02. febrúar 2018
Kraumandi hugmyndapottur um úrbætur í lífeyriskerfinu
self.header_image.title

 Hvernig má gera gott lífeyrissjóðakerfi landsmanna enn betra? Stórt er spurt en fólk úr forystusveit kerfisins sjálfs svaraði því til á málþingi í morgun að horft yrði líka markvisst til alþjóðlegra viðhorfa og hræringa við nauðsynlega stefnumörkun í lífeyriskerfinu og í samfélaginu. 

Landssamtök lífeyrissjóða stóðu að málþinginu þar sem tveir framsögumenn fluttu ítarleg erindi: Tómas N. Möller, lögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna, um viðmið og reglur Evrópusambandsins/EES-svæðisins, og Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, um viðhorf og reynslu Alþjóðabankans í íslenskum spegli.

Fjórir bættust í hópinn í pallborðsumræðum að erindum þeirra loknum: Ásdís Eva Hannesdóttir stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum; Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB – heildarsamtaka stéttarfélaga í almannaþjónustu; Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, stýrði málstofunni sem var vel sótt og umræðuefnið vakti greinilega áhuga gestanna.

Þátttakendur við pallborðið voru sammála um að láta ekki þráðinn niður falla heldur líta svo á að fundurinn í dag væri upphafið að frekari umræðum og skoðanaskiptum þar sem allar raddir ættu að heyrast sem málið varðaði. Rík þörf væri reyndar á að efla vitræna umræðu um lífeyrissjóði og lífeyrismál og láta hugmyndir krauma um hverng gera mætti gott kerfi enn betra.

Tómas Möller orðaði það svo í erindi sínu að í fyrirtækjum væri mun meira rætt um farsíma og tölvutengingar starfsfólks heima en um lífeyrismál!

LLfundur 1. febr. 2018_2