01. apríl 2020
Heimild til útborgunar séreignarsparnaðar lögfest
self.header_image.title

Alþingi hefur lögfest heimild til að sækja um tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna samdráttarhrifa veirufaraldursins í efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Þetta er hliðstæð aðgerð og gripið var til í kjölfar bankahrunsins forðum.

Kveðið er á um að lagaheimildin gildi frá 1. apríl til ársloka 2020.

  • Unnt er að sækja rafrænt um heimild til útgreiðslu séreignar hjá Birtu hér.
  • Byrjað verður að greiða út séreignarsparnaðinn núna í apríl.
  • Hámarksúttekt er alls 12 milljónir króna á 15 mánuðum frá því umsókn berst sjóðnum eða allt að 800 þúsund krónur á mánuði.
  • Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef heildarfjárhæð er innan við 12 milljónir króna.
  • Hafa ber í huga að tekjuskattur er greiddur af séreignarsparnaði og upphæðin lækkar sem því nemur við útborgun.
  • Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt lagaheimildinni skerða ekki bætur almannatrygginga.

Greiðslusamkomulag, vextir á vangreidd iðgjöld

Alþingi samþykkti sömuleiðis heimild til handa lífeyrissjóðum að semja um vexti á vangreidd iðgjöld. Sú ráðstöfun tengist áhrifum veirufaraldursins.

Fyrirtæki/launagreiðendur og einyrkjar geta sótt um það til Birtu lífeyrissjóðs að dreifa greiðslu iðgjalda á eyðublöðum sem er að finna hér.

Frestun afborgana lána

Rétt er svo að ítreka fyrri skilaboð Birtu um að sjóðfélagar geti óskað eftir því að fresta því tímabundið að borga af lánum og sótt um það hér.

Breyta þarf skilmálum lána og Alþingi hefur stuðlað að einfaldari framkvæmd þessa með því að breyta tímabundið lögum um þinglýsingar.

Gert er ráð fyrir því að frestaðar afborganir sjóðfélagalána bætist við höfuðstól þeirra.

Þetta er enn eitt úrræðið sem tengist veirufaraldrinum og efnahagslegum áhrifum hans.

Þeir sem halda atvinnu og tekjum eru eindregið hvattir til þess að greiða áfram af lánum sínum.