06. maí 2020
Rekstur og fjárfestingar - verðmæti eigna svipað og í ársbyrjun
self.header_image.title

Birta lífeyrissjóður leggur mikið upp úr því að veita skýrar og gagnsæjar upplýsingar til sjóðfélaga sinna. Nú á tímum Covid-19 er nauðsynlegt að halda sjóðfélögum upplýstum með skammtíma- og langtímahagsmuni þeirra að leiðarljósi.

Birta lífeyrissjóður hefur átt því láni að fagna að starfsfólk hefur verið heilt heilsu undanfarnar vikur og hefur unnið bæði heima og á skrifstofu sjóðsins í Sundagörðum. Fyllstu varúðar hefur verið gætt á allan hátt og reglum yfirvalda fylgt í hvívetna. Veirufaraldurinn hefur haft þau áhrif á daglegan rekstur sjóðsins að álag hefur aukist vegna þeirra greiðsluerfiðleikaúrræða sem sjóðurinn hefur boðið upp á síðastliðnar vikur, um er að ræða úrræði fyrir þá sem lenda í greiðsluvanda vegna faraldursins og þurfa sérstök úrræði. Til að geta sett þennan hóp í forgang og til að geta leyst úr þeim brýnu erindum sem berast fljótt og vel tók stjórn sjóðsins þá ákvörðun að loka fyrir umsóknir um lán vegna endurfjármögnunar. Um tímabundið úrræði er að ræða og opnað verður aftur fyrir þær umsóknir þegar um hægist.

Sjóðfélagar og aðrir sem hafa átt erindi við sjóðinn á undanförnum vikum hafa sýnt þeim úrræðum sem gripið hefur verið til mikinn skilning á þessum sérstökum tímum og er starfsfólk afar þakklátt fyrir það.

Fjárfestingar – verðmæti eigna svipað og í ársbyrjun.

Yfirstandandi faraldur hefur valdið miklum sveiflum á fjármálamörkuðum og óvissa er meiri en verið hefur um langt skeið.

Mestar hafa sveiflurnar verið á hlutabréfamörkuðum sem kemur ekki á óvart í kjölfar skyndilegra breytinga í rekstrarumhverfi margra fyrirtækja. Eignasafn Birtu endurspeglar fjárfestingarstefnu sem byggir á fjárfestingu í mismunandi eignaflokkum og dreifingu á margar og ólíkar eignir innan þeirra eignaflokka. Stór hluti eignasafnsins, eða tæplega 60%, eru innlend skuldabréf.

Um ræðir ríkistryggð skuldabréf, skuldabréf sveitarfélaga og opinberra aðila, sértryggð skuldabréf banka og skuldabréf með veði í fasteignum, t.d. sjóðfélagalán. Nánast öll skuldabréf í eigu Birtu eru verðtryggð eða tæplega 90%.

Vextir hafa farið lækkandi í langan tíma og atburðir síðastliðinna vikna og aðgerðir Seðlabanka benda til að vextir verði almennt áfram lágir og geti eftir atvikum lækkað enn frekar.

Þó að ávöxtun skuldabréfasafns Birtu sé enn viðunandi er viðbúið að ávöxtun innlendra skuldabréfa muni eitthvað lækka á næstu árum þar sem fjárfesta þarf nýju fé á lægri vöxtum en áður. Flest skuldabréf í eigu sjóðsins eru þó til langs tíma og að meginstofni bókfærð á upphaflegri kaupkröfu, þ.e. miðað við vexti sem eru hærri en nú eru.

Snögg niðursveifla á hlutabréfamörkuðum hafði eins og nærri má geta áhrif á verðmæti eigna Birtu í erlendum og innlendum hlutabréfum. Sveiflur á hlutabréfaverði eru engin nýlunda en að þessu sinni var lækkunin svo hröð að hún var án fordæma. Heimsvísitala hlutabréfa lækkaði þannig um rúm 30% á rúmum mánuði og sýnir ágætlega hversu hratt aðstæður í hinu alþjóðlega hagkerfi og rekstrarumhverfi fyrirtækja breyttust.

Þetta leiddi til þess að ávöxtun Birtu frá áramótum varð aðeins neikvæð þegar verst lét. Lækkunin hefur að hluta gengið tilbaka og er verðmæti eigna sjóðsins nú svipað og það var í upphafi árs.

Þá hefur krónan veikst á sama tíma og hlutabréfaverð hefur farið lækkandi sem mildar áhrifin af lækkun erlendra eigna sjóðsins í krónum talið.

Skynsamlegt er að gera ráð fyrir tíðum sveiflum á hlutabréfaverði á næstu mánuðum á meðan jafnmikil óvissa ríkir í efnahagsumhverfi í heiminum og raun ber vitni.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða Birtu sýnir samanburð á verðmæti eigna sjóðsins og lífeyrisskuldbindinga og þar með framtíðargetu hans til greiðslu lífeyris. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Birtu var halli á þessari stöðu um -1,8% og hefur sjóðurinn því nokkuð borð fyrir báru til að mæta mögulegum áföllum. Samkvæmt samþykktum og lögum má þessi halli vera -10%. Enn sem komið er hafa afleiðingar veirufaraldursins ekki haft slík áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins, að sjóðfélagar þurfi að hafa áhyggjur af skerðingu réttinda og greiðslu lífeyris.