30. janúar 2018
Hámarkslán 50 milljónir kr. samkvæmt nýjum lánareglum
self.header_image.title

Sjóðfélagalán Birtu lífeyrissjóðs verða að hámarki 50 milljónir króna samkvæmt nýjum lánareglum sem stjórn sjóðsins hefur samþykkt og taka gildi 1. febrúar 2018. Þetta ákvæði varðar hámarkslán til einstaklinga, hjóna eða sambúðaraðila.

Eftir sem áður veitir lífeyrissjóðurinn ekki lán sem svarar til meira en 65% af metnu markaðsvirði eignar.

Sjóðfélagar þurfa nú að uppfylla að minnsta kosti eitt tiltekinna skilyrða til að öðlast lánsrétt og standast jafnframt aðrar kröfur sem kveðið er á um í lánareglum. Þeir verða þannig að hafa

  • greitt til samtryggingardeildar Birtu lífeyrissjóðs undanfarna þrjá mánuði eða
  • greitt til séreignardeildar Birtu lífeyrissjóðs undanfarna sex mánuði eða
  • greitt iðgjöld til Birtu lífeyrissjóðs samfellt í tvö ár eða lengur.

Sjóðfélagar á eftirlaunum eiga lánsrétt, enda hafi þeir uppfyllt skilyrði til slíks þegar þeir hófu að fá greiddan lífeyri. Sama gildir um þá sem fá greiddan makalífeyri frá sjóðnum.

Nýjar lánareglur kveða á um að veðhlutfall sumarhúsa verði 35% af metnu markaðsvirði (var 50% í eldri reglum) og að 0,75% áhættuálag bætist ofan á vexti lána vegna sumarhúsa. Hámarkslán til sumarbústaða er 15 milljónir króna.

Birta lífeyrissjóður lánar ekki út á eignir sem reknar eru í atvinnuskyni.

Markmið stjórnar með nýjum lánareglum er annars vegar að stuðla að því að sjóðfélagar Birtu, sem réttindi eiga í sjóðnum, njóti góðra kjara sem í boði eru á sjóðfélagalánum en hins vegar að draga úr áhættu í lánastarfseminni.