Séreign inn á lán


Allt frá 1. júlí 2014 hefur þeim sem greiða í séreignarsjóð staðið til boða að ráðstafa greiðslum sínum beint inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Greiðslurnar eru þá undanþegnar skatti. Ekki er unnt að nýta tilgreinda séreign með þessum hætti.

  • Forsenda þess að geta nýtt heimildir til skattfrjálsrar innborgunar séreignar til lækkunar húsnæðislána og húsnæðiskaupa er að umsækjandi sé með samning um séreignarsparnað og að iðgjöld séu greidd reglulega.
  • Umsækjandi verður sjálfur að skila inn umsókn, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar.

Tímabundin úrræði til 30. júní 2019


Úttekt séreignarsparnaðar getur aldrei verið hærri en sem nemur innborgunum á vinnutímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019. Séreign er greidd inn á lán frá þeim mánuði sem umsókn berst og verður framkvæmdin eftir það sjálfvirk.

Ráðstöfun inn á lán til 30. júní 2019

Séreignarsparnaður færist með reglubundnum hætti inn á höfuðstól húsnæðislána til lækkunar frá og með þeim mánuði sem umsókn berst. Séreignarsjóðir reyna eftir fremsta megni að greiða inn á lánið á þeim tíma sem að greiðslan getur farið öll inn á höfuðstól. Séu lán í vanskilum fer greiðslan eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Ef lán er greiðslujafnað þá greiðist séreign fyrst inn á greiðslujöfnunarreikning lánsins, en hann er hluti af höfuðstól lánsins. Vegna þess að ekki er greitt af stöðunni á greiðslujöfnunarreikningnum fyrr en síðar þá kemur lækkunin á greiðslubyrði ekki fram strax þótt að höfuðstóll lánsins lækki.

Hámarksúttekt einhleypra er, að öllum skilyrðum uppfylltum, 500.000 kr. á ári, alls 2.500.000 kr. á tímabilinu. Hámarksúttekt hjóna eða samskattaðra einstaklinga er, að öllum skilyrðum uppfylltum, 750.000 kr. á ári, alls. 3.750.000 kr. á tímabilinu.

Útgreiðsla vegna húsnæðiskaupa til 30. júní 2019

Sá sem ekki á íbúðarhúsnæði til eigin nota getur átt rétt á að taka út inneign í séreignarsjóði sem myndast hefur af iðgjaldsstofni á launatímabilum frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2019, upp að ákveðnu marki, ef hann festir kaup á slíku húsnæði í síðasta lagi 30. júní 2019. Með umsókninni skal fylgja afsal eða gögn um skráningu á íbúðarhúsnæði í Þjóðskrá, ásamt staðfestingu um að umsækjandi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði.

Hámarksúttekt einhleypra er, að öllum skilyrðum uppfylltum, 2.500.000 kr. Hámarksúttekt hjóna eða samskattaðra einstaklinga er, að öllum skilyrðum uppfylltum, 3.750.000 kr.

Kaup á fyrstu íbúð


Frá 1. júlí 2017 er þeim einstaklingum sem kaupa/byggja sér sitt fyrsta íbúðarhúsnæði annars vegar heimilt að fá útborguð iðgjöld sem greidd hafa verið til séreignarlífeyrissjóðs og hins vegar að greiða iðgjöld frá mánuði til mánaðar inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni. Heimilt er að taka út iðgjöld vegna launagreiðslna frá 1. júlí 2014 til kaupdags húsnæðis að uppfylltum öllum skilyrðum.

Sótt um þegar kaupsamningur liggur fyrir

Ekki er sótt um húsnæðissparnað sérstaklega fyrr en kaupsamningur liggur fyrir en greiða þarf reglulega iðgjöld í séreign samkvæmt samningi við vörsluaðila séreignar.

Sækja skal um úttekt eða ráðstöfun í tengslum við kaup á fyrsta íbúðarhúsnæði til ríkisskattstjóra. Umsókn um úttekt séreignarsparnaðar í tengslum við öflun á fyrsta íbúðarhúsnæði þarf að berast í síðasta lagi tólf mánuðum eftir að kaup áttu sér stað með undirritun kaupsamnings. Þinglýstur kaupsamningur, afsal eða gögn um skráningu íbúðarhúsnæðis í Þjóðskrá skulu fylgja umsókninni, auk staðfestingar á því að umsækjandi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði.

10 ára samfellt tímabil

Hámarkstími sem heimilt er að nýta sér heimildir til úttektar/ráðstöfunar á iðgjöldum í séreignarsjóði í tengslum við kaup á fyrstu íbúð/nýbyggingar er tíu ár. Tíu árin byrja að líða frá því tímamarki sem ráðstöfun telst hafa hafist. Er þá miðað við fyrir hvaða launatímabil iðgjöld sem tekin eru út voru.

Frjálst er að skipta um húsnæði á þeim tíma og ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán sem tekin eru vegna nýs húsnæðis í staðinn. Skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram inn 12 mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.

