„Sjóðfélagalánum fjölgar frá því í fyrra. Ætla má að þriðjungur lánanna sé vegna fasteignakaupa en tvö lán af hverjum þremur vegna endurfjármögnunar eldri og óhagstæðari lána,“ segir Íris Anna Skúladóttir, lánastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
Birta samþykkti alls 424 lán til sjóðfélaga fyrstu sjö mánuði ársins en 487 sjóðfélagalán á öllu árinu 2017. Engum blöðum er því um að fletta að umtalsvert fleiri sjóðfélagar fái lán hjá Birtu í ár en í fyrra.
Á fyrra helmingi árs 2017 var fasteignamarkaðurinn yfirspenntur en Íris Anna merkir greinilega breytingu í ár: „Já, markaðurinn hefur róast frá því í fyrra. Þá var slegist um margar eignir og þær seldust fyrir ásett verð eða á yfirverði. Nú eru eignir lengur í sölu og mörg dæmi um að þær seljist undir ásettu verði .“
Tæplega tveir þriðju sjóðfélagalána hingað til í ár eru með (breytilegum) verðtryggðum vöxtum en þriðjungur með (breytilegum) óverðtryggðum vöxtum.
Lánum með föstum vöxtum fækkar umtalsvert, enda bera þau tæplega eins prósents hærri vexti en lán með breytilegum vöxtum.
Á árinu 2017 voru sjóðfélagalán Birtu alls 487, þar af 120 óverðtryggð.