Fjárfestingarstefna Birtu vegna ársins 2022 er nú aðgengileg á heimasíðu sjóðsins
Fjárfestingastefna Birtu fyrir árið 2022 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 25. nóvember sl. og tók gildi þann 1. desember sl. Um er að ræða stefnu samtryggingardeildar, séreignadeildar og deildar um tilgreinda séreign. Fjárfestingastefnan er hugsuð til langs tíma en engu að síður er hún endurskoðuð árlega af stjórn Birtu að teknu tilliti til aðstæðna á markaði og helstu breytinga í umhverfi sjóðsins.
Helstu breytingar á stefnu samtryggingardeildar á milli ára fela í sér lækkun á hlutfalli ríkisskuldabréfa og hlutfalli fasteignaveðtryggða skuldabréfa. Á móti þeirri lækkun vegur hækkun á hlutfalli erlendra hlutabréfa, innlána og sérhæfðra fjárfestinga. Undir síðastnefnda eignaflokkinn falla innlendar og erlendar framtaksfjárfestingar á sjóðaformi. Þá voru einnig gerðar minniháttar breytingar á vikmörkum einstakra eignaflokka stefnunnar. Markmið annarra eignaflokka stefnunnar, þ.e. skuldabréf sveitarfélaga, lánastofnana og fyrirtækja er óbreytt frá fyrra ári. Þá er markmið innlendra hlutabréfa í stefnunni einnig óbreytt á milli ára, eða 13,5%.
Fjárfestingarstefna tilgreindu séreignarinnar er óbreytt á milli ára.
Fjárfestingastefnur tveggja ávöxtunarleiða hinnar hefðbundnu séreignar, þ.e. innlánsleið og skuldabréfaleið eru óbreyttar á milli ára að undanskilinni minniháttar breytingu á vikmörkum einstakra eignaflokka í síðarnefndu ávöxtunarleiðinni. Í blönduðu leiðinni var hins vegar vægi fasteignaveðtryggða skuldabréfa lækkað á móti hækkun á hlutfalli erlendra hlutabréfa.
Fjárfestingarstefnu Birtu má skoða í heild sinni hér.