Örorkulífeyrir


Örorkulífeyrir er í eðli sínu afkomutrygging. Verði sjóðfélagi fyrir tekjuskerðingu, vegna orkutaps af völdum slyss eða sjúkdóms, getur hann átt rétt á örorkulífeyri frá Birtu lífeyrissjóð. Réttur til örorkulífeyris er takmarkaður fyrstu þrjú árin sem greitt er í lífeyrissjóð og því ráðleggjum við yngri sjóðfélögum að kaupa sér viðbótarvernd a.m.k. þessi fyrstu ár.

Hverjir eiga rétt á örorkulífeyri?
 • Sjóðfélagi þarf að hafa greitt í lífeyrissjóð í 24 mánuði til að eiga rétt á örorkulífeyri.
 • Orkuskerðing þarf a.m.k. að vera 50% og hafa varað lengur en 6 mánuði.
 • Einnig þarf viðkomandi að verða fyrir sannanlegu tekjutapi.

Sjóðfélagar eru hvattir til að hafa samband við ráðgjafa Birtu lífeyrissjóðs og kanna rétt sinn til örorkulífeyris.

Upphæð örorkulífeyris ákvarðast af áunnum réttindum, hlutfalli orkuskerðingar og framreikningi

Helstu atriði sem ráða upphæð örorkulífeyris eru

 • áunnin réttindi, sem ráðast af iðgjöldum sem sjóðfélagi hefur greitt í sjóðinn.
 • hlutfall orkuskerðingar.
 • framreikningur, sem metur framtíðartekjutap sjóðfélaga.

Framreikningur hækkar mánaðarlegan örorkulífeyri þar sem hann tekur mið af þeim lífeyri sem hefði áunnist miðað við áframhaldandi greiðslur í lífeyrissjóðinn til 65 ára aldurs. Til að eiga rétt á framreikningi þurfa lágmarksiðgjöld að hafa verið greidd í sjóðinn árlega í a.m.k. þrjú af síðustu fjórum almanaksárum. Þá þarf einnig að hafa greitt til sjóðsins í a.m.k. 6 af síðust 12 mánuðum fyrir orkuskerðinguna.

Við örorku getur skapast réttur til barnalífeyris

Til að eiga rétt til barnalífeyris þarf að hafa greitt til Birtu lífeyrissjóðs a.m.k. 24 af síðustu 36 mánuðum fyrir fráfall eða orkuskerðingu.

Ég lenti í slysi og er frá vinnu en ætla aftur á vinnumarkað. Á ég rétt á örorkulífeyri?

Já. Ef orkutapið varir lengur en 6 mánuði.

Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuði eftir orkuskerðingu. Þá getur verið gott að kanna rétt til veikindalauna frá launagreiðanda sem og rétt í sjúkrasjóði stéttarfélags. Greiðslum er haldið áfram á meðan tekjur viðkomandi eru lægri en fyrir orkuskerðinguna en hætta þegar viðkomandi nær heilsu á ný.

Við hvetjum þig til að hafa samband við ráðgjafa Birtu lífeyrissjóðs til að kanna rétt þinn til örorkulífeyris.

Getur réttur til örorkulífeyris fallið niður?
 • Réttur til örorkulífeyris fellur niður þegar taka eftirlauna hefst.
 • Réttur til örorkulífeyris fellur niður fari örorkuhlutfall niður fyrir 50%. Hið sama gildir ef tekjur eftir orkuskerðingu eru hærri en fyrir orkuskerðingu.
Geta greiðslur úr örorkulífeyri lækkað?

Tvennt kemur til greina sem ástæða fyrir lækkun örorkulífeyris:

 1. Örorkulífeyri er eingöngu ætlað að bæta tekjutap vegna örorku. Núverandi tekjur geta því skert lífeyrinn og er það algengasta ástæða lækkunar.
 2. Örorkulífeyrir getur lækkað eða fallið niður öðlist sjóðfélagi starfsorku á ný að fullu eða að hluta, t.d. ef örorkuhlutfall lækkar úr 100% í 75%, skerðist lífeyrir í hlutfalli við það. Á sama hátt er örorkulífeyrir hækkaður, skerðist starfsorka til muna frá því að hún var áður metin.

Við hvetjum þig til að hafa samband við ráðgjafa Birtu lífeyrissjóðs og kanna ástæður lækkunar.

Hvenær hætta örorkulífeyrisgreiðslur?

