14. desember 2017
Ámælisverð vinnubrögð stjórnar Klakka ehf.
self.header_image.title

Vinnubrögð stjórnar  Klakka ehf. (áður Exista) gagnvart hluthöfum í aðdraganda hluthafafundar 11. desember 2017 voru óvönduð og ógegnsæ og því  ámælisverð. 

Hluthafafundurinn var auglýstur í dagblaði 4. desember 2017. Þar kom fram að á dagskrá væri meðal annars að ræða starfskjarastefnu Klakka og að fundargögn yrðu afhent á fundardegi.  Eðlilegt hefði verið að vekja athygli hluthafa og upplýsa þá frekar fyrir fundinn, eins og alsiða er í félögum þegar taka á viðlíka mál fyrir og afgreiða.

Fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga samtals um 6% hlut í Klakka, þar á meðal Birtu lífeyrissjóður. 

Stjórn Birtu fjallaði um Klakkamálið í dag og um þá niðurstöðu hluthafafundar að samþykkja kaupaukakerfi með bónusgreiðslum upp á 550 milljónir króna vegna fyrirhugaðrar sölu á fyrirtækinu Lykli og vegna annarra eigna Klakka. 

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs er efnislega algjörlega andvíg starfskjarastefnu Klakka, sem eigandi stórs meirihluta félagsins samþykkti á hluthafafundinum. Þessi samþykkt og vinnubrögðin fara enda í bága við eigendastefnu Birtu þar sem segir meðal annars:

„Það er mat sjóðsins að gæta skuli hófs við ákvörðun starfskjara stjórnenda og m.a. sé horft til stærðar og umfangs rekstursins og þau starfskjör sem almennt bjóðast í því umhverfi sem fyrirtækið starfar í.“ 

Og enn fremur:

„Mikilvægt er að starfskjarastefnan tryggi langtímahagsmuni hluthafa, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila með skipulegum, einföldum og gagnsæjum hætti.“

Í eigendastefnunni birtist þannig skýrt sú afstaða Birtu lífeyrissjóðs að starfskjör skuli taka mið af íslenskum veruleika og umhverfi. Starfskjarastefna Klakka er fjarri því að gera það.