Séreignarsparnaður


Séreignarsparnaður hefur fjölmarga kosti. Sá helsti er líklega sá að þú færð greitt fyrir að spara í séreign.

2% launahækkun

Vinnuveitandi greiðir 2% mótframlag þegar þú greiðir 2% eða 4% af launum í séreignarsparnað.

Úttekt við 60 ára aldur

Hægt er að byrja að taka út séreignarsparnað við 60 ára aldur.

Enginn fjármagnstekjuskattur

Ólíkt öðrum sparnaði er hvorki greiddur fjármagnstekjuskattur af ávöxtun né eignaskattur af inneign.

Enginn erfðafjárskattur

Séreignarsparnaður erfist að fullu og ekki er greiddur erfðafjárskattur af honum.

Engin áhrif á vaxta- eða barnabætur

Séreignarsparnaður er ekki framtalsskyldur á skattframtali og skerðir því hvorki vaxta- né barnabætur.

Skerðir ekki greiðslur almanntrygginga

Greiðslur séreignarsparnaðar hafa hvorki áhrif á grunnlífeyri né tekjutryggingu frá Tryggingastofnun. Séreignarsparnaður getur þó haft áhrif á útreikning greiðslna frá Tryggingastofnun þegar um er að ræða uppbót á lífeyri. Þetta getur t.d. átt við þegar um er að ræða mikinn lyfjakostnað, eða við svokallaða lágmarksframfærslutryggingu sem tryggir lífeyrisþegum lágmarksgreiðslu ef tekjur þeirra eru undir tilteknum tekjuviðmiðum.

Frestun á greiðslu tekjuskatts / skattfrjáls fyrstu fasteignakaup

Launagreiðandi dregur séreignarsparnað frá launum áður en tekjuskattur er reiknaður og því lækka útborguð laun aðeins um hluta af þeirri fjárhæð sem lögð er í séreign.

Greiðslu tekjuskatts er þar með frestað þar til kemur að útgreiðslu sparnaðarins og þá má nýta ónýttan persónuafslátt. Við ákveðnar aðstæður er úttekinn séreignarlífeyrir undanskilinn staðgreiðsluskatti, sjá Séreign inn á lán

Inneign varin gegn skuldheimtumönnum

Inneign á séreignarsparnaðarreikningi er ekki aðfararhæf og því er ekki hægt að ganga að henni við gjaldþrot.

Sparnaðarleiðir


Birta lífeyrissjóður býður þrjár sparnaðarleiðir. Við val sparnaðarleiðar er skynsamlegt að taka mið af aldri, eignastöðu og viðhorfi til áhættu.

Blönduð leið

Í blandaðri leið Birtu eru bæði skuldabréf og hlutabréf og gerir fjárfestingarstefnan ráð fyrir jöfnu hlutfalli (50/50) eignaflokkanna. Blönduð leið hentar einkum þeim sem vilja ávaxta til lengri tíma og þola sveiflur í ávöxtun, sem gera verður ráð fyrir að geti átt sér stað á sparnaðartímanum.

Skuldabréfaleið

Eignir eru nánast eingöngu skuldabréf auk lítils hluta í innlánum. Skuldabréfaleið hentar einkum þeim sem vilja forðast sveiflukennda ávöxtun séreignarsparnaðar og þeim sem eru komnir á seinni hluta starfsævinnar.

Innlánsleið

Ávöxtun er háð kjörum á innlánum á hverjum tíma og er stærstur hluti eigna verðtryggð, bundin innlán. Innlánsleið hentar þeim sem eru að nálgast eftirlaunaaldur eða eru farnir að nýta séreign sína til útgreiðslu. Safnið er einnig kostur fyrir þá sem vilja lágmarka sveiflur í ávöxtun séreignarsparnaðar síns.

