23. júní 2017
Breytingar á samþykktum sjóðsins
self.header_image.title

Mikill meirihluti fulltrúa samþykkti breytingar á samþykktum Birtu lífeyrissjóðs á aukaársfundi sjóðsins sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík, fimmtudaginn 22. júní 2017. Breytingarnar eru til komnar vegna nýrrar séreignardeildar í sjóðnum, T-deildar, sem tekur við tilgreindri séreign í samræmi við samkomulag ASÍ og SA frá janúar 2016.  

Samþykktirnar hafa verið sendar til umsagnar Fjármálaeftirlitsins og bíða staðfestingar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með fyrirvara um staðfestingu þeirra munu nýjar samþykktir taka gildi 1. júlí nk. Hafi fjármálaráðuneyti ekki staðfest samþykktabreytingarnar fyrir 1. júlí 2017 öðlast breytingarnar gildi 1. dag næsta almanaksmánaðar á eftir staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 


Tilgreind séreign

Að fenginni staðfestingu mun sjóðurinn geta tekið á móti iðgjaldi umfram 12% skylduframlag í svokallaða tilgreinda séreign. Sjóðfélagar munu þurfa að veita upplýst samþykkti sitt ef vilji þeir ráðstafa hluta eða öllu viðbótariðgjaldi sínu í tilgreinda séreign. Mun það vera gert með rafrænum skilríkjum á nýrri þjónustugátt sjóðsins, sem fyrirhugað er að verði aðgengileg í byrjun júlí. Berist slík tilkynning ekki sjóðnum verður iðgjaldi áfram ráðstafað í samtryggingardeild. 

Þá er einnig fyrirhugað að 1. júlí n.k. verði aðgengileg ný lífeyrisreiknivél Birtu sem sýnir fjárhæðir miðað við mismunandi hlutfall heildarframlags í­ samtryggingu, tilgreinda séreign og hefðbundinn séreignarsparnað.