21. mars 2020
Birta virkjar viðbragðsáætlun gagnvart sjóðfélögum, fyrirtækjum og eigin starfsemi
self.header_image.title

„Lífeyrissjóðurinn mun koma til móts við sjóðfélaga og fyrirtæki sem lenda í tímabundnum erfiðleikum í veirufaraldrinum. Við viljum aðstoða sem fyrst þá sem þurfa á aðstoð að halda og forgangsröðum erindum þannig. Lífeyrissjóðurinn mun greiða lífeyri um næstu mánaðarmót, það hefur verið tryggt. Álagið eykst mjög á starfsfólkið okkar en við kappkostum að halda starfseminni gangandi, jafnvel þó svo fari að starfsmenn vinni heiman frá sér, tölvutengdir skrifstofu sjóðsins,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Einstæðir tímar kalla á einstæð viðbrögð hvar sem er í samfélaginu, líka hjá lífeyrissjóðum. Landsamtök lífeyrissjóða, Samtök fjármálafyrirtækja og stjórnvöld ræða hvernig staðið skuli að því að aðstoða þá sem missa vinnu eða lenda í tekjufalli vegna ástandsins, með tilheyrandi afleiðingum. Allra hagur er að útfærslan verði samræmd.

Ráðstöfun gagnvart sjóðfélögum í greiðsluerfiðleikum verður tímabundin frestun á afborgunum sjóðfélagalána með skilmálabreytingum lána. Hægt er að afgreiða slíkt rafrænt í samskiptum Birtu og sjóðfélaga en lokafrágangur þarf að fara sína leið á skjalapappír til sýslumanns með tilheyrandi undirskriftum. Þá tekur afgreiðslan skiljanlega lengri tíma en ella.

„Birta er með vel útbúið rafrænt kerfi og veitir góða rafræna þjónustu, eins og margir sjóðfélagar þekkja af eigin raun. Að því leyti stöndum við vel til að geta afgreitt einföld erindi sjóðfélaga vegna veirufaraldursins fumlaust og greiðlega. Afgreiðsla erinda frá fyrirtækjum er flóknari og það er eðli máls samkvæmt,“ segir framkvæmdastjórinn.

„Við höfum virkjað viðbragðsáætlun lífeyrissjóðsins sem miðar að því að starfsemin fari ekki úr skorðum þó við þyrftum að loka skrifstofunni og hafa starfsfólkið í vinnu heima hjá sér meðan versta ástandið varir. Símaþjónustan mun eðlilega skerðast og starfsemin verða hægari en verður samt vissulega til staðar. Við sinnum sjóðfélögum vel hér eftir sem hingað til og erum til þjónustu reiðubúin!“