21. janúar 2019
Sjálfvirkt greiðslumat og rafrænt undirritunarkerfi
self.header_image.title

Birta lífeyrissjóður hefur á undanförnum mánuðum átt í samstarfi við Creditinfo um sjálfvirknivæðingu greiðslumatslausnar Creditinfo. Birta hefur um nokkurra ára skeið nýtt greiðslumatskerfi Creditinfo við góða raun. Birta vildi þó ganga lengra en þar er gert og svara kalli sjóðfélaga um aukna sjálfvirkni og bæta á sama tíma þjónustu við sjóðfélaga með því að bjóða upp á sjálfvirk greiðslumöt sem spara umsækjendum bæði mikla fyrirhöfn í formi gagnaöflunar og eins mikinn tíma. Með þessu móti gefst sjóðsfélögum kostur á að sjá bráðabirgða niðurstöðu greiðslumats síns á örfáum sekúndum að heiman, þegar þeim hentar, með mjög einföldum hætti. Þannig geta sjóðfélagar í kjölfarið valið sér lán í samræmi við greiðslugetu sína.

Nú hefur sjálfvirkt greiðslumat verið tekið í notkun hjá Birtu lífeyrissjóði eftir prófanir og er reynsla sjóðfélaga mjög góð af notkun sjálfvirka greiðslumatsins. Það er áfram í þróun hjá Creditinfo í samstarfi við Birtu en enn sem komið er er Birta fyrsti lífeyrissjóðurinn til þess að bjóða sjóðfélögum sínum upp á þessa sjálfvirku lausn.

Rafrænar umsóknir

Til viðbótar hefur Birta tekið í notkun rafrænt undirritunarkerfi sem gerir lánsumsækjendum kleift að skoða og kynna sér lögbundin kynningargögn vegna þess fasteignaveðláns sem tekið er og eins niðurstöðu greiðslumats síns rafrænt og undirritað sjölin á netinu að heiman í stað þess að eyða í það löngum tíma á skrifstofu sjóðsins á dagvinnutíma. Þessi lausn hefur einnig reynst afar vel og eru þessar nýjungar báðar í takt við markmið Birtu um að minnka kolefnisspor starfseminnar og lágmarka pappírsnotkun.