réttinda úr þessum sjóði, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Séu skilyrði 14.1 um iðgjaldagreiðslutíma ekki uppfyllt, ákvarðast upphæð makalífeyris í samræmi við 17.2.

14.6 Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem var í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem öldungis mátti jafna til hjúskapar við andlátið, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn stofnar til hjúskapar eða óvígðrar sambúðar sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi, ef síðari ráðahag er slitið án réttar til lífeyris.

15. gr. Barnalífeyrir

15.1 Nú andast sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, eða notið úr honum örorkulífeyris, eða öðlast rétt til framreiknings skv. gr. 13.3, og eiga þá börn hans og kjörbörn, er hann lætur eftir sig og yngri eru en 18 ára, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 18 ára aldurs. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði, skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði, að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

15.2 Fullur barnalífeyrir vegna fráfalls sjóðfélaga er kr. 8.600 með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Sama rétt hafa börn sjóðfélaga fædd á næstu 10 mánuðum eftir andlát. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við vísitölu, sbr. 11.2. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árlegar iðgjaldagreiðslur, áætlaðar í samræmi við 14.5, eru a.m.k. kr. 55.000. Séu áætlaðar greiðslur lægri, lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður, ef árlegar iðgjaldagreiðslur eru lægri en kr. 27.500.

15.3 Sé sjóðfélaga úrskurðaður örorkulífeyrir úr sjóðnum vegna 100% örorku, öðlast börn hans, fædd fyrir orkutap eða á næstu 10 mánuðum þar á eftir, svo og kjörbörn, sem ættleidd hafa verið fyrir orkutap, sama rétt og börn látins sjóðfélaga njóta samkvæmt 15.2. Sé örorka samkvæmt 13. gr. metin lægri en 100%, skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir, sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga, fellur ekki niður, þótt sjóðfélaginn nái eftirlaunalífeyrisaldri.

15.4 Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu, ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.

15.5 Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins til 18 ára aldurs barnsins.

15.6 Öðlist barn rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði, skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði, að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs, sbr. þó ákvæði Samkomulags um samskipti lífeyrissjóða.

15.A gr. Fjölskyldubætur

15.A.1 Til viðbótar þeim fjölskyldulífeyri (maka- og barnalífeyri) sem skilgreindur er að framan, skal sjóðurinn greiða til eftirlifandi maka eða barna, eingreiðslu við andlát sjóðfélaga, enda sé hinn látni yngri en 67 ára og börn hins látna yngri en 18 ára.

15.A.2 Barnabætur nema eins mánaðar lífeyri skv. gr. 15.2 til hvers barns margfölduðum með fjölda mánaða sem iðgjöld bárust sjóðnum sl. 12 mánuði fyrir andlát sjóðfélaga.

15.A.3 Greiðslur til maka nema 25 földu framlagi launamanns af iðgjaldastofni, sem greitt hefur verið til sjóðsins vegna sjóðfélagans síðustu 12 mánuði fyrir andlát. Hafi iðgjaldagreiðslur lækkað eða fallið niður vegna veikinda er sjóðstjórn þó heimilt að leggja annað 12 mánaða tímabil til grundvallar, sem þó skal vera innan 18 mánaða fyrir andlát.

15.A.4 Fjárhæðir skv. gr. 15.A.3 lækka um 6% fyrir hvert ár sem sjóðfélagi er eldri en 45 ára, þó skal lækkun ekki nema meir en 90%.

III. Séreignardeild


16. gr. Séreignardeild

16.1 Séreignardeild lýtur sömu stjórn og aðrar deildir sjóðsins. Rekstur séreignardeildar, sem lýtur að varðveislu og ávöxtun iðgjalds skal vera fjárhagslega aðskilinn og ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi.

