„Við höfum nú birt í fyrsta sinn yfirlit um hvernig farið var með atkvæðisrétt sjóðsins á aðalfundum skráðra félaga þar sem við erum hluthafar. Þetta er í samræmi við stefnumótun stjórnar sjóðsins og í anda þess sem sjóðfélagar, markaðurinn og tíðarandinn kalla á,“ segir Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringarsviðs Birtu lífeyrissjóðs.
Hér á vefnum hefur verið settur upp aðgengilegur listi félaga þar hægt er að sjá hvernig atkvæði Birtu féllu á aðalfundum þeirra 2018 vegna rekstrarársins 2017.
Yfirlitið felur ekki í sér „nýjar fréttir“ en sýnir hvernig fjallað verður um aðalfundina 2019 hér á Birtuvefnum.
Alls 15 aðalfundir eru á þessum 2018-lista. Á þriðjungi þeirra er færð til bókar tiltekin afstaða Birtu lífeyrissjóðs sem birtist í atkvæðagreiðslum og athugasemdum varðandi starfskjarastefnu, þóknun til stjórnarmanna eða stjórnarkjör.
Tengill á síðu hvers félags í yfirlitinu vísar áhugasömum áfram á frekari gögn, umfjöllun eða upptökur af aðalfundum.