30. júní 2018
Bifvélavirkjar með bros á vör
self.header_image.title

„Nemendur okkar koma úr mörgum áttum. Flestir byrja að loknum grunnskóla en við höfum líka verðandi bifvélavirkja sem hófu grunnnám að loknu stúdentsprófi,“ segir Marín Björk Jónasdóttir, sviðsstjóri bíliðna í Borgarholtsskóla.

„Allir byrja í grunnnámi en geta valið margar mismunandi leiðir að því loknu. Farið til dæmis í blikksmíði, rennismíði eða einhverja bílgrein; bifvélavirkjun, bifreiðasmíði eða bílamálun.

Fleiri sækja um bifvélavirkjun en við getum tekið við og þá skiptir námsárangur og ástundun máli til að komast þar inn. Minna er sótt í bifreiðasmíði og bílamálun en við erum samt komin með tólf eða þrettán í bílamálun á komandi haustönn. Það lofar góðu.“

Nemar í bifvélavirkjun sátu með ánægju fyrir á myndum sem Birta lífeyrissjóður tók í kynningarskyni í Borgarholtsskóla í vor. Áhuginn og einbeitingin skein af hverju andliti, ekki vottur af námsleiða sjáanlegur. Enda eru það forréttindi að komast í eftirsótt fag í sjálfum kjarnaskóla bílgreina á Íslandi og atvinna að námi loknu verður ekki vandamál eða hvað?

„Nei, hreint ekki. Þeir sem standa sig vel geta valið úr tilboðum um atvinnu.“

Bílar breytast og bíliðnanámið að sjálfsögðu líka. Borgarholtsskóli hefur keypt rafbíl til að nota sem kennslugagn og fyrir voru þar tveir tvinnbílar. Málningarhermir er líka nýtt kennslutæki í bílamálun. Nemandinn stendur þá við stóran sjónvarpsskjá með sprautukönnu í hönd og sprautar bíl í þykjustunni. Tækið sýnir framgang verksins, mælir þykkt málningarlagsins, efnisnotkun og fleira. Meira að segja er sama hljóð í málningarsprautunni í sýndarveruleikanum og væri á hverju öðru málningarverkstæði í alvörubransa. 

Það heyrir til tíðinda að nemendur Borgarholtsskóla ætla nú að keppa í fyrsta sinn fyrir hönd skólans í drift og rallýkrossi sumarið 2018. Þeir græja bílana auðvitað sjálfir sem hluta af náminu.

Á verkstæði bílvirkjanemanna hafði Jagúar á dögunum tekið á sig fagra mynd til undirbúnings keppni í drift, þeirri akstursíþrótt sem eykur vinsældir sínar hvað hraðast.

Í öðru rými skammt þar frá var unnið að smíði veltibúrs á rallýkrossbíl.

Alls staðar áhugasamt fólk að störfum. Þetta heitir að læra sér til gagns og ánægju.

 

Myndir: Hreinn Magnússon/Eitt stopp & Atli Rúnar Halldórsson 

ARH_2_IMG_2312.jpg

IMG_2341.jpg

IMG_2340.jpg

ARH_1_.jpg

14_BIRTA-Borgó-TB18006-copy.jpg

13-BIRTA-Borgó-TB18228.jpg

9-BIRTA-Borgó-TB18054.jpg

3-BIRTA-Borgó-18114.jpg

8-BIRTA-Borgó-TB18015.jpg

5-BIRTA-Borgó-18194.jpg