16.2 Þeir sem greiða vilja til séreignardeildarinnar, skulu gera um það skriflegan samning og felst í honum yfirlýsing um, að þeir vilji hlíta samþykktum sjóðsins. Í samningi um viðbótartryggingarvernd og séreignarsparnað skal koma fram nafn og kennitala greiðanda, mánaðarlegt innlegg og hvaða reglur gilda um útborgun og réttindi að öðru leyti. Allir skilmálar varðandi viðbótartryggingarvernd skulu koma fram í samningnum. Greiðslur samkvæmt samningi skulu hefjast eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samningur er gerður. Heimilt er að segja samningi upp með tveggja mánaða fyrirvara. Greiði sá sem segir upp samningi, ekki til lágmarkstryggingarverndar lífeyrissjóðsins, tekur uppsögnin þó ekki gildi fyrr en sá sem segir samningi upp hefur sannanlega tilkynnt hana til þess lífeyrissjóðs, sem ráðstafar iðgjaldi hans til lágmarkstryggingarverndar. Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda, en um flutning fer samkvæmt gr. 16.9. Greiði aðili ekki iðgjald vegna lágmarkstryggingarverndar til sjóðsins skal leita staðfestingar aðildar viðkomandi launamanns að þeim lífeyrissjóði, sem veitir móttöku iðgjaldi til lágmarkstryggingarverndar.

16.3 Hefja má úttekt á innstæðu eða gera sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, þó aldrei fyrr en rétthafi hefur fullnægt sérstökum viðbótarskilyrðum skv. 16.3.1, 16.3.2, 16.3.3 eða 16.3.4.

16.3.1 Þegar rétthafi er orðinn 60 ára, er heimilt að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum hvort heldur sem er í eingreiðslu eða jöfnum greiðslum.

16.3.2 Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100%, á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.

16.3.3 Deyi rétthafi áður en innstæðan er að fullu greidd út, fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

16.3.4 Ef inneign rétthafa er lægri en 500.000 kr. skal samkvæmt ósk greiða rétthafa hana á skemmri tíma en mælt er fyrir um í 11. gr. laga nr. 129/1997 eða í eingreiðslu óski hann þess. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

16.4 Með jöfnun greiðslum skv. 16.3.1, 16.3.2, 16.3.3 og 16.3.4 er átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðsluára, þannig að rétthafi fái á hverju ári þann hluta af innstæðunni, að meðtöldum vöxtum, sem samsvarar fjölda þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að gera sérstakan samning um mánaðarlega útborgun tiltekinnar krónutölu. Útborgunin skal þá breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Samningur þessi er að öllu leyti til ákveðins tíma, sbr. skilyrði 16.3.1, 16.3.2, 16.3.3 og 16.3.4 um lágmarkstíma.

16.5 Stjórn sjóðsins er heimilt, að fenginni skriflegri beiðni einstakra rétthafa að draga af inngreiddum iðgjöldum þeirra, upphæð sem svarar til iðgjalds vegna heilsutryggingar. Lífeyrissjóðurinn skal vera aðili að samningum um slíkar tryggingar og komi til greiðslu tryggingafjár til rétthafa skal hún greidd rétthafa í samræmi við 11. gr. laga nr. 129/1997.

16.6 Framlög hvers rétthafa í séreignardeild skulu færð á sérreikning hans. Auk þess skal færa til eignar hjá hverjum rétthafa þær tekjur af vöxtum og verðbótum, sem sjóðnum áskotnast vegna eignar hans í sjóðnum og draga frá rekstrarkostnað.

16.7 Greiðslur reiknast í samræmi við réttindi hvers og eins. Réttindi vegna greiðslna miðast við greiðsludag iðgjalds.

16.8 Ekki verður gerð aðför að réttindum í séreignardeild og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða réttindin á nokkurn hátt.

16.9 Nú óskar rétthafi eftir að flytja inneign sína til annars aðila og er honum þá heimilt að flytja inneign sína eða réttindi sín, að undangenginni uppsögn til vörsluaðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, að frádregnum kostnaði, sem nemur allt að einu prósenti af inneign viðkomandi sjóðfélaga.

