Hinn 1. júlí n.k. hækkar iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóði á samningssviði ASÍ og SA um 1,5% í samræmi við kjarasamning aðila vinnumarkaðarins frá 21. júní 2016. Samhliða gefst sjóðfélögum kostur á að ráðstafa að öllu leyti eða hluta því iðgjaldi sem er umfram 12% í svokallaða tilgreinda séreign. Tilgreind séreign er önnur tegund séreignarsparnaðar en áður hefur boðist og á m.a. að auka sveigjanleika við starfslok.
Sjóðfélagar sem hafa áhuga á að ráðstafa iðgjaldi í tilgreinda séreign geta gert það frá og með 1. júlí nk. með því að fylla út sérsaka tilkynningu með upplýstu samþykki hjá sínum lífeyrissjóði. Að öðrum kosti rennur hækkun lífeyrisiðgjaldsins í samtryggingu viðkomandi.
Kjósi sjóðfélagi að ráðstafa öllu viðbótariðgjaldinu í tilgreinda séreign nýtur hann sömu örorkuverndar og áður sem miðast við 12% iðgjald. Sá sem lætur viðbótina að fullu leyti fara í samtryggingu nýtur aftur á móti örorkuverndar m.v. 15,5% iðgjald (frá 1. júlí 2018). Til að safna í tilgreinda séreign þarf að veita upplýst samþykki þess efnis hjá lífeyrissjóðnum. Það verður hægt með rafrænum skilríkjum á heimasíðu Birtu í byrjun júlí. Nánari upplýsingar vegna þessa verða birtar þegar nær dregur. Þá verður einnig reiknivél aðgengileg sem sýnir fjárhæðir miðað við mismunandi hlutfall hækkunarinnar í samtryggingu eða tilgreinda séreign.
Hvað launagreiðendur snertir hefur þessi breyting aðeins áhrif á lífeyrissjóðsiðgjaldið frá þeim sem hækkar úr 8,5% í 10%. Að ári, 1. júlí 2018 hækkar það svo um 1,5% til viðbótar og verður 11,5%. Hlutur launþega verður sem fyrr 4% og heildarlífeyrissjóðsiðgjaldið 15,5% þegar ákvæði kjarasamningsins verða að fullu komin fram.
Til að unnt sé að framfylgja ákvæðum kjarasamnings um tilgreinda séreign þarf að gera breytingar á samþykktum Birtu lífeyrissjóðs. Tillögur þess efnis verðar teknar til afgreiðslu á aukaársfundi á Grand Hótel Reykjavík, fimmtudaginn 22. júní kl. 17.
Auk kjörinna
fulltrúa eiga allir sjóðfélagar rétt til setu á fundinum.
Tillögur stjórnar um breyttar samþykktir sjóðsins er að finna hér að neðan.