Breytingar á lánum


Eftir útgáfu skuldabréfs geta komið upp aðstæður sem kalla á breytingar á skuldabréfinu. Það getur verið vegna veðflutninga, yfirtöku nýs skuldara eða skilmálabreytingar vegna greiðsluerfiðleika svo dæmi séu tekin. Upplýsingar um kostnað og gjöld vegna lánabreytinga er að finna í gjaldskrá Birtu lífeyrissjóðs.

Það getur verið hagkvæmara að flytja eldra lán á nýja eign frekar en að taka nýtt lán, þar sem komast má hjá lántökukostnaði. Það veltur meðal annars á kjörum núverandi láns, þeim lánamöguleikum sem í boði eru hverju sinni og veðsetningarhlutfalli á nýrri eign.

Birta lífeyrissjóður getur heimilað veðflutning við eigendaskipti á íbúð. Skilyrði fyrir veðflutningi er að lán sé í skilum og að, veðstaða lánsins eftir veðflutning sé ekki umfram 65% af metnu markaðsverði hinnar nýju eignar sem löggiltur fasteignasali eða annar sérfróður aðili, tilnefndur af sjóðnum, framkvæmir. Veðflutningur má ekki leiða til aukinnar áhættu fyrir sjóðinn.

Gögn sem þurfa að fylgja:
Beiðni um veðflutning
Upplýsingar um eftirstöðvar áhvílandi lána eða síðustu greiðsluseðlar áhvílandi lána
Veðbókarvottorð
Fasteignamatsvottorð

Birta lífeyrissjóður áskilur sér rétt til að kalla eftir öðrum gögnum, sé þess þörf. Ef um aukna lántöku er að ræða samhliða veðlánaflutningnum þarf umsækjandi að gangast undir greiðslumat.

Beiðni um veðflutning PDF - 100,8 KB

Það getur verið hagkvæmt að taka yfir eldra lán. Ekki þarf að greiða lántökugjöld og eftir því sem lengra er liðið á lánstímann verður skuldalækkun hraðari og eignamyndun meiri. Gott er að bera saman kjör núverandi láns og þá lánamöguleika sem í boði eru hverju sinni.

Sé nafnabreytingar óskað, án þess að verið sé að selja viðkomandi eign, þarf umsækjandi að skila inn nýju mati á verðmæti eignarinnar. Nýr skuldari getur átt kost á að taka við láni en þá verður beiðni um nafnabreytingu að vera skrifleg. Afrit af kaupsamningi þarf sömuleiðis að fylgja með þar sem fram kemur markaðsvirði eignarinnar sem lánið hvílir á. Ef nýr skuldari er á vanskilaskrá ber að hafna umsókninni. Ef í ljós kemur skv. kaupsamningi að lánið rúmast ekki innan veðmarka, miðað við markaðsviði eignarinnar, er nýr skuldari ekki samþykktur nema að greitt sé inn á lánið þannig að það rúmist innan veðmarka.

Gögn sem þurfa að fylgja:
Beiðni um skuldaraskipti
Upplýsingar um eftirstöðvar áhvílandi láns eða síðustu greiddu greiðsluseðlar áhvílandi láns
Veðbókarvottorð.
Fasteignamatsvottorð

Birta lífeyrissjóður áskilur sér rétt til að kalla eftir öðrum gögnum, sé þess þörf. Ef um aukna lántöku er að ræða samhliða veðlánaflutningnum þarf umsækjandi að gangast undir greiðslumat.

Birta lífeyrissjóður býður þeim sem sjá fram á greiðsluerfiðleika vegna afborgana af sjóðfélagalánum upp á ýmis úrræði. Starfsfólk sjóðsins aðstoðar ef óskað er eftir því að finna hentuga lausn, enda uppfylli lántaki skilyrði lánareglna sjóðsins. Umsóknir um skilmálabreytingar ber að rökstyðja skriflega.

Helstu almennu úrræðin eru:
Lenging lánstíma í allt að 40 ár.
Breytinga jafnra afborgana í jafnar greiðslur.
Vanskilum bætt við höfuðstól.
Sérstakt úrræði, frysting láns
Frysting felur í sér að lántaki greiðir ekki af láninu á meðan frysting varir. Vextir og verðbætur tímabilsins bætast hins vegar við höfuðstólinn sem verður því nýr og hærri að þessu tímabili loknu þegar greiðslur hefjast að nýju. Skilyrði fyrir frystingu láns (frestun greiðslna) eru meðal annars:
Að greiðsluerfiðleikar stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna slysa, minni atvinnu, atvinnuleysis eða annarra ófyrirséðra atvika.
Að aðrir lánardrottnar umsækjanda samþykki einnig að veita aðstoð vegna greiðsluerfiðleika, ef við á.

Umsókn um frystingu láns þarf að berast sjóðnum að minnsta kosti 15 dögum fyrir fyrsta gjalddaga sem óskað er eftir frystingu á. Einnig ber að skila greinargerð þar sem ástæður umsóknar um frystingu eru tilgreindar. Frysting fellur niður við sölu fasteignar. Við skilmálabreytingar þarf samþykki síðari veðhafa ef breytingin getur haft áhrif á rétt hans/þeirra. Starfsfólk sjóðsins veitir nánari upplýsingar og aðstoð vegna þessara úrræða.

Farið er yfir greiðslusögu viðkomandi skuldara og hvort um fyrirhyggju/sinnuleysi vegna vanskila er að ræða. Skuldara ber að sýna fram á að verulegar líkur séu á því að hann ráði við greiðslubyrði að lokinni skuldbreytingu. Birta lífeyrissjóður áskilur sér rétt til að kalla eftir öðrum gögnum, sé þess þörf.

Gögn sem þurfa að fylgja skilmálabreytingu:
Veðbókarvottorð
Fasteignamatsvottorð
Upplýsingar um eftirstöðvar áhvílandi lána eða síðustu greiddu greiðsluseðlar áhvílandi lána.
Greiðslumat, ef við á.

Greiðslujöfnun var sett á öll lán einstaklinga í desember 2009, að undanskildum lánum sem voru í frystingu eða í vanskilum. Hægt er að afþakkað greiðslujöfnun með því að fylla út formið hér að neðan. Sjálfvirk greiðslujöfnun nær ekki til lána fyrirtækja og félaga.

Athygli er vakin á því að þegar upp er staðið leiðir greiðslujöfnun til aukins kostnaðar fyrir lántaka í formi vaxta og verðbóta. Því er ekki sjálfgefið að lánshafar hafi hag af greiðslujöfnuninni. Jafnvel þótt hún létti vissulega greiðslubyrði af láni tímabundið í niðursveiflu og geti þannig létt á efnahag heimila, einkum í þeim tilvikum þegar greiðslubyrði er hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum.

Ávallt þarf að sækja um veðleyfi til sjóðsins þegar á að veðsetja eign sem sjóðurinn er með veðbönd á. Nauðsynlegt er að skila inn umsókn um veðleyfi auk fylgigagna.

Beiðni um veðleyfi PDF - 59,0 KB