Óðum taka á sig mynd mögulegar ráðstafanir Birtu lífeyrissjóðs til aðstoðar sjóðfélögum og fyrirtækjum vegna atvinnu- og efnahagsástands í veirufaraldrinum. Útfærsla sumra ráðstafana bíður þess samt að Alþingi lögfesti frumvarp að tilheyrandi lagabreytingum.
Sjóðfélagar, sem telja sig hafa þörf fyrir að fresta afborgunum lána, þurfa að sækja um það til sjóðsins á eyðublöðum sem hægt er að nálgast hér og fyllt eru út rafrænt.
Eyðublöðunum fylgja upplýsingar um fylgiskjöl og gögn sem eiga að berast með umsókn.
Í úrræðinu felst aðstoð við sjóðfélaga vegna atvinnumissis eða tekjubrests sem tengist veirufaraldrinum. Frestaðar greiðslur bætast við höfuðstól lána.
Þeir sem halda vinnu og tekjum að miklu eða öllu leyti eru hvattir til þess að greiða áfram af lánum sínum hér eftir sem hingað til, enda er frestun greiðslna hugsuð sem neyðarráðstöfun til stuðnings þeim sem eru hjálpar þurfi.
Fyrir Alþingi liggur tillaga um að breyta þinglýsingarlögum á þann veg að tímabundið verði afnumin sú kvöð að leita samþykkis næstu kröfuhafa í röðinni til skilmálabreytinga lána. Ennfremur að ekki þurfi að þinglýsa viðkomandi skilmálabreytingu.
Gangi þetta eftir með lagabreytingu einfaldast verulega afgreiðsla umsókna um frestun afborgana.
Þá geta fyrirtæki/launagreiðendur og einyrkjar hjá Birtu lífeyrissjóði sótt um að dreifa greiðslu iðgjalda. Þetta er liður í ráðstöfunum vegna veirufaraldurs.
Umsóknareyðublað er hér og unnt að fylla það út og senda sjóðnum.
Ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi tillögu um að heimila útborgun séreignarsparnaðar til að sjóðfélagar geti nálgast þessa fjármuni sína ef þeir telja sig þurfa á því að halda. Lagt er til að hægt verði að taka út allt að 12 milljónir króna af séreignarsparnaðarreikningum eða allt að 800 þúsund krónur á mánuði í 15 mánuði.
Vert er að hafa í huga að greiddur er tekjuskattur af séreignarsparnaði við útborgun.
Nánari útfærsla bíður niðurstöðu Alþingis en ríkisstjórnin lýsti því yfir að stefnt væri að því að hefja greiðslur úr séreignarsjóðum í aprílmánuði næstkomandi. Umsóknarfrestur rennur út í lok árs 2020.
Nánari upplýsingar um hvenær og hvernig hægt verður að sækja um útgreiðslur úr séreignardeild Birtu, verða birtar hér á heimasíðu sjóðsins um leið og þær liggja fyrir.