16.10 Um heimild til endurgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign til erlendra ríkisborgara gilda ákvæði 4. mgr. 19. gr. l. nr. 129/1997.

IV. Tilgreind séreignardeild (T-deild)


17. gr. Tilgreind séreignardeild (T-deild)

17.1 Tilgreind séreignardeild (T-deild) lýtur sömu stjórn og aðrar deildir sjóðsins. Rekstur T-deildar, sem lýtur að varðveislu og ávöxtun iðgjalds skal vera fjárhagslega aðskilinn og ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi.

17.2 Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldsstofni umfram 12% af iðgjaldsstofni í T-deild, enda sé mælt fyrir um slíkt í kjara- eða ráðningarsamningi.

17.3 Þeir sem greiða vilja til T-deildar skulu tilkynna það til sjóðsins með sannanlegum hætti eftir þeim reglum sem sjóðurinn setur og í samræmi við ákvæði gildandi laga. Sjóðfélagar geta með sama hætti tilkynnt að þeir óski eftir að hætta greiðslum í Tdeild að hluta eða öllu leyti og rennur iðgjaldið þá til samtryggingardeildar.

17.4 Lífeyrissjóðurinn skal gera breytingar á ráðstöfun iðgjalds til samræmis við ákvörðun sjóðfélaga eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur almanaksmánuðum frá því að tilkynning berst með sannanlegum hætti. Ákvörðun um breytingu á ráðstöfun iðgjalds til framtíðar hefur ekki áhrif á þegar ráðstafað iðgjald.

17.5 Hefja má úttekt innstæðu úr T-deild þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris samkvæmt 12. gr. samþykkta þessara, þó ekki fyrr en frá 62 ára aldri, og skulu greiðslur að lágmarki dreifast fram til 67 ára aldurs. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig.

17.6 Rétthafi, sem vegna örorku verður að hætta störfum áður en hann nær 60 ára aldri, á rétt á að fá inneign sína í T-deild greidda með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á eigi skemmri tíma en 7 árum. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig.

17.7 Deyi rétthafi áður en innstæðan er að fullu greidd, fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

17.8 Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á eina eða fleiri ávöxtunarleiðir í T-deild. Móta skal sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997. Ef boðið er upp á fleiri en eina ávöxtunarleið tilkynnir sjóðfélagi um val á milli leiða með tilkynningu til sjóðsins á því formi sem sjóðurinn ákveður. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið fyrir T-deild getur sjóðfélagi óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur.

V. Ýmis ákvæði


18. gr. Iðgjaldagreiðslur falla niður

18.1 Nú falla niður launagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda, og ávinnur hann sér þá ekki réttindi meðan svo stendur. Tímabil, er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður af þessari ástæðu, reiknast ekki með, þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.

18.2 Réttur til eftirlauna-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður, þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin geymd réttindi.

19. gr. Endurgreiðsla iðgjalda

19.1 Heimilt er að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara, þegar þeir flytjast úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi, sem Ísland er aðili að. Óheimilt er að takmarka endurgreiðsluna við tiltekinn hluta nema á tryggingafræðilega réttum forsendum. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingarverndar, sem sjóðfélaginn hefur notið, og kostnað vegna umsýslu samkvæmt mati tryggingafræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjald ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skv. gildandi milliríkjasamningum.

19.2 Endurgreiðslufjárhæðin er tiltekið hlutfall skv. mati tryggingafræðings af þeim iðgjöldum sem innborguð hafa verið vegna viðkomandi sjóðfélaga, verðbættum með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar til greiðsludags.

19.3 Af iðgjöldum, sem sjóðnum eru greidd vegna starfsmanna, sem náð hafa 70 ára aldri, sbr. 10.1 og 11.4, skal hann endurgreiða sjóðfélaga og launagreiðenda iðgjaldahluta þeirra.

