26. apríl 2018
Stjórnarmenn launamanna í Birtu tilnefndir á líflegum kjörfundi
self.header_image.title

Jakob Tryggvason og Hrönn Jónsdóttir hlutu flest atkvæði í tilnefningu fulltrúa launamanna í stjórn Birtu lífeyrissjóði á kjörfundi fulltrúaráðs launamanna sjóðsins í gærkvöld. Ný stjórn Birtu verður kjörin á aðalfundi sjóðsins í Hörpu miðvikudaginn 2. maí.

Alls hafa 90 fulltrúar launamanna í stéttarfélögum og fyrirtækjum í baklandi Birtu atkvæðisrétt í fulltrúaráðinu. Í kjörinu skiluðu sér 79 atkvæði.

Vel var því mætt, frambjóðendur kynntu sig í ræðustóli áður en gengið var til atkvæða og skera varð úr því með nýrri atkvæðagreiðslu hvor tveggja kvenna úr röðum frambjóðenda tæki sæti í aðalstjórn þegar í ljós kom að þær höfðu hlotið jafnmörg atkvæði.

Þetta var því kjörfundur með flestu því sem ekta samkomur af þeim toga einkennir: kosningaræðum,  spennuþrunginni atkvæðagreiðslu og dramatík i niðurstöðum talningar!

Jakob Tryggvason hlaut 33 atkvæði og Hrönn Jónsdóttir 21 atkvæði sem tilnefndir stjórnarmenn í Birtu til tveggja ára. Gylfi Ingvason hlaut 7 atkvæði og er tilnefndur til eins árs.

Jakob er formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði og sviðsstjóri miðlunar- og tæknigreina í Rafiðnaðarskólanum. Hann situr í stjórn Birtu.

Hrönn er margmiðlunarhönnuður og starfar hjá Marel. Hún situr í varastjórn Birtu.

Gylfi hefur verið á eftirlaunum frá 2014 og var um árabil aðaltrúnaðarmaður starfsmanna ÍSAL. Hann situr í stjórn Birtu.

Guðríður Birna Ragnarsdóttir, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri hjá Samskipum, og Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir, framreiðslumeistari og forstöðumaður veitingasviðs Center Hotels, hlutu 6 atkvæði hvor í tilnefningu stjórnarmanns Birtu til eins árs. Greidd voru atkvæði á nýjan leik þar sem þær voru einar í kjöri og þá hafði Guðrún Elfa betur, hlaut 59 atkvæði en Guðríður Birna 20 atkvæði. Guðrún Elfa er í varastjórn Birtu. 

Í varastjórn Birtu lífeyrissjóðs var Bára Halldórsdóttir tilnefnd með 23 atkvæðum og Einar Hafsteinsson tilnefndur með 19 atkvæðum.

Bára er rafeindavirki með próf í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, starfsmaður á Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og í miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins. Hún var um tíma varamaður stjórnar Stafa lífeyrissjóðs.

Einar er rafvirki hjá Eimskip, hefur starfað í forystu Rafiðnaðarsambandsins og er í varastjórn Birtu.

Tilnefnd í aðal- og varastjórn Birtu. Frá vinstri: Einar Hafsteinsson, Bára Halldórsdóttir, Gylfi Ingvarsson, Hrönn Jónsdóttir, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir og Jakob Tryggvason.

Fjölmenni á kjörfundi fulltrúaráðs launamanna í Birtu lífeyrissjóði í gærkvöld!

Fulltrúaráðsfundur launamanna 25. apríl 2018

Níels Sigurður Olgeirsson, formaður kjörstjórnar, og Íris Anna Skúladóttir, ritari fundarins og lánastjóri Birtu lífeyrissjóðs. 

Fulltrúaráðsfundur launamanna 25. apríl 2018

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, tók að sér hlutverk atkvæðasafnara á kjörfundinum. Kjörkassi var mixaður á staðnum og stundinni úr umbúðum utan af Kristal frá Ölgerðinni og gegndi hlutverki sínu fullkomlega.

Fulltrúaráðsfundur launamanna 25. apríl 2018

Kjörnefnd telur atkvæði í varastjórnarkjöri í bakherbergi Rafiðnaðarskólans: Níels Sigurður Olgeirsson vinstra megin borðs en til hægri Grétar Þorsteinsson fjær og Skúli Sigurðsson.