16. desember 2019
Nýr Birtuvefur kynntur til sögu
self.header_image.title

Glöggir sjóðfélagar og aðrir gestir á birta.is komast ekki hjá því að taka eftir því að Birtuvefurinn hefur tekið verulegum skipulags- og útlitsbreytingum. Markmiðið var að gera hann enn aðgengilegri vettvang fyrir fólk til að afla upplýsinga um lífeyrissjóðinn og starfsemi hans en skapa sjóðnum sjálfum um leið enn skilvirkara tól til að miðla markvissum og skýrum fróðleik og fréttum til sjóðfélaga og annarra.

Við lítum svo á að vefurinn sé samskiptatorg. Breytingarnar eru í anda markaðsrannsókna sem sýna að gestir vilja sjá árangur strax af heimsókn sinni! Þeir skyggnast eftir vegvísum á forsíðunni sem leiða skuli þá skjótt og örugglega að því sem þeir leita eftir. Nýi vefurinn er hannaður í anda slíkrar hugmyndafræði.

Eva Jóhannesdóttir markaðsfulltrúi var verkefnisstjóri breytinganna og kynnti þær á starfsmannafundi fyrir helgina (sjá mynd). Hún segir að þótt vefurinn sé „kominn í loftið“ verði unnið í honum áfram næstu daga og vikur eftir því sem þurfa þykir.

Ábendingar frá notendum eru vel þegnar og hægt að koma þeim á framfæri með tölvupósti á póstfangið birta@birta.is.