Fjárfestingarstefna Birtu vegna ársins 2024 er nú aðgengileg á heimasíðu sjóðsins
Fjárfestingarstefna Birtu fyrir árið 2024 hefur verið samþykkt af stjórn sjóðsins og tekur hún gildi þann 1. janúar 2024. Um er að ræða stefnu samtryggingardeildar og séreignadeildar en sú síðarnefnda tekur einnig til tilgreindrar séreignar. Fjárfestingarstefnan lýsir stefnu sjóðsins í fjárfestingum og ávöxtun fjármuna sjóðfélaga. Í grunninn er stefnan hugsuð til langs tíma en engu að síður er hún endurskoðuð árlega af stjórn Birtu, fyrir 1. desember ár hvert, með tilliti til efnahagsaðstæðna hverju sinni og helstu breytinga í umhverfi sjóðsins.
Helstu breytingar á stefnu samtryggingardeildar á milli ára fela í sér hækkun á hlutfalli skuldabréfa sveitarfélaga, úr 4,0% í 5,5%, og hlutfalli sérhæfðra fjárfestinga, úr 9,5% í 12,5%. Undir síðarnefnda eignaflokkinn falla óskráðar fjárfestingar, bæði innlendar og erlendar, í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Á móti þessum hækkunum lækkar hlutfall erlendra skráðra hlutabréfa, úr 29,0% í 26,0%, hlutfall innlendra hlutabréfa, úr 16,0% í 15,0%, og hlutfall innlána, úr 1,0% í 0,5%. Breytingar á stefnu annarra eignaflokka stefnunnar sem og breytingar á vikmörkum einstakra eignaflokka voru minniháttar á milli ára.
Fjárfestingastefnur séreignardeildarinnar eru óbreyttar á milli ára. Þá voru vikmörk tveggja eignaflokka í skuldabréfabréfaleiðinni víkkuð lítillega, þ.e. annars vegar á skuldabréfum fyrirtækja og hins vegar á sérhæfðum fjárfestingum. Í blönduðu leiðinni voru vikmörk sérhæfðra fjárfestinga einnig víkkuð lítilsháttar.