Frá og með 1. júlí 2018 hækkar framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð úr 10,0% í 11,5% í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA. Þá geta sjóðfélagar ráðstafað allt að 3,5% af lífeyrisiðgjöldum sínum í tilgreinda séreign. Margir sjóðfélagar hafa nú þegar tilkynnt sjóðnum að þeir vilji ráðstafa 3,5% af sínum iðgjöldum í tilgreinda séreign eins fljótt og unnt er og mun ráðstöfun þeirra sjálfkrafa hækka úr 2% í 3,5%. Aðrir sem hafa samning um lægri ráðstöfun eða eru samningslausir þurfa að senda sjóðnum nýja tilkynningu ef þeir vilja breyta sinni ráðstöfun.
Tilgreind séreign er sérstök tegund séreignarsparnaðar sem er eign þess sem leggur fyrir og erfist að fullu. Sé ráðstafað í tilgreinda séreign verða iðgjöld sem renna í samtryggingu lægri en ella og því verður áunnin réttur til ævilangs lífeyris lægri sem því nemur. Sama gildir um rétt til áfallatrygginga s.s. örorku-, maka- og barnalífeyris. Birta lífeyrissjóður býður nú upp á eina sparnaðarleið fyrir tilgreinda séreign. Tilgreind séreign er ólík hefðbundinni séreign að því leyti að hægt er að byrja að taka út tilgreinda séreign við 62 ára aldur en ekki 60 ára eins og við á um séreign. Þá verður ekki unnt að nota tilgreinda séreign til að safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa eða til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán.
Við hvetjum þá sem eru að íhuga að greiða í tilgreinda séreign til að skoða lífeyrisreiknivél Birtu sem gefur góða mynd af því hvaða áhrif það hefur á lífeyrisréttindi og eftirlaun að greiða í tilgreinda séreign.
Þegar að þú hefur tekið ákvörðun um að greiða í tilgreinda séreign þá getur þú sent okkur tilkynningu með rafrænum skilríkjum á Mín Birta um hversu hátt hlutfall af þínum lífeyrisiðgjöldum á að renna í tilgreinda séreign. Við mælum eindregið með því að sækja um með rafrænum skilríkjum en hafir þú ekki rafræn skilríki eða ef þú átt ekki kost á því að skila rafrænni umsókn þá er eyðublað aðgengilegt hér að neðan. Eyðublaðinu skal skila útfylltu og undirrituðu á skrifstofu Birtu lífeyrissjóðs. Sundagörðum 2, 104 Reykjavík.
Athugið að framvísa skal skilríkjum þegar tilkynningu um ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign er skilað á skrifstofu Birtu.