Árið 2019 var venju fremur gott ávöxtunarár séreignaleiða Birtu lífeyrissjóðs, samkvæmt niðurstöðum bráðabirgðauppgjörs. Það skýrist einkum af kröftugri og nánast samfelldri hækkun á erlendum hlutabréfum og miklum hækkunum á innlendum skuldabréfum.
Verðbréfamarkaðir hafa í heildina tekið verið hagfelldir og flestir eignaflokkar skilað ágætri ávöxtun.
Raunávöxtun séreignaleiða 2019 var sem hér segir:
Áhugavert er að líta líka á mynd sem sýnir raunávöxtun séreignaleiða Birtu undanfarin þrjú ár (Tilgreind séreign þar ekki með því hún er tiltölulega nýlega komin til sögu).
Um séreignarleiðirnar, uppbyggingu þeirra og afkomu 2019 er annars það að segja að hlutfall erlendra verðbréfa í Blandaðri leið er hátt og þar er eingöngu um skráð hlutabréf að ræða. Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 26,6% í dollurum talið en þar sem krónan veiktist lítillega á árinu var ávöxtunin enn hærri mæld í íslenskum krónum eða 31,7%. Verð innlendra verðbréfa, bæði skuldabréfa og hlutabréfa, hækkaði einnig á árinu.
Skuldabréfaleið Birtu fjárfestir eingöngu í skuldabréfum, það er ríkisskuldabréfum, skuldabréfum sveitarfélaga, sértryggðum skuldabréfum og fasteignatryggðum skuldabréfum. Ávöxtunarkrafa á markaði lækkaði þó nokkuð á árinu sem leiddi til hækkandi verðs skráðra skuldabréfa og ágætrar ávöxtunar á árinu öllu (lækki ávöxtunarkrafa á markaði, hækkar verð skuldabréfa).
Eignir Tilgreindrar séreignar eru hlutabréf og skuldabréf ásamt innlánum í bönkum. Eignasafnið er heldur áhættuminna en safn Blandaðrar leiðar. Lýsir það sér í hærra hlutfalli skuldabréfa og innlána í Tilgreindri séreign en í Blandaðri leið.