20. gr. Samningar um gagnkvæm réttindi o.fl.

20.1 Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl. Í slíkum samningum má víkja frá biðtíma og bótaákvæðum samþykkta þessara í því skyni að koma í veg fyrir brottfall réttinda, þegar sjóðfélagi skiptir um starf, og tvítryggingu réttinda, sem ekki miðast við liðinn iðgjaldagreiðslutíma. Enn fremur er þar heimilt að ákveða, að sjálfstæð réttindi í einstökum sjóðum skuli samanlagt ekki vera meiri en heildarréttindin mundu verða hjá einum og sama sjóði. Slíkir samningar eru þó ekki bindandi fyrir sjóðinn, fyrr en þeir hafa hlotið samþykki Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, svo og staðfestingu fjármálaráðuneytisins.

21. gr. Tilhögun lífeyrisgreiðslna

21.1 Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð, er lífeyrisréttur myndaðist, og síðasta sinn fyrir þann mánuð, er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Umsókn telst ekki móttekin fyrr en öll tilskilin fylgigögn hafa borist sjóðnum og gildir yngsta móttökudagsetning. Vextir greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur.

21.2 Sjóðstjórn getur úrskurðað örorkulífeyri aftur í tímann í allt að tvö ár, reiknað frá byrjun þess mánaðar er umsókn berst sjóðnum. Réttur til lífeyrisgreiðslu fyrnist á fjórum árum, sbr. 3. ml. 6. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

21.3 Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k. kr. 2.500 á mánuði, og fyrirsjáanlegt er, að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi samkvæmt reglum í samræmi við tillögur tryggingafræðings. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 327,9 stig.

22. gr. Bann við framsali og veðsetningu lífeyris

22.1 Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.

22.2 Hafi lífeyrisþegi vísvitandi eða sviksamlega gefið rangar upplýsingar um starfsorku sína, tekjur, eða önnur atriði sem skipta máli við ákvörðun bóta er stjórn sjóðsins heimilt að krefja hann um endurgreiðslu á áður ofgreiddum lífeyri, ásamt vanskilavöxtum þeim er Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum hæst að taka.

23. gr. Málsmeðferð og gerðardómur

23.1 Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði sjóðstjórnar í máli, er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað því til gerðardóms. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum tilnefndum af sjóðnum og oddamanni tilnefndum af Fjármálaeftirlitinu. Gerðardómurinn skal úrskurða í málinu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga sem lágu fyrir sjóðstjórn er hún tók ákvörðun um málið. Komi fram nýjar kröfur, sönnunargögn og málsástæður við meðferð málsins fyrir gerðardómi skal málinu vísað aftur til sjóðstjórnar til endurupptöku. Sjóðstjórn er skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. Úrskurður gerðardómsins er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en 1/3 málskostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.

24. gr. Eftirlit

24.1 Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðsins í samræmi við lög nr. 129/1997 og 87/1998.

25. gr. Samningar við tryggingafélög um heilsutryggingar

25.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við tryggingafélag um heilsutryggingar fyrir einstaka hópa rétthafa, enda komi til sérstakt iðgjald vegna tryggingarinnar og greiðslu kostnaðar, sem til kann að falla vegna hennar, þannig að slík þjónusta greiðist ekki af iðgjaldi til lágmarkstryggingarverndar.

