19. febrúar 2019
Umfjöllun um lífeyrissjóðsmál í Fréttablaðinu
self.header_image.title

Það er dyggð að spara. Fullyrðingin gæti í fljótu bragði virst vera ansi klisjukennd en er samt sígild og sönn! Við erum skyldug til að greiða í lífeyrissjóði alla starfsævina og mynda þannig bakhjarl okkar á efri árum, jafngildi tryggingar til lífsviðurværis sem varir ævina alla.

Eindregið er mælst til þess að fólk stofni auk þess til séreignarsparnaðar og því fyrr á ævinni, því betra. Launafólk getur þannig lagt fyrir allt að 4% af heildarlaunum sínum til viðbótar skylduframlagi í lífeyrissjóði og fengið 2% á móti frá atvinnurekanda sínum. Þetta jafngildir launahækkun fyrir það eitt að spara í séreign! Séreignarsparnaður hefur ýmsa fleiri kosti, til dæmis við fyrstu kaup á íbúð. Ráðgjafar Birtu lífeyrissjóðs veita með ánægju ráð og svara spurningum um mismunandi sparnaðarleiðir og annað tilheyrandi.

Hanna

„Við bendum líka á að fólk getur prófað að gerast eigin ráðgjafar með því að nota reiknivélina okkar á birta.is og gefa sér mismunandi forsendur um mánaðarlaun, aldur, skyldusparnað, séreignarsparnað, tilgreindan séreignarsparnað, vænta ávöxtun og útborgunartíma. Það má alveg segja sem svo að fólk leiki sér með mismunandi tölur og kanni hvernig kemur til dæmis út að flýta eða seinka eftirlaunum. Þessum leik fylgir hins vegar nokkur alvara af því við erum þarna að „reikna með framtíðinni“, beinlínis átta okkur á því hve miklu máli skiptir á efri árum að reyna eftir megni að leggja eitthvað fyrir aukalega sem fyrst á starfsævinni, segir Hanna Þórunn Skúladóttir, forstöðumaður skrifstofu- og rekstrarsviðs Birtu lífeyrissjóðs.

„Við erum stolt af reiknivélakerfinu á vefnum okkar, enda var mikil vinna í það lögð á sínum tíma. Reiknivélin fyrir eftirlaun var til dæmis frumherjasmíð sem vakti verðskuldaða athygli og við okkur var sagt að ýmsir aðrir hefðu gjarnan viljað þá Lilju kveðið hafa!“

Hér má finna umfjöllunina: Fréttablaðið