18. júní 2020
Birta brýtur blað í upplýsingamiðlun lífeyrissjóða
self.header_image.title
„Heilt yfir var 2019 frábært ár. Iðgjöld námu 19,3 milljörðum króna og við greiddum út 12,4 milljarða króna í lífeyri. Hrein raunávöxtun var yfir 11% og eignir námu alls 432 milljörðum króna í lok árs 2019. Tryggingafræðileg staða var neikvæð um 1,81% og hafði batnað verulega. Vonandi náum við jöfnuði eigna og skuldbindinga á næsta ári.“

Þannig dró Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, saman meginniðurstöður í starfseminni 2019 á ársfundi sjóðsins sem haldinn var mánudaginn 15. júní sl.

Ólafur frá ársfundi2020
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, í ræðustóli. Honum á vinstri hönd eru Arnar Sigurmundsson, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jakob Tryggvason.

Hann vakti athygli á að rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðaleignum hefði lækkað úr 0,19% árið 2019 í 0,17% árið 2019. Kostnaðarhlutfallið væri með því lægsta sem gerðist meðal lífeyrissjóða. Þannig mætti sjá að sameining Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs árið 2016 hefði „heppnaðist virkilega vel“. Þessa nyti nú Birta og sjóðfélagarnir.

Framkvæmdastjórinn vakti enn fremur athygli á því að nú léti sjóðurinn ekki duga að birta heildartölur ávöxtunar eigna sinna heldur líka sundurliðaðan lista yfir helstu fjárfestingar og ávöxtun þeirra frá upphafi sem sjá má í skýringu 9 í ársreikningi: „Þarna göngum við lengra en flestir ef ekki allir lífeyrissjóðir hafa gert í þessum efnum.“

Arnar Sigurmundsson
Arnar Sigurmundsson, ráðgjafi Samtaka atvinnulífsins í lífeyrismálum, stýrði ársfundi Birtu lífeyrissjóðs 2020.

Árangursmæling stjórnar Birtu

Ólafur Sigurðsson dvaldi ekki lengi við hefðbundna kynningu og útskýringar á ársreikningi Birtu en fjallaði þeim mun meira um þá ákvörðun sjóðsins að veita nú, fyrstur lífeyrissjóða, ítarlegar upplýsingar á sérstökum ársfundarvef um viðskiptalíkanið sem unnið er eftir og um svonefnda ófjárhagslega þætti starfsseminnar, fyrst og fremst varðandi umhverfis- og samfélagsmál, félags- og starfsmannamál. Þetta er hin eiginlega ársskýrsla sem unnið var að frá ársbyrjun 2020 í samræmi við alþjóðleg viðmið. Eva Jóhannesdóttir, markaðsfulltrúi Birtu, stýrði verkefninu.

Hvergi er ofmælt þegar fullyrt er að hér er brotið blað í upplýsingamiðlun í lífeyrissjóðakerfinu og þótt víðar væri leitað. Það á bæði við um efnið sjálft, efnistökin og birtingarformið. Til að mynda eru birtar niðurstöður árangursmælinga í sjö þáttum starfseminnar á kvarðanum 1 til 5. Þar á meðal er árangursmat stjórnar sjóðsins. Stjórnin er ekki að gefa sjálfri sér einkunn heldur að meta starfsemina eins og við henni blasir, samskipti við starfsmenn sjóðsins, upplýsingamiðlun til stjórnarinnar og fleira.

Árangursmat

Fáeinar lykiltölur Birtu lífeyrissjóðs 2019

  • Raunávöxtun samtryggingardeildar 11,21%
  • Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ár 4,93%
  • Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 10 ár 4,74%

  • Virkir sjóðfélagar 15.805
  • Greiðandi sjóðfélagar 18.284
  • Lífeyrisþegar 14.568
  • Sjóðfélagar alls 97.630

  • Rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðaleignum 0,17%