18. júní 2020
Birta tekur á ný við umsóknum um endurfjármögnun lána
self.header_image.title

Sjóðfélagar Birtu geta nú á nýjan leik lagt inn umsóknir hjá lífeyrissjóðnum um endurfjármögnun lána. Þessum þætti starfseminnar var hætt tímabundið frá og með 4. apríl vegna anna og álags við að framfylgja greiðsluerfiðleikaráðstöfunum stjórnvalda í COVID-veirufaraldrinum.

Starfsmenn Birtu hafa lokið við að breyta skilmálum allra sjóðfélaga sem sóttu um að fresta gjalddögum lána sinna. Slíkar umsóknir reyndust umtalsvert færri en gert var ráð fyrir. Nærtæk skýring á því kann að vera sú að færri sjóðfélagar hafi misst vinnuna að hluta eða öllu leyti vegna COVID en óttast var þegar faraldurinn var sem skæðastur. Þá má vel vera að lágir og lækkandi vextir á lánum Birtu hafi hjálpað fólki að standa í skilum. Vanskil hjá Birtu hafa í það minnsta ekki aukist.

Starfsemi Birtu lífeyrissjóðs hefur smám saman færst nær því horfi sem telst eðlilegt en vert er samt að hafa í huga að COVID-veiran er ekki sigruð enn. Hún geisar víða um veröld og ný smit eru að greinast á Íslandi eftir að aflétt var ströngustu takmörkunum á ferðalögum og samskiptum fólks.

Við hjá Birtu vonum auðvitað hið besta en erum raunsæ og erum þess minnug að hjá sjóðnum gildir enn einskonar viðbúnaðarástand gagnvart nýju smiti í nánasta umhverfi okkar. Við viljum auðvitað alls ekki upplifa slíkt bakslag að það leiði til þess að starfsmenn þurfi á nýjan leik að sinna verkefnum sínum að heiman.

Stjórn fer yfir stöðuna í haust

Vextir á sjóðfélagalánum Birtu lífeyrissjóðs hafa undanfarið verið lægstir í samanburði við aðrar lánastofnanir. Þar er helst vísað til breytilegra vaxta á óverðtryggðum lánum sjóðsins. Útlit er hins vegar fyrir að á því verði breyting þegar líður á árið og vaxtaálag tekið til endurskoðunar.

Vextir Birtu á óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum hafa í stórum dráttum fylgt stýrivöxtum Seðlabankans. Í skörpu vaxtalækkunarferli bankans vegna COVID hafa þau ríkisskuldabréf sem standa sjóðnum til boða á markaði ekki fylgt vaxtalækkunum bankans jafn skarplega eftir. Breytingar á óverðtryggðum vöxtum Birtu hafa hins vegar orðið nánast um leið og Seðlabankinn lækkar stýrivexti sína.

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs fer í haust yfir stöðuna í starfseminni eins og gert er árlega. Fjallað verður um vexti á sjóðfélagalánum, markaðsvexti yfirleitt og endurmat lagt á verðlagningu á áhættu, kostnaði og þjónustu neytendalána.