Fjárfestingarstefna Birtu lífeyrissjóðs vegna ársins 2021 er nú aðgengileg á heimasíðu sjóðsins.
Fjárfestingastefna Birtu fyrir árið 2021 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 26. nóvember sl. Um er að ræða stefnu samtryggingardeildar, séreignadeildar og deildar um tilgreinda séreign. Fjárfestingastefnan er hugsuð til langs tíma en engu að síður er hún endurskoðuð árlega af stjórn Birtu að teknu tilliti til aðstæðna á markaði og helstu breytinga í umhverfi sjóðsins.
Helstu breytingar frá fjárfestingarstefnu 2020 eru eftirfarandi:
- Helstu breytingar á stefnu samtryggingardeildar á milli ára fela í sér lækkun á hlutfalli ríkisskuldabréfa, skuldabréfa sveitarfélaga og sértryggðra skuldabréfa lánastofnana. Á móti þeirri lækkun vegur hækkun á hlutfalli fasteignaveðtryggðra skuldabréfa og hlutabréfa, bæði innlendra og erlendra. Þá voru einnig gerðar breytingar á vikmörkum einstakra eignaflokka stefnunnar.
- Fjárfestingastefna tilgreindu séreignarinnar er óbreytt á milli ára. Hins vegar er gert ráð fyrir að sjóðfélagar þessarar deildar eigi kost á því fljótlega á nýju ári að velja sömu sparnaðarleiðir og eru í boði fyrir sjóðfélaga séreignardeildar Birtu, þ.e. innlánsleið, skuldabréfaleið og blandaða leið skuldabréfa og hlutabréfa.
- Engar breytingar voru gerðar á innlánsleið séreignadeildarinnar á milli ára. Þá voru gerðar breytingar bæði á skuldabréfaleiðinni og blönduðu leiðinni. Hvað þá fyrrnefndu snertir var hlutfall ríkisskuldabréfa, skuldabréfa sveitarfélaga og fasteignaveðtryggðra skuldabréfa lækkað. Á móti átti sér stað hækkun á hlutfalli sértryggðra skuldabréfa lánastofnana og eignaflokknum sérhæfðar fjárfestingar. Hvað blönduðu leiðina varðar var hlutfall innlendra og erlendra hlutabréfa hækkað á milli ára á kostnað erlendra skuldabréfa. Þá var hlutfall sérhæfðra fjárfestinga einnig hækkað en á móti var hlutfall fyrirtækjaskuldabréfa lækkað. Þess skal getið að eignaflokkurinn sérhæfðar fjárfestingar felur í sér fjárfestingu í fagfjárfestasjóðum utan um fasteignaveðtryggð skuldabréf lögaðila. Þá voru einnig gerðar breytingar á vikmörkum einstakra eignaflokka innan skuldabréfa- og blönduðu leiðarinnar.