01. júní 2021
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar yfir 5% undanfarin 5 og 10 ár
self.header_image.title

Eignir Birtu lífeyrissjóðs ávöxtuðu sig betur á árinu 2020 en stjórn og stjórnendur sjóðsins leyfðu sér að vona þegar heimsfaraldur veirunnar brast á undir lok fyrsta fjórðungs ársins. Niðurstaðan varð hrein raunávöxtun upp á 8,75% en meiru máli skiptir að afkoman til lengri tíma litið er líka góð. Hrönn Jónsdóttir formaður fráfarandi stjórnar Birtu, vék að því á ársfundi lífeyrissjóðsins 19. maí 2021:

„Við erum reglulega minnt á þá staðreynd að ávöxtun eigna er sveiflukennd frá ári til árs en það er afkoma til lengri tíma sem skiptir mestu máli. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar Birtu og forvera hans síðastliðin fimm og tíu ár er yfir 5% sem er vel yfir 3,5% langtímaviðmiðum. Eins mikið og við fögnum því erum við meðvituð um þær framtíðaráskoranir sem blasa við okkur öllum sem gæti talist næsti áfangi COVID-19.
Tryggingafræðileg afkoma Birtu á síðasta ári ber þess nokkur merki hvað kann að vera í vændum. Lágt vaxtastig birtist okkur sem neikvæður mismunur á bókfærðu verði skuldabréfa og núvirði þeirra í tryggingarfræðilegu mati. Mismunurinn var neikvæður um 19 milljarða á síðasta ári og þrátt fyrir mjög góða raunávöxtun eigna batnar tryggingafræðilega staðan aðeins um 1,4% frá fyrra ári.“

Ársfundurinn á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu bar þess merki að áhrifa veirufaraldursins gætir ennþá verulega í samfélaginu en að þokunni er samt blessunarlega að létta smátt og smátt. Í fundarsalnum voru nokkrir tugir sjóðfélaga og gesta en aðrir voru fjarverandi í eigin persónu en tóku þátt í umræðum og atkvæðagreiðslum með fjarfundarbúnaði.

Sumir á fundarstað voru þarna á mannamóti í fyrsta sinn svo mánuðum skiptir og fögnuðu innilega þeirri tilbreytingu að geta nú loksins átt samskipti við aðra milliliðalaust – án fjarskiptasambands og tölvuskjás!

Atvinnuleysistryggingasjóður stærsti launagreiðandinn 2020

Eignir Birtu lífeyrissjóðs eru nú um 500 milljarðar króna, voru 491 milljarður króna í lok árs 2020. Sjóðurinn tók við 18,7 milljarða króna iðgjöldum til ávöxtunar og greiddi 17,7 milljarða í lífeyri á árinu 2020. Virkir sjóðfélagar voru liðlega 20 þúsund við áramót.

Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri sagði á ársfundinum að Birta kappkostaði að veita sjóðfélögum faglega, ábyrga og heiðarlega þjónustu.

Framkvæmdastjórinn benti á að mikilvægur ánægjumælikvarði væri sú staðreynd að virkum sjóðfélögum hefði fjölgaði lítillega á COVID-árinu 2020:

„Þetta staðfestir alla vega að þrátt fyrir að margir greiði til Birtu á grundvelli kjarasamninga er ekki að fækka í sjóðnum þrátt fyrir 10% atvinnuleysi og vert er að nefna að stærsti launagreiðandinn hjá okkur 2020 var Atvinnuleysistryggingasjóður. Það er vel að þeir sem misstu vinnuna fengu áfram laun og greiddu til sjóðsins.
Þjónustan sem við veittum var skilvirk vegna þess að við höfðum tekið í gagnið tæknilausnir í starfseminni sem nýttust sérstaklega vel í fyrra. Gríðarlega margir afgreiddu sig til að mynda nánast sjálfir á Netinu.“

Góð ávöxtun bætir tryggingafræðilega stöðu

Tryggingafræðileg staða Birtu lífeyrissjóð er góð, það er að segja að eignir sjóðsins og verðmæti iðgjalda annars vegar og skuldbindingar til greiðslu lífeyris hins vegar eru nánast í jafnvægi. Heildarstaðan batnaði í fyrra, hún var -1,8% í lok árs 2019 en -0,41% í lok árs 2020.

„Niðurstaðan er góð fyrir sjóðinn sem skýrist fyrst og fremst af góðri ávöxtun,“ sagði Björn Bennewitz, samstarfsmaður Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings Birtu, þegar hann fór yfir tryggingafræðilega stöðu sjóðsins á ársfundinum í fjarveru Bjarna.

Hrein eign Birtu til greiðslu lífeyris nam um 472 milljörðum króna í lok árs 2020 og hafði aukist um nær 14% frá fyrra ári.

  • Margvíslegar, áhugaverðar og aðgengilegar upplýsingar um starfsemi Birtu er að finna í ársskýrslu og ársreikningum finna hér á vefnum.