Eftirlaunalífeyrir


Fjárhæð eftirlaunalífeyris ræðst af þeim iðgjöldum sem sjóðfélagi greiðir í sjóðinn á starfsævinni og af afkomu sjóðsins.

Hvenær má hefja töku eftirlauna?

Fullur lífeyrisréttur miðast við 67 ára eftirlaunaaldur. Hægt er að flýta lífeyristöku allt fram að 60 ára aldri eða seinka allt að 80 ára aldri. Sé töku eftirlauna flýtt lækka mánaðarlegar greiðslur en hækka ef töku þeirra er seinkað. Eftirlaunalífeyrir er greiddur til æviloka.

Hvaða áhrif hefur frestun eða flýting lífeyristöku á lífeyrinn minn?

Í meðfylgjandi töflu sést hlutfall réttinda eftir því hvort töku ellilífeyris er flýtt eða frestað. Taflan er unnin af tryggingastærðfræðingi út frá lífaldri Íslendinga hverju sinni og getur því tekið breytingum.

Aldur við upphaf eftirlauna Hlutfall réttinda
60 ára 53,80%
61 árs 58,60%
62 ára 64,00%
63 ára 70,00%
64 ára 76,60%
65 ára 83,80%
66 ára 91,60%
67 ára 100,0%
68 ára 106,84%
69 ára 114,52%
70 ára 123,16%
71 árs 132,88%
72 ára 143,92%
73 ára 156,52%
74 ára 171,04%
75 ára 187,84%
76 ára 207,40%
77 ára 230,32%
78 ára 257,32%
79 ára 289,48%
80 ára 328,12%
 • Aldur í töflu miðast við að greiðslur hefjist frá og með næsta mánuði eftir afmælismánuð.
 • Við sjötugt eru greiðslur endurskoðaðar með tilliti til iðgjalda sem hafa borist eftir að viðkomandi hóf töku eftirlauna.
 • Hefjist taka eftirlauna fyrir 67 ára aldur er sú ákvörðun endanleg og verður ekki breytt. Þar með fellur niður sjálfstæður réttur til örorkulífeyris.
Hálfur lífeyrir 50%

Heimilt er að hefja töku á hálfum lífeyri. Sá hluti sem frestað er tekur breytingum skv. samþykktum hvers tíma. Í lögum um almannatryggingar frá 2016 er kveðið á um skilyrði þess að fá greiddan hálfan lífeyri:

 • Sjóðfélagi þarf að hafa náð 65 ára aldri.
 • Samanlögð réttindi frá öllum lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun skulu að lágmarki vera jöfn fullum ellilífeyri hjá TR.
 • Allir skyldubundnir lífeyrissjóðir sem sjóðfélagi á rétt í, innlendir sem erlendir, skulu samþykkja að hann taki hálfan lífeyri.
 • Greiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun hefjist samtímis.

Athuga þarf að skilyrði fyrir hálfum lífeyri hjá Tryggingastofnun geta mögulega breyst ef breytingar verða á lögum eða öðrum gildandi reglum sem varða lífeyrisgreiðslur stofnunarinnar.

Séreignarsparnaður og tilgreind séreign auka sveigjanleika við starfslok

Úttekt séreignarsparnaðar eða tilgreindrar séreignar getur skipt miklu máli þegar upphaf eftirlauna er skipulagt og það er góð regla að fara yfir málið með ráðgjafa.

Réttindi í öðrum lífeyrissjóðum

Flestir eiga lífeyrisréttindi í fleiri en einum sjóði. Ekki er heimilt að flytja almenn lífeyrisréttindi á milli lífeyrissjóða.

 • Oftast dugar að sækja um greiðslu lífeyrisins hjá þeim sem síðast var greitt til.
 • Eigi sjóðfélagi réttindi í öðrum lífeyrissjóðum er umsóknin send til annarra hlutaðeigandi ef óskað er.
 • Í lífeyrisgáttinni er hægt að finna upplýsingar um lífeyrisréttindi í öðrum sjóðum, að undanskildum séreignarsparnaði.

Áætla eftirlaun


Á sjóðfélagavef Birtu getur þú skoðað núverandi réttindi þín sem þú getur bætt við lífeyrisáætlunina þína

Umsóknarferli


Skila þarf inn umsókn um að hefja töku eftirlauna í síðasta lagi 20. þess mánaðar sem taka þeirra á að hefjast.

Sótt um eftirlaun

Við mælum eindregið með því að sækja um með rafrænum skilríkjum. Hafir þú ekki rafræn skilríki eða átt þú ekki kost á því að skila rafrænni umsókn þá er umsókn hér efst á síðunni. Einnig eru umsóknir og eyðublöð aðgengileg á forsíðu.

