25. september 2018
Birta semur um skógrækt í Haukadal og stígur græn spor í starfsemi sinni
self.header_image.title
Jakob Tryggvason, formaður stjórnar ásamt Ágústi Jóhannssyni, skógarverði á Suðurlandi og Ingibjörgu Ólafsdóttur varaformanni stjórnar við undirritun samningsins.

Birta lífeyrissjóður hefur samið til þriggja ára við Skógræktina um gróðursetningu og skógrækt á alls þremur hekturum lands í Haukadal. Þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar sem lífeyrissjóður gerir við Skógræktina og er í raun stefnuyfirlýsing um verkefnið Græn spor Birtu.

Stjórn og starfsfólk Birtu, ásamt fulltrúum Skógræktarinnar í Haukadal.
Samningurinn var undirritaður í Haukadal að viðstaddri stjórn og varastjórn Birtu, nokkrum stjórnendum sjóðsins og fulltrúum Skógræktarinnar.

Athöfnin átti sér stað undir þaki skýlis úr íslenskum viði af vettvangi og boðið upp á kleinur og ketilkaffi. Atburðurinn sjálfur og veitingarnar yljuðu bæði sál og líkama í norðanfræsingnum sem lék um Birtufólk fyrr um daginn, þegar það gróðursetti 500 plöntur af stafafuru í nýja Birtulandinu undir styrkri stjórn Trausta Jóhannssonar skógarvarðar á Suðurlandi.

Gert er ráð fyrir 7.500 plöntum af stafafuru, sitkagreni og alaskaösp á hekturunum þremur þar sem vaxa mun skógur í nafni Birtu lífeyrissjóðs í fyllingu tímans. Starfsmenn Skógræktarinnar sjá um framkvæmd mála og Birtufólk fylgist vel með þessum græna afleggjara sjóðsins. Nú þegar er komin á dagskrá fjölskylduferð starfsmanna Birtu í Haukadal snemmsumars 2019 til kynnast verkefninu og landinu og kanna hvernig plöntur haustsins koma undan vetri.

Græn spor Birtu

Birta lífeyrissjóður hefur einsett sér að taka mörg smá og stór græn skref í starfsemi sinni. Skógræktin í Haukadal er stórt skref og ein af meginforsendum verkefnisins.

  • Markmiðið er að kolefnisjafna starfsemi lífeyrissjóðsins sjálfs, stjórnarmanna, stjórnenda og annars starfsfólks. Þannig tekur Birta ábyrgð á afleiðingum eigin reksturs fyrir náttúruna, stuðla að því að draga úr koldíoxíði í andrúmslofti og binda jarðveg á gróðursnauðu svæði.
  • Kolefnisbinding og kolefnisforði í trjám, botngróðri og jarðvegi í Haukadal verður eign Birtu til ársins 2068.

Birta undirbýr að færa grænt bókhald og rýna starfsemi sína í smáu og stóru í því skyni að stuðla sem mest af rekstri verði í sátt við umhverfi og náttúru. Meðal annars verður höfð hliðsjón af hvatakerfinu Græn skref í ríkisrekstri sem stigin voru fyrst 2014 og 2015 og eiga rætur að rekja til Grænna skrefa Reykjavíkurborgar.