Sjóðsstjórn metur hve lengi réttur er til örorkulífeyris, að fengnu áliti trúnaðarlæknis.

 • Ef um tímabundna örorku er að ræða falla greiðslur niður að þeim tíma liðnum, nema skilað sé nýju vottorði sem sýnir áframhaldandi örorku.
 • Meti trúnaðarlæknir örorkuna varanlega er örorkulífeyrir greiddur til 67 ára aldurs. Eftir það taka eftirlaun við.

Umsóknarferli


Sjóðfélagar sem sækja um örorkulífeyrir eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu sjóðsins áður en umsókn er fyllt út og fá leiðbeiningar um umsóknarferlið.

Hvaða gögnum þarf að skila?

Nauðsynlegt er að umsókn fylgi:

 • Ítarlegt læknisvottorð. Vottorðið má ekki vera eldra en 3ja mánaða.
 • Afriti af tekjuútskrift úr skattframtölum síðustu 4 ár áður en starfsorka skertist og fram að umsókn.
 • Útskrift úr staðgreiðsluskrá vegna tekna á yfirstandandi ári.
 • Fæðingarvottorð frá Þjóðskrá vegna barna sem ekki eru búsett hjá sjóðfélaga, sé réttur til barnalífeyris til staðar.

Mikilvægt er að umsækjendur gefi réttar upplýsingar um tekjur sínar því tekið er tillit til þeirra við útreikning örorkulífeyris. Reynist tekjur vera hærri en upplýsingar frá umsækjanda hafa gefið til kynna, og reiknað var með, kemur til skerðingar eftir á.

VIRK fer yfir allar umsóknir og ákveður hvort reyna eigi starfsendurhæfingu

Athygli er vakin á því að umsóknir sem berast verða teknar fyrir af þverfaglegu teymi hjá VIRK sem ákveður hvort reyna eigi starfsendurhæfingu áður en til mats á örorku kemur.

Viðtal og skoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins

Umsækjandi mun fá bréf frá sjóðnum þar sem hann verður boðaður í viðtal og skoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins. Að því loknu mun trúnaðarlæknirinn leggja fram mat á orkutapi umsækjanda.

Hvað tekur ferlið langan tíma?

Að lokinni afgreiðslu sjóðsins verður niðurstaðan send bréflega til umsækjanda. Það getur tekið 2-3 mánuði frá því umsókn berst sjóðnum með öllum gögnum þar til greiðslur fara að berast.

Örorkumat


Ákvörðun um rétt til örorkulífeyris byggist á læknisfræðilegum upplýsingum sem fylgja umsókn um örorkubætur, niðurstöðum trúnaðarlæknis sjóðsins (í flestum tilvikum eftir viðtal eða skoðun), tekjuupplýsingum auk annarra fylgigagna.

Samþykktir Birtu lífeyrissjóðs gilda við úrskurð örorkulífeyris

Við úrskurð örorkulífeyris gilda samþykktir sjóðsins.

Mat á orkutapi
 • Fyrstu þrjú árin miðast mat á orkutapi við skerta getu sjóðfélagans til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og tengist aðild hans að sjóðnum.
 • Að þremur árum liðnum er örorka hans metin að nýju og miðast þá örorkumat við skerta getu sjóðfélagans til almennra starfa.
Orkuskerðing getur verið metin tímabundin eða varanleg
 • Sé um tímabundna orkuskerðingu að ræða falla greiðslur niður að þeim tíma liðnum, nema skilað sé nýju vottorði sem sýnir áframhaldandi skerta orku.
 • Sé orkuskerðing varanleg er örorkulífeyrir greiddur til 67 ára aldurs. Þá taka eftirlaun við.

Greiðslur


Samanlagður örorku- og barnalífeyrir getur aldrei orðið hærri en það tekjutap sem sjóðfélagi hefur sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar. Tekjur síðustu fjögurra almanaksára fyrir orkuskerðinguna eru hafðar til viðmiðunar.

Útgreiðsla örorkulífeyris
 • Örorkulífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á og er útborgunardagur síðasti virki dagur mánaðar.
 • Örorkulífeyrir er ekki greiddur fyrir fyrstu þrjá mánuði eftir orkuskerðingu og ekki ef orkuskerðing hefur varað skemur en sex mánuði.
 • Hægt er að setja það sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem geti bætt heilsufar hans.
Greiðslur eru skattskyldar

Við útgreiðslu er staðgreiðsla skatts dregin frá í samræmi við gildandi lög um skattlagningu tekna.