Fjárfestingarstefna Birtu fyrir árið 2026 hefur verið samþykkt af stjórn sjóðsins og tekur hún gildi þann 1. janúar 2026. Um er að ræða stefnu samtryggingardeildar og séreignadeildar en sú síðarnefnda tekur einnig til tilgreindrar séreignar. Fjárfestingarstefnan lýsir stefnu sjóðsins í fjárfestingum og ávöxtun fjármuna sjóðfélaga. Í grunninn er stefnan hugsuð til langs tíma en engu að síður er hún endurskoðuð árlega af stjórn Birtu og starfsfólki sjóðsins, fyrir 1. desember ár hvert, með tilliti til efnahagsaðstæðna hverju sinni og helstu breytinga í umhverfi sjóðsins.
Helstu breytingar á stefnu samtryggingardeildar á milli ára fela í sér lækkun á hlutfalli ríkisskuldabréfa úr 13,5% í 10,0%. Þá er vægi innlendra hlutabréfa lækkað úr 15,0% í 14,0% sem og vægi erlendra skráðra hlutabréfa úr 27,0% í 26,5%. Á móti hækkar hlutfall fasteignaveðtryggðra skuldabréfa úr 17,0% í 20,0% en undir þann eignaflokk falla m.a. sjóðfélagalán Birtu. Þá hækkar einnig hlutfall skuldabréfa lánastofnana úr 1,5% í 2,0% og skuldabréf fyrirtækja úr 7,0% í 8,0%. Að auki er vægi sérhæfðra fjárfestinga hækkað úr 13,5% í 14,0% en undir þennan eignaflokk falla óskráðar fjárfestingar, bæði innlendar og erlendar, í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameignlega fjárfestingu. Þá er gert ráð fyrir að vægi gengisbundinna eigna í fjárfestingarstefnunni hækki úr 38,5% í 39,5%. Að endingu eru gerðar minniháttar breytingar á vikmörkum einstakra eignaflokka stefnunnar. Þá eru fjárfestingarstefnur og vikmörk einstakra eignaflokka sparnaðarleiða séreignardeildar Birtu, þ.e. innlánsleiðar, skuldabréfaleiðar og blandaðrar leiðar, óbreyttar á milli ára.