20. júní 2022
Jafnlaunakerfi Birtu til mikillar fyrirmyndar
self.header_image.title

Birta lífeyrissjóður hefur lokið fyrsta vottunarhring jafnlaunakerfis

Birta lífeyrissjóður fór í úttekt á jafnlaunakerfi sjóðsins í byrjun júní, en samkvæmt lögum eiga öll fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn að uppfylla kröfur staðalsins ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi. Jafnlaunakerfið skal innihalda kerfisbundnar aðferðir sem eiga að koma í veg fyrir að kynbundinn munur sé á launum starfsmanna.

Jafnlaunakerfi Birtu hlaut vottun í júní 2019 og hefur sjóðurinn því unnið samkvæmt jafnlaunakerfi í þrjú ár.

Í úttektinni var farið yfir víðan völl varðandi rekstur jafnlaunakerfis og lykilþætti þess. Launagreining var framkvæmd og farið yfir virkni kerfisins. Þetta er í fyrsta sinn sem slík endurvottun er gerð á jafnlaunakerfi Birtu og er staðfest að jafnlaunakerfið uppfylli kröfur staðalsins. Jafnlaunagreiningin sýndi að engan órökstuddan launamun er að finna hjá sjóðnum og því staðfest að sjóðurinn uppfyllir kröfur staðalsins og greiðir sambærileg laun fyrir sambærileg störf.

Í úttektarskýrslunni er tekið fram að vilji og viðhorf stjórnenda jafnlaunakerfis til markmiða þess er til mikillar fyrirmyndar. Ljóst sé að mikill vilji er innan sjóðsins til að nýta jafnlaunakerfið til að ná árangri. Að loknum fyrsta vottunarhring er það mat úttektarstjóra að framkvæmd jafnlaunakerfis Birtu sé með miklum ágætum, sem og skjalfesting þess almennt.