Mótframlag atvinnurekenda hefur nú þegar hækkað um 0,5% af launum, í samræmi við kjarasamninga milli SA og ASÍ, sem gerðir voru fyrir rúmu ári síðan, en þann 1. júlí n.k. hækkar iðgjaldið um 1,5% til viðbótar og verður þá 10,0% af launum.
Eigið framlag launafólks er óbreytt 4,0% og því verður heildarframlag 14,0% frá og með 1. júlí 2017.
Núverandi mótframlag atvinnurekenda rennur allt í samtryggingu en skv. kjarasamningunum var gert ráð fyrir að launafólk hefði val um að ráðstafa viðbótariðgjaldinu í heild eða hluta í svonefnda tilgreinda séreign. Með tilgreindri séreign er átt við séreignarsparnað sem erfist en gert er ráð fyrir að hann verði varðveittur hjá þeim sjóði sem móttekur skylduiðgjald skv. kjarasamningi.
Forsenda þess að hægt sé að veita launafólki val um ráðstöfun viðbótariðgjaldsins, þ.e. 2,0% m.v. 1. júlí 2017, er að gerðar séu lágmarksbreytingar á lögum. Málið bíður núna afgreiðslu hjá fjármálaráðuneytinu en ráðherra hefur ákveðið að skipa vinnuhóp til að rýna hvernig komist verði af með lágmarksbreytingar á lögum svo hægt verði að innleiða efni kjarasamningsins. Komi ekki til breytinga á lögum liggur því fyrir samkvæmt efni kjarasamningsins að viðbótariðgjaldið rennur í samtryggingu.
Birta lífeyrissjóður mun fylgjast grannt með stöðu mála og veita frekari upplýsingar á heimasíðu sjóðsins þegar meira liggur fyrir. Komi til þess að lögum verði breytt er sú ákvörðun ekki afturvirk, þ.e. launafólk mun þá hafa val um ráðstöfun viðbótariðgjaldsins frá og með þeim tíma þegar lögin taka gildi.