Reiknaðu með okkur


Notaðu reiknivélina til að sjá hvaða áhrif það hefur á eftirlaunin þín að greiða í séreignarsparnað. Á Sjóðfélagavefnum geturðu séð núverandi réttindi þín

Spurt og svarað


Séreignarsparnaður er þín eign

Valkvæður séreignarsparnaður er lífeyrissparnaður sem kemur til viðbótar lögbundnum lífeyrissparnaði. Hann er eign þess sem leggur fyrir og erfist að fullu. Greiða má séreignarsparnað til hvaða lífeyrissjóðs sem er og hægt er að flytja sparnaðinn á milli lífeyrissjóða.

Lífeyrissparnaður er lögbundinn réttur þinn

Lögbundinn lífeyrissparnaður myndar rétt til ævilangs eftirlaunalífeyris auk réttar til örorku-, maka- og barnalífeyris. Í réttindaákvæðum Birtu lífeyrissjóðs er kveðið á um hvernig réttindum er skipt milli sjóðfélaga og eftir atvikum, barna þeirra og maka.

Launafólki kann að vera skylt að greiða lögbundinn lífeyrissparnað í ákveðinn lífeyrissjóð samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Flestir eiga lífeyrisréttindi í fleiri en einum sjóði, en ekki er heimilt að flytja almenn lífeyrisréttindi á milli lífeyrissjóða.

Vegna mótframlags launagreiðanda og hagstæðrar skattlagningar stenst enginn sparnaður samanburð við séreignarsparnað. Þeir sem nýta sér ekki möguleika til séreignarsparnaðar eru í raun að missa af umsömdum kjarabótum.

Það er einfalt að byrja séreignarsparnað. Fylla þarf út samning um séreignsparnað og undirrita rafrænt eða senda til sjóðsins. Í framhaldinu sendum við afrit af samningnum ásamt bréfi til launagreiðanda sem sér um að draga séreignarsparnað af launum og stendur skil á honum til lífeyrissjóðs.

Við val sparnaðarleiðar er skynsamlegt að taka mið af aldri, eignastöðu, viðhorfi til áhættu auk þess sem sérstakar aðstæður hvers og eins geta skipt máli. Í stað þess að horfa á skammtímasveiflur ætti frekar að huga að því hvort fjárfestingarstefnan sé skynsamleg og þá er átt við markmið, fjárfestingartíma, áhættuþol, fjárhagslega stöðu og aðrar aðstæður.

Birta lífeyrissjóður býður þrjár sparnaðarleiðir, þær eru blönduð leið, skuldabréfaleið og innlánsleið.

Á sjóðfélagavefnum geturðu séð núverandi inneign og ávöxtun séreignarsparnaðarins. Sjóðurinn sendir yfirlit yfir iðgjaldagreiðslur tvisvar á ári en mikilvægt er að fara yfir hvort iðgjöldin sem fram koma á yfirlitinu séu í samræmi við launaseðla.

Ef iðgjöld skila sér ekki er rétt að hafa samband við sjóðinn sem fyrst vegna innheimtu þeirra.

Séreignarsparnaður er laus til útgreiðslu frá 60 ára aldri, að því gefnu að a.m.k. tvö ár séu liðin frá fyrstu innborgun. Einnig er hægt að sækja um útgreiðslu séreignar vegna örorku eða fráfalls eiganda séreignarsparnaðarins.

Eftir að samningur hefur verið gerður um séreignarsparnað þá er launagreiðandi skyldugur til að draga iðgjöldin frá launum og greiða til lífeyrissjóðsins. Ef að launagreiðandi greiðir iðgjöldin ekki á réttum tíma eða næsta mánuði á eftir launatímabil er sjóðnum heimilt að innheimta dráttarvexti.

Sjóðurinn sendir yfirlit yfir iðgjaldagreiðslur til sjóðfélaga tvisvar á ári sem geta þá farið yfir hvort iðgjöldin sem fram koma á yfirlitinu séu í samræmi við launaseðla. Ef iðgjöld skila sér ekki er rétt að hafa samband við sjóðinn sem fyrst vegna innheimtu þeirra.

Verði launagreiðandi gjaldþrota ábyrgist Ábyrgðarsjóður launa vangreiddar greiðslur í séreignarsparnað, allt að 4% framlagi.