29. mars 2019
Stjórnarmenn launamanna í Birtu kjörnir á kjörfundi
self.header_image.title

Hilmar Harðarson og Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir voru kosin fulltrúar launamanna í stjórn Birtu lífeyrissjóðs á kjörfundi fulltrúaráðs launamanna sem haldinn var í gærkvöldi. Garðar A. Garðarsson var kosinn í varastjórn.

Á kjörfundi 2018

Alls hafa 90 fulltrúar launamanna í stéttarfélögum og fyrirtækjum í baklandi Birtu atkvæðisrétt í fulltrúaráðinu. Alls mættu 64 fulltrúar á fundinn.

Á fundinum kynntu þeir einstaklingar sig sem buðu sig fram í stjórn Birtu áður en gengið var til atkvæða og gekk kosningin vel. Hilmar Harðarson hlaut tæp 64% atkvæða og Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir var eina konan sem bauð sig fram til stjórnar og var því sjálfkjörin. Garðar A. Garðarsson hlaut tæp 65% atkvæða í kjöri til varastjórnar sjóðsins.

Hilmar Harðarson er formaður og framkvæmdastjóri Félags iðn- og tæknigreina ásamt því að vera formaður Samiðnar.

Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir er forstöðumaður veitingasviðs hjá Center Hotels. Guðrún Elfa var varamaður í stjórn Birtu frá árinu 2016 til aðalfundar 2018, þar sem hún var kjörin sem aðalmaður í stjórn Birtu.

Garðar A. Garðarsson er vélvirki og vél- og rekstrariðnfræðingur. Hann starfar sem viðhaldsstjóri hjá HB Granda hf. í Norðurgarði.

Ný stjórn Birtu verður kynnt á aðalfundi sjóðsins sem haldinn verður á Grand Hóteli Reykjavík fimmtudaginn 11. apríl nk.