Séreign inn á lán


Allt frá 1. júlí 2014 hefur þeim sem greiða í séreignarsjóð staðið til boða að ráðstafa greiðslum sínum beint inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Greiðslurnar eru þá undanþegnar skatti. Ekki er unnt að nýta tilgreinda séreign með þessum hætti.

Forsenda þess að geta nýtt heimildir til skattfrjálsrar innborgunar séreignar til lækkunar húsnæðislána og húsnæðiskaupa er að umsækjandi sé með samning um séreignarsparnað og að iðgjöld séu greidd reglulega. Úttekt séreignarsparnaðar getur aldrei verið hærri en sem nemur innborgunum í valkvæðri séreign á vinnutímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019.

 • Hámarksúttekt einhleypra er, að öllum skilyrðum uppfylltum, 500.000 kr. á ári í fimm ár, eða alls 2.500.000 kr. 
 • Hámarksúttekt hjóna eða samskattaðra einstaklinga er, að öllum skilyrðum uppfylltum, 750.000 kr. á ári í fimm ár, eða alls 3.750.000 kr.

Sótt um greiðslu inn á lán til 30. júní 2019

Umsækjandi verður sjálfur að skila inn umsókn á leidretting.is, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar. Veita þarf upplýsingar um hvernig ráðstöfun skal háttað og verður framkvæmdin eftir það sjálfvirk. Valkvæð séreign er greidd inn á lán frá þeim mánuði sem umsókn berst.

 • Eingöngu er heimilt að greiða inn á húsnæðislán sem eru tryggð með veði í íbúðarhúsnæði til eigin nota og mynda rétt til vaxtabóta. 
 • Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér hvort uppgreiðslugjöld séu á  lánum sem þeir vilja greiða inn á. Heimilt er að greiða 1.000.000 kr. inn á lán með uppgreiðslugjaldi hafi þau verið tekin eftir að nýju neytendalánslögin tóku gildi 1. nóvember 2013.
 • Í flestum tilvikum er hagstæðast að greiða inn á það húsnæðislán sem ber hæstu vextina, þó að teknu tilliti til uppgreiðslugjalda, lengdar láns, upphæð og fjölda gjalddaga sem eftir eru. 
 • Vörsluaðilar valkvæðs séreignarsparnaðar senda upplýsingar um greiðslur til lánveitenda um leið og þær fara inn á höfuðstól lána í skilum. Séu lán í vanskilum fer greiðslan eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Það er skilyrði að iðgjöld hafi verið greidd til lífeyrissjóðs, fyrr er ekki greitt inn á lánin.

Umsækjendur geta fylgst með greiðslum úr valkvæðum séreignarsjóði á yfirlitum sem Birta lífeyrissjóður sendir tvisvar á ári. Jafnframt er hægt að fylgjast með greiðslum inn á lán á umsóknarsíðunni leidretting.is.

 

Sótt um útgreiðslu vegna húsnæðiskaupa til 30. júní 2017

Hægt er að sækja um útgreiðslu valkvæðs séreignarsparnaðar vegna öflunar húsnæðis á leidretting.is þegar kaupsamningur liggur fyrir. Með umsókninni skal fylgja afsal eða gögn um skráningu á íbúðarhúsnæði í Þjóðskrá, ásamt staðfestingu um að umsækjandi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði.

Um skattfrjálsa innborgun valkvæðs séreignarsparnaðar til lækkunar húsnæðislána eða til húsnæðiskaupa gildir eftirfarandi:

 • Skilyrði er að um sé að ræða húsnæði til eigin nota. 
 • Heimildirnar ná til inneignar sem myndast hefur vegna launa á vinnutímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. 
 • Greiðslur mega ekki vera umfram 4% eigið framlag í valkvæðan séreignarsparnað og 2% mótframlag launagreiðanda.
 • Skilyrði er að framlag rétthafa sé ekki lægra en framlag launagreiðanda. 
 • Umsækjandi verður sjálfur að skila inn umsókn á leidretting.is, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar.

