Jakob Tryggvason og Hrönn Jónsdóttir hlutu flest atkvæði í tilnefningu fulltrúa launamanna í stjórn Birtu lífeyrissjóði á kjörfundi fulltrúaráðs launamanna sjóðsins í gærkvöld. Ný stjórn Birtu verður kjörin á aðalfundi sjóðsins í Hörpu miðvikudaginn 2. maí.
Alls hafa 90 fulltrúar launamanna í stéttarfélögum og fyrirtækjum í baklandi Birtu atkvæðisrétt í fulltrúaráðinu. Í kjörinu skiluðu sér 79 atkvæði.
Vel var því mætt, frambjóðendur kynntu sig í ræðustóli áður en gengið var til atkvæða og skera varð úr því með nýrri atkvæðagreiðslu hvor tveggja kvenna úr röðum frambjóðenda tæki sæti í aðalstjórn þegar í ljós kom að þær höfðu hlotið jafnmörg atkvæði.
Þetta var því kjörfundur með flestu því sem ekta samkomur af þeim toga einkennir: kosningaræðum, spennuþrunginni atkvæðagreiðslu og dramatík i niðurstöðum talningar!
Jakob Tryggvason hlaut 33 atkvæði og Hrönn Jónsdóttir 21 atkvæði sem tilnefndir stjórnarmenn í Birtu til tveggja ára. Gylfi Ingvason hlaut 7 atkvæði og er tilnefndur til eins árs.
Jakob er formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði og sviðsstjóri miðlunar- og tæknigreina í Rafiðnaðarskólanum. Hann situr í stjórn Birtu.
Hrönn er margmiðlunarhönnuður og starfar hjá Marel. Hún situr í varastjórn Birtu.
Gylfi hefur verið á eftirlaunum frá 2014 og var um árabil aðaltrúnaðarmaður starfsmanna ÍSAL. Hann situr í stjórn Birtu.
Guðríður Birna Ragnarsdóttir, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri hjá Samskipum, og Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir, framreiðslumeistari og forstöðumaður veitingasviðs Center Hotels, hlutu 6 atkvæði hvor í tilnefningu stjórnarmanns Birtu til eins árs. Greidd voru atkvæði á nýjan leik þar sem þær voru einar í kjöri og þá hafði Guðrún Elfa betur, hlaut 59 atkvæði en Guðríður Birna 20 atkvæði. Guðrún Elfa er í varastjórn Birtu.
Í varastjórn Birtu lífeyrissjóðs var Bára Halldórsdóttir tilnefnd með 23 atkvæðum og Einar Hafsteinsson tilnefndur með 19 atkvæðum.
Bára er rafeindavirki með próf í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, starfsmaður á Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og í miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins. Hún var um tíma varamaður stjórnar Stafa lífeyrissjóðs.
Einar er rafvirki hjá Eimskip, hefur starfað í forystu Rafiðnaðarsambandsins og er í varastjórn Birtu.
Tilnefnd í aðal- og varastjórn Birtu. Frá vinstri: Einar Hafsteinsson, Bára Halldórsdóttir, Gylfi Ingvarsson, Hrönn Jónsdóttir, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir og Jakob Tryggvason.
Fjölmenni á kjörfundi fulltrúaráðs launamanna í Birtu lífeyrissjóði í gærkvöld!
Níels Sigurður Olgeirsson, formaður kjörstjórnar, og Íris Anna Skúladóttir, ritari fundarins og lánastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, tók að sér hlutverk atkvæðasafnara á kjörfundinum. Kjörkassi var mixaður á staðnum og stundinni úr umbúðum utan af Kristal frá Ölgerðinni og gegndi hlutverki sínu fullkomlega.
Kjörnefnd telur atkvæði í varastjórnarkjöri í bakherbergi Rafiðnaðarskólans: Níels Sigurður Olgeirsson vinstra megin borðs en til hægri Grétar Þorsteinsson fjær og Skúli Sigurðsson.