Sjóðfélögum sem greiða í séreignarsjóð stendur til boða að ráðstafa greiðslum sínum beint inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Greiðslurnar eru þá undanþegnar skatti
Allt frá 1. júlí 2014 hefur þeim sem greiða í séreignarsjóð staðið til boða að ráðstafa greiðslum sínum beint inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Greiðslurnar eru þá undanþegnar skatti. Ekki er unnt að nýta tilgreinda séreign með þessum hætti.
Úttekt séreignarsparnaðar getur aldrei verið hærri en sem nemur innborgunum á vinnutímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2021. Séreign er greidd inn á lán frá þeim mánuði sem umsókn berst og verður framkvæmdin eftir það sjálfvirk.
Frá 1. júlí 2017 er þeim einstaklingum sem kaupa/byggja sér sitt fyrsta íbúðarhúsnæði annars vegar heimilt að fá útborguð iðgjöld sem greidd hafa verið til séreignarlífeyrissjóðs og hins vegar að greiða iðgjöld frá mánuði til mánaðar inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni. Heimilt er að taka út iðgjöld vegna launagreiðslna frá 1. júlí 2014 til kaupdags húsnæðis að uppfylltum öllum skilyrðum.
Verði breytingar á hjúskaparstöðu, veðlánum, séreignarsjóði eða öðru sem varðar ráðstöfun séreignar inn á lán þurfa umsækjendur að breyta umsókn sinni. Allar breytingar fara fram í gegnum leidretting.is.
Þó með þeirri undantekningu að þeir sem vilja auka eða minnka eigið framlag í séreignarsparnað gera það hjá vörsluaðila sínum.