500.000 kr. á ári, á einstakling

Hverjum einstaklingi er heimilt að taka út allt að 500 þús. kr. fyrir hverja tólf mánuði á almanaksári í samfellt tíu ár, án þess að það teljast til skattskyldra tekna sé því varið til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði, eða til að greiðslu inn á lán vegna kaupanna. Greiðslur hvers einstaklings geta því numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili.

Eigið framlag einstaklings getur numið allt að 4% af iðgjaldsstofni og að hámarki 333 þús. kr., og framlag launagreiðanda getur numið allt að 2% og að hámarki 167 þús. kr. Skilyrði er að framlag rétthafa sé ekki lægra en framlag launagreiðanda.

Ekki fleiri en 2 eigendur og a.m.k. 30% eign

Skilyrði er að umsækjandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði áður og að hann afli sér a.m.k. 30% hlutar í slíkri eign. Eignin má auk þess ekki vera í eigu fleiri en tveggja einstaklinga.

Breytingar á umsókn


Verði breytingar á hjúskaparstöðu, veðlánum, séreignarsjóði eða öðru sem varðar ráðstöfun séreignar inn á lán þurfa umsækjendur að breyta umsókn sinni. Allar breytingar fara fram í gegnum leidretting.is.

Þó með þeirri undantekningu að þeir sem vilja auka eða minnka eigið framlag í séreignarsparnað gera það hjá vörsluaðila sínum.

Spurt og svarað


Allir sem greiða í séreignarsparnað samkvæmt samningi, á vinnutímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019 geta nýtt sér skattfrjálsa innborgun séreignarsparnaðar til lækkunar á húsnæðislánum eða til húsnæðiskaupa. Skilyrði er að um sé að ræða húsnæði til eigin nota. Athuga skal að ekki verður unnt að nota tilgreinda séreign til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán eða safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa.

1. júlí 2017 tók nýtt úrræði gildi sem nær til allra sem eru að kaupa sér sína fyrstu fasteign eða vilja byrja að safna sér fyrir fasteign. Aðgerðin er stuðningur til ungs fólks og þeirra sem hafa ekki átt fasteign áður til að auðvelda þeim að eignast húsnæði. Skilyrði er að um sé að ræða húsnæði til eigin nota.

Hver og einn ætti að íhuga stöðu sína og taka ákvörðun út frá henni.

Kosturinn við þessar heimildir er að greiðslurnar eru skattfrjálsar. Að jafnaði er hins vegar greiddur tekjuskattur þegar kemur að útgreiðslu valkvæðs séreignarsparnaðar. Ef markmiðið er að greiða upp fasteignalán léttir þetta afborganir og minnkar heildargreiðslubyrði á lánstímanum.

Hafa ber í huga að séreignarsparnaður er ekki aðfararhæfur og því er ekki hægt að taka hann upp í greiðslur við gjaldþrot. Þegar séreign er greidd inn á höfuðstól láns gildir þetta hins vegar ekki lengur og séreignin getur tapast við gjaldþrot þar sem fasteignin er aðfararhæf.

Heimildin vegna tímabundinna úrræða nær til inneignar sem myndast hefur vegna launa á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2019.

Vegna kaupa á fyrstu íbúð má nýta samfellt 10 ára tímabil allt frá 1.júlí 2014.

Sótt er um á leidretting.is og er ein umsókn fyrir hvern einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar.

Umsækjendur geta fylgst með greiðslum úr valkvæðum séreignarsjóði á yfirlitum sem Birta lífeyrissjóður sendir tvisvar á ári eða á sjóðfélagavef Birtu. Jafnframt er hægt að fylgjast með greiðslum inn á lán á umsóknarsíðunni leidretting.is.

Ef nýta á úrræðið til að greiða inn á höfuðstól skiptir ekki máli hvort lánið er verðtryggt eða óverðtryggt. En ef tekið er óverðtryggt lán má nýta úrræðið bæði til að greiða niður höfuðstól og lækka afborganir lánsins. Mánaðarlegar afborganir af óverðtryggðum lánum eru hærri til að byrja með og því nýtist úrræðið til að létta greiðslubyrði þeirra lána í upphafi.

Nei, lánið hækkar einfaldlega minna en það hefði gert ef ekki hefði verið greitt inn á höfuðstól þess.

Frjálst er að skipta um húsnæði á þeim tíma og ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán sem tekin eru vegna nýs húsnæðis í staðinn. Skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram inn 12 mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.

Ef umsækjandi einhverra hluta vegna hættir að greiða í séreignarlífeyrissjóð leiðir af sjálfu að ekki er hægt að taka út eða greiða inn á lán vegna launagreiðslna á þeim tíma. Engu að síður telst sá tími sem þannig rof verður á greiðslum til heildartímans sem ráðstöfun er heimil, þ.e. tíu ára tímabilsins. Vari slíkt rof á greiðslum í lengri tíma en tólf mánuði þarf viðkomandi að endurnýja umsókn sína um ráðstöfun hefji hann greiðslu á iðgjöldum á nýjan leik áður en tíu ára samfelldu tímabili er lokið frá því að hann fyrst ráðstafaði iðgjöldum vegna kaupa á fyrstu íbúð.