16. desember 2019
Birta auðveldar sjóðfélögum sínum fyrstu kaup fasteigna með breyttum lánareglum

Sjóðfélagar Birtu lífeyrissjóðs eiga nú kost á viðbótarláni og rýmri veðheimild þegar þeir kaupa fasteign í fyrsta sinn.

self.header_image.title

Þessi nýmæli ber hæst í breyttum lánareglum sem stjórn sjóðsins samþykkti 12. desember 2019.

Birta lánar allt að 40 milljónir króna til sjóðfélaga (einstaklinga, hjóna eða fólks í sambúð) gegn veði í fasteignum. Skilyrt er að lán, að viðbættum verðtryggðum forgangsveðskuldum, fari ekki umfram 65% af fasteignamati eignarinnar eða kaupverði hennar.

Kaupendum fyrstu fasteigna býðst viðbótarlán með föstum verðtryggðum vöxtum sjóðsins að viðbættu 0,5% álagi.. Þá er heimilt að miða veðhlutfall í slíkum tilvikum við 75% af kaupverði eignar en þá er þess jafnframt krafist að lánið sé á fyrsta veðrétti.

Lánsrétt hafa sjóðfélagar Birtu sem hafa greitt undanfarna sex mánuði í samtryggingardeild eða iðgjöld til sjóðsins samfellt í þrjú ár eða lengur, að uppfylltum einnig öðrum skilyrðum lánareglna.

Sjóðfélagalán Birtu voru áður 50 milljónir króna að hámarki en hámarkslánsupphæð er nú 40 milljónir króna.

Spurn eftir sjóðfélagalánum Birtu hefur aukist stórlega á undanförum þremur árum og er meiri í ár en nokkru sinni fyrr. Undanfarið hefur sjóðnum verið að berast um 140 umsóknir um lán í hverjum mánuði og vextir eru með því lægsta sem gerist á lánum til fasteignakaupa.

Meðallánsfjárhæð er um 22 milljónir króna. Í lok nóvember 2019 námu sjóðfélagalán 11,7% af heildareignum tryggingardeildar Birtu lífeyrissjóðs.