23. maí 2022
Ávöxtun eigna Birtu 10% á árinu 2021
self.header_image.title

Hrein raunávöxtun eigna Birtu lífeyrissjóðs nam 10,1% á árinu 2021. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar eigna undanfarin fimm ár (frá stofnun sjóðsins í lok árs 2016) er 7,38% .

Þetta kom fram á ársfundi Birtu, 19. maí sl. Pálmar Óli Magnússon, formaður sjóðsins, sagði:

„Okkur hefur tekist að byggja upp öfluga og sjálfstæða eigna- og áhættustýringu sem hefur frelsi til athafna innan þeirra marka sem stjórn setur í stefnuskjölum. Þannig á skipulagið að vera, stjórnin mótar stefnu að höfðu samráði við haghafa og hefur svo fyrst og fremst eftirlit með fylgni við stefnuskjölin.

Það reynir stundum á þetta skipulag og á síðasta ári vildu sumir haghafar stýra lífeyrissjóðum úr fjarlægð. Það er vel að haghafar láti skoðun sína í ljós en mikilvægt að leyfa þeim sem hafa umboð til ákvarðana að stýra eignum á milli funda.

Síðasta ár var sérlega blómlegt þegar horft er yfir eignamarkaði og er 10% raunávöxtun eigna á einu ári sannarlega fagnaðarefni. En það er langtímaárangur sem skiptir okkur mestu máli.“

Formaðurinn vísaði til þess að í ársskýrslu Birtu væri að finna upplýsingar um einstakar fjárfestingar, kostnaðarverð þeirra og ávöxtun. Hann sá ástæðu til að nefna eina tiltekna fjárfestingu:

„Sumar þessara fjárfestinga voru umdeildari en aðrar og má þar nefna flugfélagið Play sem hóf sig til flugs um mitt ár 2021 að undangenginni hlutafjáraukningu sem Birta tók þátt í. Fjárfestingarákvörðunin var undirbúin, eins og aðrar fjárfestingar, af starfsfólki sem hefur það hlutverk að ávaxta eignir Birtu í samræmi við stefnuskjölin. Það er ærið verkefni og til að meta hvernig það hefur gengið birtum við ykkur fyrrgreindan lista af eignum með ítarlegum upplýsingum. Sá listi er settur fram fyrir sjóðfélaga til að spyrja spurninga og stuðla að málefnalegri rökræðu um eignir á hverjum tíma. Í þeim efnum skiptir mestu máli að draga ekki dul á það sem ekki tókst, frekar en að hampa bara því sem vel er gert. Listinn ber þess glögg merki að sjóðfélagar eru vel upplýstir um afkomu á milli ára eins og vera ber.“

Í umræðum um skýrslu stjórnar kom til orðaskipta nokkurra fulltrúa úr hópi launamanna á fundinum annars vegar og stjórnarformannsins hins vegar um Play. Þeir sem kvöddu sér hljóðs gagnrýndu fjárfestinguna og vísuðu til þess að verkalýðshreyfingin teldi að flugfélagið virti helstu stoðir í kjaraumhverfi launafólks á Íslandi að vettugi. Slíkar aðfinnslur ætti að meta ekki síður en ávöxtun fjárfestingarinnar. Pálmar Óli svaraði því til að Play virti lög og reglur sem á vinnumarkaði giltu. Ekki væri á dagskrá hjá Birtu að losa sig við hlutabréfin í Play, enda væri sú fjárfesting afar ábatasöm.

Ársfundur2022

Aðra fjárfestingu Birtu bar á góma á ársfundinum, í máli Ólafs Sigurssonar framkvæmdastjóra. Hann nefndi hlutabréf í Össuri, alþjóðlegu heilbrigðistæknifyrirtæki sem stofnað var 1971 og hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks – undir kjörorðunum Líf án takmarkana:

„Birta og forverar hennar hafa átt hlutabréf í Össuri frá skráningu félagsins á markað og sú fjárfesting hefur ábyggilega skilað yfir 11,2% raunávöxtun síðastliðna áratugi. Eignin er ábatasöm en fjárfestingin stuðlar jafnframt að meiri og betri lífsgæðum fyrir fjölda fólks um víða veröld.“

Fáeinar lykiltölur um starfsemi Birtu 2021

  • Hrein eign í lok árs 2021 nam 572 milljörðum króna.
  • Iðgjöld til sjóðsins námu um 20 milljörðum króna.
  • Sjóðfélagar eru alls um 100.000.
  • Virkir sjóðfélagar eru um 20.038
  • Tæplega 16.000 sjóðfélagar fengu eftirlaun/lífeyri frá Birtu, alls um 15 milljarða króna.
  • Meðalaldur þeirra sem hófu töku eftirlauna 2021 var 66 ár.
  • Hrein raunávöxtun eigna var 10,1%.
  • Hrein raunávöxtun sparnaðarleiða í séreignadeild:
    • Innlánsleið -0,06%
    • Skuldabréfaleið 0,56%
    • Blönduð leið 12,52%
  • Hrein raunávöxtun tilgreindrar séreignar 6,37%.