Þann 1. apríl 2017, tóku gildi lög nr. 118/2017, um fasteignalán til neytenda. Lögin eru sérlög um fasteignalán til neytenda, en öll lífeyrissjóðslán heyra undir nýju lögin. Lögin leysa að þessu leyti af hólmi lög nr. 33/2013 um neytendalán sem áfram gilda um aðrar tegundir lánasamninga.
Meðal helstu breytinga með nýju lögunum er að sú meginregla er fest í sessi að lánshæfis- og greiðslumat verður að gera vegna allra fasteignalána með örfáum undantekningum og er þar með horfið frá þeirri reglu að lánveitingar undir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum séu undanþegin greiðslumati. Tilgangurinn með því er að stuðla að ábyrgari lánveitingum og upplýstari ákvörðunum.
Meðal annarra breytinga má nefna skyldu lánveitenda til að útskýra þá lánasamninga sem neytanda stendur til boða þannig að hann geti tekið afstöðu til þess hvort þeir séu sniðnir að þörfum hans og fjárhagsstöðu. Lögin í heild sinni eru aðgengileg á vef Alþingis.
Á vef Neytendastofu er að finna nánari upplýsingar um nýju lögin sem hægt er að skoða með því að smella hér. Til að skoða nýju lögin eins og þau birtast á vef Alþingis er hægt að smella hér.