Kaup á fyrstu íbúð


Frá 1. júlí 2017 er þeim einstaklingum sem kaupa/byggja sér íbúðarhúsnæði annars vegar heimilt að fá útborguð viðbótariðgjöld sem greidd hafa verið til séreignarlífeyrissjóðs og hins vegar að greiða iðgjöld frá mánuði til mánaðar inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni. Heimilt er að taka út iðgjöld vegna launagreiðslna frá 1. júlí 2014 til kaupdags húsnæðis að uppfylltum öllum skilyrðum.

Sótt um þegar kaupsamningur liggur fyrir

Ekki er sótt um húsnæðissparnað sérstaklega fyrr en kaupsamningur liggur fyrir en greiða þarf reglulega iðgjöld í séreign samkvæmt samningi við vörsluaðila séreignar.

 

500.000 kr. á ári, á einstakling

Sú fjárhæð sem hverjum einstaklingi er heimilt að taka út án þess að teljast til skattskyldra tekna og verja til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði, eða til að greiða inn á lán vegna kaupanna, getur að hámarki numið samtals 500 þús. kr. fyrir hverja tólf mánuði á almanaksári í samfellt tíu ár. Eigið framlag einstaklings getur numið allt að 4% af iðgjaldsstofni og að hámarki 333 þús. kr., og framlag launagreiðanda getur numið allt að 2% og að hámarki 167 þús. kr. 

Ekki fleiri en 2 eigendur og a.m.k. 30% eign

Skilyrði er að umsækjandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði áður og að hann afli sér a.m.k. 30% hlutar í slíkri eign. Eignin má auk þess ekki vera í eigu fleiri en tveggja einstaklinga.  

Gildir fyrir 10 samfelld ár

Úrræðið gildir fyrir samfellt 10 ár og fólki er frjálst að skipta um húsnæði á þeim tíma og ráðstafa valkvæðum séreignarsparnaði inn á lán sem tekin eru vegna nýs húsnæðis í staðinn. Skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram inn 12 mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.

 • Ef nýta úrræðið til að greiða inn á höfuðstól skiptir ekki máli hvort lánið er verðtryggt eða óverðtryggt. Hins vegar ef tekið er óverðtryggt lán má nýta úrræðið bæði til að greiða niður höfuðstól og lækka afborganir lánsins. Mánaðarlegar afborganir af óverðtryggðum lánum eru hærri til að byrja með og því nýtist úrræðið til að létta greiðslubyrði þeirra lána í upphafi.
 • Þeir sem eru þegar að nýta valkvæðan séreignarsparnað til að greiða niður lán vegna kaupa á fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014 geta sótt um nýja úrræðið og dragast þá þau ár sem þegar hafa verið nýtt frá 10 ára tímabilinu.
 • Greiðslur mega ekki vera umfram 4% eigið framlag í valkvæðan séreignarsparnað og 2% mótframlag launagreiðanda.
 • Skilyrði er að framlag rétthafa sé ekki lægra en framlag launagreiðanda.  

Breytingar á umsókn


Verði breytingar á hjúskaparstöðu, veðlánum, séreignarsjóði eða öðru sem varðar ráðstöfun séreignar inn á lán þurfa umsækjendur að breyta umsókn sinni.

 

Þó með þeirri undantekningu að þeir sem vilja auka eða minnka eigið framlag í séreignarsparnað gera það hjá vörsluaðila sínum. 

Spurt og svarað


Allir sem greiða í valkvæðan séreignarsparnað samkvæmt samningi, á vinnutímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019 geta nýtt sér skattfrjálsa innborgun valkvæðs séreignarsparnaðar til lækkunar á húsnæðislánum eða til húsnæðiskaupa. Skilyrði er að um sé að ræða húsnæði til eigin nota. Athuga skal að ekki verður unnt að nota tilgreinda séreign til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán eða safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa. 