Greiðslur


Útgreiðsla eftirlauna

Útborgunardagur síðasti virki dagur mánaðar. Eftirlaun eru greidd mánuði eftir að réttur til þeirra myndast og er greiðslum haldið áfram ævilangt. Lífeyrir greiðist ekki aftur í tímann.

Ef ákvörðun hefur verið tekin um að hefja töku lífeyris t.d. 67 ára er fyrsta lífeyrisgreiðslan greidd síðasta virka dag þess mánaðar sem aldrinum er náð, þ.e. í afmælismánuðinum.

Greiðslur eftirlauna breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs

Lífeyrir er verðtryggður og fylgir mánaðarlegri breytingu á vísitölu neysluverðs. Hann tekur mið af áunnum réttindum og hefur hvorki hámark né lágmark.

Greiðslur frá lífeyrissjóðum geta haft áhrif á réttindi almannatrygginga

Samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna getur verið talsvert flókið, þar sem lífeyrisgreiðslur og fjármagnstekjur geta skert greiðslur almannatrygginga.

Greiðslur eru skattskyldar

Við útgreiðslu lífeyris er staðgreiðsla skatts dregin frá í samræmi við gildandi lög um skattlagningu tekna.

Skipting réttinda


Lífeyrisréttindi eru persónubundin og því er óheimilt að framselja þau. Hjónum og sambúðarfólki er heimilt að gera samning um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda. Einnig er hægt að gera samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna eftir að taka lífeyris er hafin.

Skipting verður að vera gagnkvæm

Skiptingin þarf að vera jöfn hjá báðum aðilum, þ.e.a.s. hvor aðili á að fá sama hlutfall frá hinum. Ef makinn á t.d. að fá 40% af mínum réttindum verður hann að láta mig fá 40% af sínum réttindum o.s.frv.

Jafnvel þó að maki þinn eigi ekki nein eftirlaunaréttindi skal skiptingin vera gagnkvæm og getur maki fengið allt að helming réttinda þinna.

Skipting lífeyrisgreiðslna
 • Eingöngu er um að ræða skiptingu núverandi eftirlauna á milli maka og skal skiptingin þá vera gagnkvæm og jöfn.
 • Við fráfall sjóðfélagans falla greiðslur til maka niður. Við fráfall maka fær sjóðfélagi hins vegar greidd full eftirlaun.
 • Þegar um er að ræða skiptingu á núverandi eftirlaunagreiðslum getur hvor aðili um sig sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara
Skipting þegar áunninna eftirlaunaréttinda
 • Samkomulag um skiptingu áunninna réttinda skal vera skriflegt og eiga sér stað áður en taka eftirlauna hefst og ekki seinna en fyrir 65 ára aldur. Skipting nær til eftirlaunaréttinda á meðan hjúskapur eða óvígð sambúð hefur staðið eða mun standa. Hægt er að skipta allt að helmingi réttinda/iðgjalda og er skiptingin gagnkvæm og varanleg.
 • Eftir skiptinguna, sem er óafturkallanleg, nema með samþykki allra sjóða sem málið varðar, verða réttindi beggja aðila sjálfstæð og fær hvor aðili greidd eftirlaun til æviloka.
Réttarstaða mín við andlát maka míns Réttarstaða maka míns við andlát mitt
Þá hefur þú afsalað þér helming af áunnum réttindum þínum til frambúðar en færð á móti helminginn af áunnum eftirlaunaréttindum maka þíns. Um greiðslu makalífeyris fer hins vegar eftir samþykktum lífeyrissjóðsins sem maki þinn greiddi til. Makalífeyrir helst óbreyttur, hann hvorki hækkar né lækkar þó búið sé að skipta áunnum eftirlaunaréttindum. Maki þinn fær greiddan makalífeyri eftir þig úr sjóðnum, en auk þess fær hann sinn helming af þegar áunnum eftirlaunaréttindum þínum.
Skipting framtíðariðgjalda

Á við um iðgjöld sem greiðast eftir að samkomulagið er gert og þar til hjúskap, sambúð eða samvist er slitið.Við skiptingu réttinda ber að skila eftirfarandi gögnum til þess lífeyrissjóðs sem síðast var/er greitt til:

 • Samningi um skiptingu eftirlaunaréttinda.
 • Sambúðar og/eða hjúskaparvottorði - til staðfestingar á því tímabili sem skipta ber samkvæmt samningi.
 • Heilbrigðisvottorði - skal fylgja með sé verið að skipta áunnum réttindum.

Ef um er að ræða samkomulag um skiptingu framtíðarréttinda bera aðilar hvor um sig ábyrgð á því að tilkynna þær til nýrra sjóða ef skipt erum lífeyrissjóð.

Þegar um er að ræða skiptingu á núverandi eftirlaunagreiðslum og framtíðarréttindum getur hvor aðili um sig sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara.