10. október 2018
Að gefnu tilefni um málefni HB Granda og Ögurvíkur
self.header_image.title

Birta lífeyrissjóður á tæplega 5% eignarhlut í HB Granda. Fjárfestingarráð sjóðsins fjallaði í dag um þá ákvörðun Útgerðarfélags Reykjavíkur (áður Brims) að hætta við að selja HB Granda allt hlutafé Ögurvíkur. Rökin sem færð eru fyrir þeirri ákvörðun eru þau að ekki sé skynsamlegt að „knýja viðskiptin í gegn eins og staðan er nú í ljósi efasemda eins af stærri hluthöfum í HB Granda.“

Fjárfestingarráð Birtu tekur fram eftirfarandi að gefnu tilefni:

  1. Eðlilegt var að kalla eftir óháðu mati á fyrirhuguðum viðskiptum tengdra aðila. Slík vinnubrögð eru hvorki ávísun á sundurlyndi í hluthafahópnum né hafa neitt með minnihlutavernd í HB Granda að gera. Það hlyti þá einfaldlega að koma í ljós á hluthafafundi hvort minnihlutavernd kæmi hér við sögu og hvaða stuðning tillaga um óháð mat hefði.
  2. Kaup HB Granda á Ögurvík eru áhugaverður fjárfestingarkostur að mati fjárfestingarráðs Birtu. Óháð mat ætti ekki að rýra þann kost að neinu leyti og því síður stuðla að einhvers konar óróa í eigendahópnum.
  3. Skynsamlegast væri því að samningur um kaup á Ögurvík yrði metinn af óháðum aðila, hvort heldur væri Kvika banki eða aðrir sem teldust óháðir gagnvart viðskiptunum sem hér um ræðir.