26. gr. Breytingar á samþykktunum

26.1 Tillögur sjóðfélaga um breytingar á samþykktum þessum má því aðeins taka fyrir, að þær hafi borist stjórn sjóðsins fyrir lok janúar. Stjórn sjóðsins skal, fullum tveimur mánuðum fyrir ársfund senda aðildarfélögum sjóðsins, aðildarfyrirtækjum skv. gr. 4.2 og SA tillögurnar til kynningar. Enn fremur verður að geta tillagnanna í fundarboði. Komi tillögur um breytingar á samþykktum þessum frá stjórn skal stjórn sjóðsins með sama hætti senda tillögurnar til kynningar fullum mánuði fyrir ársfund. Séu tillögur stjórnar um breytingar settar á grundvelli heimildarákvæða í settum lögum eða reglugerðum með stoð í lögum er heimilt að víkja frá framangreindum tímafrestum, enda standi til þess málefnaleg rök, að mati stjórnar. Miði tillaga að aukningu réttinda eða breytingum á fjárfestingarstefnu sem ætla má að haft geti áhrif á getu sjóðsins til greiðslu lífeyris skal fylgja tryggingafræðileg athugun á afleiðingum breytingarinnar á gjaldhæfi sjóðsins. Breytingartillögu, sem skert getur stöðu sjóðsins svo hann fullnægi ekki lágmarkskröfum samkvæmt samningi milli ASÍ og SA um lífeyrismál, 12. desember 1995, með síðari breytingum, skal vísa frá ársfundi. Tillögurnar skulu liggja frammi á skrifstofu sjóðsins í tvær vikur fyrir ársfund og þær auglýstar þannig að sjóðfélögum gefist kostur á að koma að athugasemdum á ársfundi.

26.2 Tillögur að breytingum á ákvæðum sem teljast efni kjarasamninga, s.s. um iðgjöld og stjórnskipan sjóðanna, þ.m.t. ákvæði um hlutverk og skipan fulltrúaráðs og stjórna, verða einungis teknar fyrir á ársfundi að fengnu samþykki aðildarfélaga viðkomandi lífeyrissjóðs.

26.3 Stjórn lífeyrissjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins án þess að bera þær undir ársfund eins og mælt er fyrir um í gr. 26.4, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða. Ef stjórn sjóðsins nýtir heimild samkvæmt ofangreindu skal hún gera grein fyrir henni á næsta ársfundi.

26.4 Breytingar á samþykktum þessum taka því aðeins gildi að þær hljóti samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra fulltrúa á ársfundi og hafi hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins.

VI. Gildistaka


27. gr. Gildistaka

27.1 Samþykktir þessar voru staðfestar á ársfundi Birtu lífeyrissjóðs 2. maí 2018 og koma í stað eldri samþykkta frá 1. júlí 2017. Samþykktirnar öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að staðfesting fjármála‐ og efnahagsráðuneytisins liggur fyrir. Þó skulu gr. 12.7 og gr. 12.8 ekki öðlast gildi fyrr en 1. september 2018.

VII. Töflur


Tafla I.

Taflan sýnir árlegan eftirlaunalífeyrisrétt við 67 ára aldur fyrir 10.000 kr. ársiðgjald. Gert er ráð fyrir mánaðarlegum greiðslum iðgjalds. Aldur sjóðfélaga er reiknaður sem aldur í lok þess mánaðar sem iðgjaldatímabil telst til.

Aldur sjóðfélaga í lok þess mánaðar sem iðgjaldatímabil hefst Eftirlaunalífeyrisréttindi m.v. samfelldar iðgjaldagreiðslur til 67 ára aldurs Eftirlaunalífeyrisréttindi fyrir iðgjald hvers árs
16 83.912 3.502
17 80.409 3.425
18 76.984 3.307
19 73.677 3.162
20 70.515 3.026
21 67.489 2.897
22 64.592 2.775
23 61.817 2.659
24 59.158 2.548
25 56.610 2.444
26 54.166 2.345
27 51.820 2.251
28 49.569 2.164
29 47.405 2.080
30 45.325 2.001
31 43.324 1.927
32 41.397 1.857
33 39.540 1.791
34 37.749 1.729
35 36.021 1.670
36 34.350 1.616
37 32.735 1.564
38 31.170 1.515
39 29.655 1.470
40 28.185 1.427
41 26.758 1.387
42 25.372 1.349
43 24.023 1.312
44 22.710 1.278
45 21.432 1.246
46 20.187 1.214
47 18.972 1.185
48 17.787 1.157
49 16.630 1.130
50 15.500 1.103
51 14.397 1.077
52 13.320 1.053
53 12.267 1.028
54 11.239 1.004
55 10.235 981
56 9.253 958
57 8.296 934
58 7.361 912
59 6.449 889
60 5.560 867
61 4.693 844
62 3.849 822
63 3.028 798
64 2.230 775
65 1.455 747
66 708 708

