Meirihluti hluthafa í HB Granda hefur falið Kviku banka að annast óháð mat á kaupum félagsins á Ögurvík ehf. af Útgerðarfélagi Reykjavíkur (áður Brimi). Niðurstaða Kviku verður kynnt hluthöfum núna fyrir mánaðarmót og verður í framhaldinu lögð fyrir hluthafafund 2. nóvember.
Birta lífeyrissjóður á 4% hlut í HB Granda og var í hópi eigenda 60% hlutafjár í félaginu sem studdi þá málsmeðferð um nýtt mat á kaupum á Ögurvík á hluthafafundi sl. þriðjudag, 16. október. Birta lífeyrissjóður studdi tillöguna og fagnar því að hún skyldi fá brautargengi með svo ríflegum meirihlutastuðningi hluthafa.
Birta ítrekar þá afstöðu sína að eðlilegt sé að kalla eftir óháðu mati á viðskiptum tengdra aðila (aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, Guðmundur Kristjánsson, er líka hluthafi í HB Granda og jafnframt forstjóri þess félags).
Þegar tillaga Gildis lífeyrissjóðs um óháð mat kom fram brást stjórn Útgerðarfélags Reykjavíkur við með því að lýsa yfir vilja til að hætta við viðskiptin, enda væri ekki skynsamlegt að „knýja í gegn“ sölu á Ögurvík gegn vilja eins af stærri hluthöfum HB Granda (þ.e. Gildis).
Fjárfestingarráð Birtu lífeyrissjóðs fellst hvorki á að óháð mat á þeim viðskiptum sem hér um ræðir hafi eitthvað með „minnihlutavernd“ í HB Granda að gera né að matið sé til þess fallið að stuðla að sundurlyndi í hópi hluthafa.
Í yfirlýsingu fjárfestingarráðsins frá 10. október sl. segir að kaup HB Granda á Ögurvík séu „áhugaverður fjárfestingarkostur“ en sjálfsagt sé og eðlilegt að „kalla eftir óháðu mati á fyrirhugum viðskiptum tengdra aðila“. Það hljóti einfaldlega að koma í ljós á hluthafafundi „hvort minnihlutavernd komi hér við sögu og hvaða stuðning tillaga um óháð mat hefði.“
Þegar á reyndi kom í ljós að mikill meirihluti hluthafa studdi tillögu um óháð mat. Því fagnar Birta lífeyrissjóður.