28. janúar 2022
Hvernig getur fjármagn stuðlað markvisst að sjálfbærri framtíð?
self.header_image.title

Janúarráðstefna Festu 2022 fór fram fimmtudaginn 27. janúar og er stærsti árlegi sjálfbærni vettvangur á Íslandi. Á ráðstefnunni voru fremstu fræðimenn og leiðtogar á alþjóðasviðinu þegar kemur að sjálfbærni og loftslagsmálum.

Ráðstefnan bar yfirskriftina Á réttum forsendum og vísaði í að framtíð okkar veltur á því að við breytum hagfræðihugsun okkar. Markmiðið er að stuðla að efnahagslegri þróun innan þolmarka jarðar og jafnari dreifingu verðmæta milli fólks.

Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringar hjá Birtu lífeyrissjóði tók þátt í pallborðsumræðum þar sem til umfjöllunar var hvernig fjármagn gæti markvisst stuðlað að sjálfbærri framtíð. Hún var spurð út í nýlega viljayfirlýsingu íslenskra lífeyrissjóða um að auka fjárfestingu í grænum verkefnum og hvernig hún sæi fyrir sér að þetta þróaðist hjá lífeyrissjóðunum. Soffía benti á að markmið Birtu væri að auka hlutfall grænna fjárfestinga í eignasafni sjóðsins að meðaltali um 1% af hreinum eignum á ári þangað til 8% hlutfallið næðist fyrir lok árs 2030. Soffía tiltók jafnframt að þetta hlutfall yrði endurskoðað árlega samhliða fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Hvað þróunina varðar í grænum fjárfestingum lífeyrissjóðanna að þá nefndi Soffía grænan flokkunarstaðal sem verður innleiddur hérlendis sem hluti af EES-samningnum sem Ísland er aðili að. Reglugerðin á bak við þennan staðal gerir ákveðnar kröfur til fyrirtækja sem útgefenda verðbréfa að auka upplýsingagjöfina gagnvart sjálfbærni viðkomandi rekstrar með samræmdu flokkunarkerfi. Þetta á að auðvelda fjárfestum eins og lífeyrissjóðum að leggja heildstæðara mat á þessar upplýsingar á milli mismunandi útgefanda og jafnframt þróun á sjálfbærni á milli ára hjá þessum sömu útgefendum.

Hvað umboðsskyldu lífeyrissjóða varðar í þessum efnum þá minnti Soffía á að íslenskum lífeyrissjóðum bæri skv. lögum að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingarstefnu sinni. Þessi viðmið geta bæði verið matskennd og huglæg rétt eins og aðrar upplýsingar en þau þýða ekki að ætlunin sé að gefa afslátt af öðrum lykilþáttum er viðkoma fjárfestingaferlinu, eins og fjárhagsupplýsingum, heldur eru þau viðbót við það ferli, einn hlekkur í keðjunni. Áskorunin felst í því að allir hlekkirnir passi saman svo að keðjan slitni ekki.

Hagsmunirnir eiga að vera þeir sömu óháð því hvaðan þú ert að koma þrátt fyrir að einhverjir nálgist verkefnið með mismunandi hætti. Sjálfbærni er samvinna þar sem allir aðilar þurfa að vera þátttakendur, við berum öll ábyrgð.

Ráðstefna Festu

Fjárfestingastefnu Birtu má finna hér

Hér má nálgast upptökur af ráðstefnunni í heild sinni:

https://vimeo.com/event/1706987/embed/560f0848bd