Lánareglur


Lán eru eingöngu veitt gegn veði í fasteignum. Lán eru ekki veitt með lánsveði.

Lántökurétt eiga sjóðfélagar sem uppfylla eitthvert eftirfarandi skilyrða; hafa greitt síðustu þrjá mánuði í samtryggingardeild, hafa greitt síðustu sex mánuði í séreignardeild eða eru með tveggja ára samfellda greiðslusögu í sjóðinn. Sama rétt hafa þeir sem uppfylltu eitthvert skilyrðanna þegar taka lífeyris hófst.

Skilyrði er að lán, sem lífeyrissjóðurinn veitir, að viðbættum áhvílandi og uppfærðum forgangsveðskuldum, séu þær verðtryggðar, má ekki vera hærra en sem nemur 65% af metnu markaðsvirði.

Heildarveðsetning má ekki vera umfram 90% af samanlögðu brunabóta- og lóðarmati.

Fasteignaveð þarf að liggja fyrir þegar kauptilboð eða kaupsamningur, sem lántaki er aðili að, er samþykkt. Aðeins er heimilað veð sem er í fullri eign lántaka eða í sameign við maka eða í 100% eigu hjúskaparmaka og ekki liggur fyrir kaupmáli þar sem veðið er skráð séreign maka, enda er þá gætt ákvæða laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

Hámarkslán er 50 milljónir fyrir hjón/maka/sambúðaraðila samanlagt og tekur jafnframt mið af veðrými, mati á lánshæfi og greiðslugetu umsækjanda, sbr. lánareglur sjóðsins. Lágmarkslán er 1.000.000 kr.

Skilyrði er að lán, sem sjóðurinn veitir, að viðbættum áhvílandi og uppfærðum forgangsveðskuldum, séu þær verðtryggðar, má ekki vera hærra en 35% af metnu markaðsvirði. Lánstími getur verið allt að 15 ár. Ef sumarhúsið er á leigulóð getur lánstími þó aldrei farið fram yfir gildistíma lóðarleigusamnings. Vaxtaálag er 0,75% ofan á gildandi sjóðfélagavexti.

Ef fasteign er í smíðum skal matsverð við lántöku gilda ef fullnægjandi smíðatrygging/brunatrygging liggur fyrir sem samræmist því mati. Óheimilt er að breyta eða segja upp slíkri tryggingu nema með samþykki lífeyrissjóðsins. Ekki er veitt lán gegn veði í fasteign, sem er í smíðum, nema slík trygging sé fyrir hendi.

Lífeyrissjóðurinn lánar ekki gegn veði í ósamþykktu íbúðarhúsnæði né íbúðarhúsnæði sem fellur undir félagslega íbúðakerfið. Sjóðurinn lánar ekki út á eignir sem reknar eru í atvinnuskyni s.s. til útleigu.

Sjóðurinn getur farið fram á að verðmæti fasteignar sé metið af löggiltum fasteignasala í samráði við sjóðinn. Umsækjanda láns ber að greiða kostnað vegna mats og vegna öflunar gagna. Ef ekki liggur fyrir verðmat löggilts fasteignasala eða söluverð samkvæmt kaupsamningi er heimilt að miða við gildandi fasteignamat Fasteignamats ríkisins. Veðsetningarhlutfall er að hámarki 65%.

Lög um fasteignalán til neytenda 118/2016 fela í sér upplýsingaskyldu lánveitanda gagnvart neytanda sem breytist lítið frá þeim lögum sem áður giltu nr. 33/2013 um neytendalán. Áfram ber lánveitanda að afhenda neytanda, staðlað eyðublað með upplýsingum um fasteignalán en form þess hefur tekið breytingum. Tilgangur eyðublaðsins er eftir sem áður að gefa neytanda kost á að bera saman ólík tilboð og taka upplýsta ákvörðun.

Lánveitendum ber m.a. að veita upplýsingar um árlegt hlutfall kostnaðar til að auðvelda samanburð á lánskjörum. Árlegt hlutfall kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs að því gefnu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.

  • Lögin kveða á um ýmis réttindi til hagsbóta fyrir neytendur og eru þeir hvattir til að kynna sér þau vel. Lögin í heild sinni má nálgast á althingi.is.
  • Neytendastofa fylgist með að lögunum sé framfylgt og eru ýmsar upplýsingar tengdar þeim að finna á vef Neytendastofu. Sérstök athygli er vakin á bæklingi um neytendalán sem þar er að finna.