1. júlí 2017 tók úrræðið FYRSTA FASTE1GN gildi sem nær til allra sem eru að kaupa sér sína fyrstu fasteign eða vilja byrja að safna sér fyrir fasteign geta nýtt sér úrræðið. Aðgerðin er stuðningur til ungs fólks og þeirra sem hafa ekki átt fasteign áður til að auðvelda þeim að eignast húsnæði. Skilyrði er að um sé að ræða húsnæði til eigin nota. 

Hver og einn ætti að íhuga stöðu sína og taka ákvörðun út frá henni. 

Kosturinn við þessar heimildir er að greiðslurnar eru skattfrjálsar. Að jafnaði er hins vegar greiddur tekjuskattur þegar kemur að útgreiðslu valkvæðs séreignarsparnaðar. Ef markmiðið er að greiða upp fasteignalán léttir þetta afborganir og minnkar heildargreiðslubyrði á lánstímanum. 

Hafa ber í huga að valkvæður séreignarsparnaður er ekki aðfararhæfur og því er ekki hægt að taka hann upp í greiðslur við gjaldþrot. Þegar séreign er greidd inn á höfuðstól láns gildir þetta hins vegar ekki lengur og séreignin getur tapast við gjaldþrot þar sem fasteignin er aðfararhæf. 

Ekki er heimilt að nýta eldri valkvæðan séreignarsparnað til að greiða skattfrjálst inn á lán. Heimild til úttektar nær til inneignar sem myndast hefur vegna launa á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2019, sé um gildandi úrræði að ræða. 

Þegar úrræðið FYRSTA FASTE1GN tekur gildi 1. júlí 2017 má nýta samfellt 10 ára tímabil með þeirri undantekningu að þeir sem eru þegar að nýta valkvæðan séreignarsparnað til að greiða niður lán vegna kaupa á fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014 geta sótt um nýja úrræðið og dragast þá þau ár sem þegar hafa verið nýtt frá 10 ára tímabilinu.

Hámarksúttekt gildandi úrræða, að öllum skilyrðum uppfylltum, er 2.250.000 kr. hjá einhleypum og samtals 3.750.000 kr. hjá hjónum eða þeim sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Þetta takmarkast einnig af skiptingu á eigin framlagi og framlagi launagreiðanda til valkvæðs séreignarsjóðs á fyrrgreindum launatímabilum. 

 • Hámarksfjárhæð á ári verður samtals 500 þús. kr. á einstakling þegar úrræðið FYRSTA FASTE1GN tekur gildi 1. júlí 2017.

Sótt er um á leidretting.is og er ein umsókn fyrir hvern einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar.

Sá sem ekki á íbúðarhúsnæði til eigin nota getur átt rétt á að taka út inneign í séreignarlífeyrissjóði, upp að ákveðnu hámarki, án þess að úttektin teljist til skattskyldra tekna. Þetta er nefnt húsnæðissparnaður. Ekki þarf að sækja um húsnæðissparnað eða úrræðið FYRSTA FASTE1GN fyrr en óskað er eftir úttektinni. Sótt er um til til ríkisskattstjóra og þurfa að fylgja gögn eins og þinglýstur kaupsamningur, afsal eða gögn um skráningu á íbúðarhúsnæði í Þjóðskrá, auk staðfestingu á því að umsækjandi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði.

Til að breyta fyrri umsókn um ráðstöfun á séreignarsparnaði er farið inn á umsóknarvefinn leidretting.is. 
Þetta getur átt við ef breytingar verða á hjúskaparstöðu, t.d. ef umsækjandi slítur/gengur í hjónaband eða slítur/hefur sambúð. Einnig ef umsækjandi vill t.d. ekki lengur fullnýta heimild sína heldur takmarka fjárhæðina, eða greiða inn á annað lán en áður var tilgreint.

Breytingar eru gerðar á sama hátt og þegar umsókn var fyllt út. Hægt er að sjá allar breytingar sem gerðar hafa verið undir flipanum „samskipti“.

Nei, lánið hækkar einfaldlega minna en það hefði gert ef ekki hefði verið greitt inn á höfuðstól þess.