02. mars 2018
Eldri borgarar verði virkari á vinnumarkaði
self.header_image.title

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur

„Sterk rök eru fyrir því að hvetja til meiri atvinnuþátttöku eldri borgara í ljósi stöðunnar í samfélaginu. Ef við værum á samdráttarskeiði í efnahagslífinu lægi frekar við að stuðla að atvinnu fyrir ungt fjölskyldufólk en nú kalla aðstæður frekar á hvata fyrir eldri borgara til að vera lengur á vinnumarkaði,“ segir dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur í þessu viðtali sem upphaflega birtist á vefnum Lífeyrismál.is.

Hann hefur rannsakað kjör og aðstæður eldri borgara og fjallað um málið í ræðu og riti, meðal annars hjá velferðarnefnd Alþingis á dögunum. Þar reifaði hann hugmyndir sínar um aukna atvinnuþátttöku eldri borgara og nauðsyn þess að draga úr eða fella niður skerðingu atvinnutekna. Þá hefur hann lagt til að færa sem stærstan hluta aldraðra úr skilgreindri fátækt upp fyrir lágmarksframfærslumiðvið íslenska stjórnvalda (velferðarráðuneytis).

„Aðstæður geta breyst og það verulega á skömmum tíma, eins og dæmin sanna. Þær eru mjög óvenjulegar núna og eiga að hvetja til þess að aldraðir taki lengur þátt í atvinnulífinu.

Efst á blaði á að vera að draga verulega úr skerðingu atvinnutekna eldri borgara og öryrkja eða láta alveg af því að skerða þær. Greiðslur Tryggingastofnunar myndu aukast um tvo milljarða króna á ári ef skerðing atvinnutekna yrði afnumin með öllu en ríkið hagnast á ráðstöfuninni þegar upp er staðið og tekið er tillit til þess sem auknir tekju- og veltuskattar í hagkerfinu skila á móti.

Margir vilja vinna lengur þegar líður á ævina en sjá ekki tilgang í því vegna þess hve litlu það skilar í vasann. Eðlilega er litið á slíkt sem refsingu fyrir að vinna!

Önnur hlið á málinu varðar húsnæðismálin. Eldri borgarar og öryrkjar búa jafnan í eigin húsnæði og geta oft leigt út frá sér herbergi eða íbúðir. Við ríkjandi aðstæður er rétt að gera leigutekjur þessara hópa skattfrjálsar tímabundið. Ég hef ekki reiknað nákvæmlega út af hve miklum skatttekjum ríkið yrði við slíka ráðstöfun en sú upphæð er lægri en margur hyggur. Jákvæð áhrif geta hins vegar orðið umtalsverð.

Í hnotskurn er ástandið þannig núna að fjölda íbúða vantar á markaðinum, byggingariðnaðurinn er á yfirsnúningi og flytur inn vinnuafl í stórum stíl, fólk sem líka þarf þak yfir höfuðið. Sú eftirspurn eykur enn á þensluna.“

Hækka frítekjumark, draga úr skerðingum, veita skattaafslátt

Haukur nefnir enn fremur að heimila eigi ríkinu tímabundið að hafa opinbera starfsmenn í vinnu fram yfir sjötugt. Það sé ráðstöfun í þeim anda að auka atvinnuþátttöku eldri borgara.

„Augljóst er að hagur þeirra eldri borgara sem lakast standa verður lítt eða ekki bættur með skattfrelsi leigutekna eða skattfrelsi til að stuðla að virkni þeirra á vinnumarkaði. Þá nefna menn oft þá leið að hækka einfaldlega bætur Tryggingastofnunar og auðvitað er það út af fyrir sig kostur.

Ég horfi frekar til þess að hækka frítekjumarkið verulega, draga stórlega úr skerðingaráhrifum í kerfinu og veita sérstakan skattaafslátt af lægstu tekjum. Skattaafsláttur er nefnilega mun aðgengilegri og álitlegri aðgerð en að hækka tryggingabætur.

Núna er almennt frítekjumark 25.000 krónur en viðmið atvinnutekna 100.000 krónur, það er að segja tekjur sem skila sér án skerðingar í vasa eldri borgara. Ef frítekjumarkið yrði fimmfaldað, fært upp í 125.000 krónur, myndi það gagnast hópum með tiltölulega lítinn lífeyrisrétt eða sem hafa verið í láglaunastarfi og eiga af þeim sökum lítinn rétt. Þar eru konur í meirihluta.“

 

Markmiðið að jafna stöðuna við meðaltalið í OECD-ríkjum

„Þessar ráðstafanir myndu auka ráðstöfunartekjur fjölda fólks á eftirlaunum og koma miklum meirihluta eldri borgara á Íslandi upp fyrir viðmiðunarmörk velferðarráðuneytisins fyrir lágmarksframfærslu,“ segir Haukur Arnþórsson og bætir við:

„Aðgerðina má líka réttlæta með því að fólk njóti sjálft í auknum mæli lífeyrisréttinda sinna í stað þess að réttindin nýtist aðallega til þess að minnka útgjöld ríkisins.

Meðaleftirlaun aldraðra eru 301.500 krónur en framfærsluviðmið velferðarráðuneytis 335.000 krónur að meðtöldum húsnæðiskostnaði.

Samhliða hækkun frítekjumarksins mætti veita tekjulágum eldri borgurum með tekjur undir framfærsluviðmiði verulegan skattaafslátt. Það myndi auka kaupmátt þeirra og færa þeim í raun sambærilegan kaupmátt og hópum með mun hærri tekjur.

Hér er ekki verið að tala um nýtt skattþrep heldur ráðstöfun sem varðar tiltekinn hóp eldri borgara og hefur ekki áhrif á launamál á almennum vinnumarkaði í landinu.

Markmiðið hlýtur að vera að bæta afkomu eldri borgara, koma þeim upp fyrir fátæktarmörk og jafna stöðu þeirra við meðalafkomu eldri borgara í OECD-ríkjum.“

meðaltekjur graf

 

 

Hér má sjá að eldri borgarar vinna á aldrinum 67-70 ára (græn lína) en mjög minnkandi eftir það. Þá taka tekjur úr lífeyrissjóðum við af launatekjum. Eftir 75 ára aldur er tæplega neinum launatekjum til að dreifa.

 

 

tekjur og viðmið graf

 

 

 

 

 

Tölur um kjör eldri borgara á Íslandi, meðallaun á Íslandi og eftirlaun í OECD-ríkjum. Ætla má að þrír af hverjum fjórum eldri borgara hérlendis séu á eftirlaunum sem ná ekki neysluviðmiði velferðarráðuneytisins (rauð lína).