19. apríl 2017
Starfsemi Birtu lífeyrissjóðs 2016
self.header_image.title

Helstu niðurstöður ársuppgjörs hafa verið birtar. Hrein eign sjóðsins í árslok var 320 milljarðar króna og jókst um tæplega 6,5 milljarða á milli ára. Ávöxtun sjóðsins í heild nam 0,6% sem jafngildir -1,5% raunávöxtun. Hrein eign séreignardeildar var 12,7 milljarðar króna í árslok 2016 og jókst um tæplega 584 milljónir króna frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild voru 556 milljónir króna á árinu. Raunávöxtun séreignar á árinu 2016 var frá -4,2% til 5,8%. Hæst var ávöxtun þeirra sparnaðarleiða sem innihéldu hátt hlutfall innlendra skuldabréfa en lægst hjá þeim leiðum sem innihéldu hátt hlutfall erlendra verðbréfa. 


Tryggingafræðileg staða

Við sameiningu sjóðanna þurfti að gera breytingar á réttindum sjóðfélaga til að eignir og skuldbindingar Birtu lífeyrissjóðs yrðu jafnar. Réttindi sjóðfélaga í Stöfum voru aukin um 1,8% en réttindi sjóðfélaga í Sameinaða lækkuðu um 1,1% til þess að tryggingafræðileg staða Birtu yrði 0,0% í upphafi árs 2016. Í lok árs 2016 var tryggingafræðileg staða -4,1%. Stjórn sjóðsins hyggst ekki leggja fram tillögu til réttindabreytinga á komandi ársfundi. 


Ársfundur 2017

Ársfundur Birtu lífeyrissjóðs verður haldinn þriðjudaginn 9. maí nk. kl. 17.00 í Silfurbergi í Hörpu, Reykjavík. Dagskrá fundarins verður auglýst síðar.