21. mars 2018
Skilar ekki árangri að „hvetja kurteislega“ til hóflegra starfskjara
self.header_image.title
Frummælendur og fundarstjórinn: Haukur Arnþórsson, Ólafur Sigurðsson og Rúnar Bachmann.

 „Við verðum að endurskoða aðferðir okkar. Þessi kurteisi, að standa upp og hvetja til hóflegrar árangurstengingar launa og gegnsærra starfskjara, skilar ekki þeim árangri sem til er ætlast,“ sagði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, á fundi fulltrúaráðs launamanna Birtu í gærkvöld.

Fundurinn bar yfirskriftina Lífeyriskerfið – hvert stefnir? Ólafur var annar tveggja framsögumanna, hinn var Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur. Samkoman var fjölsótt og framsögumenn viðruðu mörg álitamál og spurningar sem kölluðu á viðbrögð og frekari umræður.

Starfskjör forstjóra og framkvæmdastjórnar N1 voru greinilega ofarlega í huga margra fundarmanna sem spurðu um afstöðu Birtu lífeyrissjóðs, eiganda 7,5% hlutar í N1, og hvöttu til „harðra viðbragða“ af hálfu sjóðsins.

Ólafur Sigurðsson upplýsti að hann hefði tekið til máls á aðalfundi N1 núna á mánudagskvöldið og komið því á framfæri að starfskjör æðstu stjórnenda væru óhófleg, óboðleg, í engu samræmi við launakjör almennt í landinu og á skjön við eigendastefnu Birtu lífeyrissjóðs. Þjóðfélagsumræðan hefði skaðað ímynd N1 og því ætti stjórn félagsins að endurskoða starfskjarastefnuna og leggja hana breytta fyrir hluthafafund innan þriggja mánaða.

Samhljóða athugasemdir á fjórum aðalfundum N1

Ólafur kvaðst að gefnu tilefni hafa kallað í gær eftir fundargerðum aðalfunda N1 undanfarin ár. Þar væri skjalfest að hann hefði sem þáverandi framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs tekið til máls 2012, 2016 og 2017 og hvatt til hófsemi varðandi laun og árangurstengdar greiðslur.

„Alþjóðabankinn hvetur lífeyrissjóði til að hafa jákvæð áhrif á fjármálamarkaði, stuðla að friði á vinnumarkaði og réttlátri skiptingu launa í fyrirtækjum. Í þeim anda eru afskipti okkar af fyrirtækjum sem við eigum hluti í en við verðum líklega í ljósi reynslunnar að brýna raustina og skerpa hugsanlega áherslur í eigendastefnu okkar til að mark sé tekið á því sem segjum.“

Ólafur kallar eftir því að leitað verði eftir samstarfi við Alþjóðabankann um úrbætur á íslenska lífeyriskerfinu, til að „gera gott kerfi enn betra“. Hvert skuli stefnt og hvernig eigi að ná markmiðum um nægjanlegan lífeyri, sjálfbærni, tiltrú og  áreiðanleika kerfisins?

Þorbjörn Guðmundsson, varaformaður Birtu lífeyrissjóðs og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, tók undir með Ólafi að lykilspurningum væri ósvarað en þeim yrði auðvitað að svara:

„Til hvers ætlumst við  af lífeyrissjóðum og almannatryggingakerfinu? Hvað viljum við að lífeyrissjóðir tryggi okkur? 70% af lokalaunum? 75% af lokalaunum? Hvað þýðir það í raun þegar við tölum um að tryggja „góðan lífeyri“ á efri árum?“

Ríkissjóður myndi hagnast á því að afnema skerðingar á launatekjur!

Haukur Arnþórsson fjallaði um niðurstöður rannsóknar sinnar á kjörum aldraðra, verkefni sem hann vann að á vegum Félags eldri borgara í Reykjavík. Hann hvatti til þess að launaskerðingar á launatekjur yrðu afnumdar og sagði raunhæft að ætla að ríkið myndi hagnast á því frekar en hitt þegar upp væri staðið vegna skatttekna af auknum launagreiðslum og meiri veltu í hagkerfinu!

Þá kvaðst Haukur gjarnan vilja sjá að verkalýðshreyfingin berðist fyrir fleiri þrepum í tekjuskattskerfinu:

„Það orkar mjög tvímælis að nota Tryggingastofnunar til kjarajöfnunar. Í flestum ríkjum er tekjuskattskerfið notað til jöfnunar en ekki almannatryggingar. Með því að einfalda tekjuskattskerfið, líkt og gert er á Íslandi, er um leið stuðlað að aukinni skerðingu í öðrum kerfum, til dæmis í tryggingakerfinu, sjúkratryggingum og námslánakerfinu. Ég vildi gjarnan sjá íslenska verkalýðshreyfingu berjast fyrir fleiri tekjuskattsþrepum í staðinn.“ 

 

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur í ræðustóli.

Haukur, Ólafur, Rúnar Haukur Arnþórsson, Ólafur Sigurðsson og Rúnar Bachmann fundarstjóri. Haukur í ræðustóli á efri myndinni.