Réttindi í jafnri ávinnslu eru 1.203 kr. fyrir hvert 10.000 króna iðgjald skv. réttindatöflum í samþykktum Sameinaða lífeyrissjóðsins sem voru í gildi fyrir sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs til 1. janúar 2017.

Tafla II.
Flýting % á mánuði % árið % frá 67
milli 60 og 61 0,40 4,8 46,2
milli 61 og 62 0,45 5,4 41,4
milli 62 og 63 0,50 6,0 36,0
milli 63 og 64 0,55 6,6 30,0
milli 64 og 65 0,60 7,2 23,4
milli 65 og 66 0,65 7,8 16,2
milli 66 og 67 0,70 8,4 8,4
Frestun % á mánuði % árið % frá 67
milli 67 og 68 0,57 6,84 6,84
milli 68 og 69 0,64 7,68 14,52
milli 69 og 70 0,72 8,64 23,16
milli 70 og 71 0,81 9,72 32,88
milli 71 og 72 0,92 11,04 43,92
milli 72 og 73 1,05 12,60 56,52
milli 73 og 74 1,21 14,52 71,04
milli 74 og 75 1,40 16,80 87,84
milli 75 og 76 1,63 19,56 107,4
milli 76 og 77 1,91 22,92 130,32
milli 77 og 78 2,25 27,00 157,32
milli 78 og 79 2,68 32,16 189,48
milli 79 og 80 3,22 38,64 228,12
Tafla III.

Eingreiðslutafla – árlegur eftirlaunalífeyrisréttur fyrir 10.000 kr. iðgjald. Ekki er réttur til framreiknings örorku- og makalífeyris og ekki sjálfstæður réttur til barnalífeyris. Taflan sýnir réttindi m.v. aldur í heilum árum á greiðsludegi, notuð skal hlutfallsleg nálgun m.v. aldur í mánuðum á greiðsludegi.

16 3.663
17 3.540
18 3.420
19 3.303
20 3.192
21 3.086
22 2.985
23 2.888
24 2.796
25 2.707
26 2.622
27 2.541
28 2.463
29 2.388
30 2.316
31 2.248
32 2.181
33 2.117
34 2.055
35 1.996
36 1.937
37 1.882
38 1.828
39 1.776
40 1.725
41 1.676
42 1.628
43 1.582
44 1.537
45 1.493
46 1.450
47 1.408
48 1.368
49 1.328
50 1.289
51 1.251
52 1.214
53 1.177
54 1.140
55 1.105
56 1.070
57 1.035
58 1.001
59 967
60 934
61 901
62 868
63 835
64 803
65 770
66 730

Áunnin réttindi til og með 31. desember 2016


Um áunnin réttindi fer eftir samþykktum Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs til og með 31. desember 2016. Eftir það skal fara um réttindin eftir reglum sameinaðs sjóðs. Skal fara um rétt til örorkulífeyris eftir reglum sjóðsins frá og með 1. janúar 2017. Hafi orkutap orðið fyrir það tímamark skulu þó gilda um rétt til örorkulífeyris þær reglur sem í gildi voru þegar orkutapið átti sér stað. Fara skal um makalífeyri sem greiddur hefur verið á grundvelli eldri reglna með sama hætti og verið hefur. Réttur til fjölskyldubóta samkvæmt samþykktum Sameinaða lífeyrissjóðsins nær aðeins til tilvika sem stofnast hafa fyrir 31. desember 2016 en eftir það samkvæmt samþykktum sameinaðs sjóðs.