Meðalraunávöxtun Birtu lífeyrissjóðs undanfarna þrjá áratugi er 4,3% samkvæmt niðurstöðu samantektar á vettvangi sjóðsins.
Ekki var alveg einfalt mál að taka upplýsingarnar saman því við sögu koma 16 lífeyrissjóðir, það er að segja Birta og allir þeir sjóðir sem sameinuðust frá árinu 1988 og urðu að Birtu lífeyrissjóði frá og með 1. desember 2016. Samantektin rifjar því upp í leiðinni þá staðreynd að lífeyrissjóðum á Íslandi hefur fækkað verulega á tiltölulega fáum árum!
Í meðfylgjandi töflu sést að meðalávöxtun Birtu er yfir 3,5% viðmiðun hvort heldur horft er til 25 eða 30 undangenginna ára. Hefur þar verið tekið tillit til ávöxtunar og stærðar allra sjóða yfir tímabilið og meðalávöxtun reiknuð í samræmi við það.
Tímabil (ár) | Margfeldismeðaltal | Einfalt meðaltal |
---|---|---|
20 | 2.9% | 3.2% |
25 | 3.8% | 4.1% |
30 | 4.3% | 4.6% |
Meðalraunávöxtun Birtu lífeyrissjóðs frá 1988
Lífeyrir sjóðfélaga byggist á greiðslu iðgjalda í fjóra áratugi.– Samkvæmt þessu hefur ávöxtun Birtu og forvera sjóðsins staðist vel þegar á heildina er litið. Er það annars ekki rökrétt ályktun að draga af upplýsingunum, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu?
„Auðvitað er ánægjulegt að 30 ára meðalávöxtun þeirra sjóða sem mynda Birtu lífeyrissjóð skuli vera vel yfir langtímaviðmiði fyrir tryggingarfræðilega úttekt. Mikið hefur verið skrafað og skrifað um 3,5% viðmiðið og sitt sýnist hverjum. Sumir fullyrða að þetta viðmið sé of hátt og að lífeyrissjóðir haldi vöxtum í landinu uppi, sem stenst enga skoðun.
Mér þykir afar áhugavert að sjá að raunávöxtun Birtu og forvera sjóðsins skuli vera 4,3% að jafnaði í þrjá áratugi, sem er langur tími í margvíslegum skilningi. Ég reiknaði í framhaldinu út raunávöxtun eigna íslenska lífeyrissjóðakerfisins í 40 ár eða frá 1978 og hún reynist vera 3,3%. Báðar þessar tölur eru mjög nálægt 3,5% viðmiðinu. Sú staðreynd er allrar athygli verð.
Hagsögulega hefur mikið gengið á áratugina þrjá sem ávöxtun Birtu nær til. Tímabilið hófst með þjóðarsátt á vinnumarkaði og í byrjun aldar hvellsprakk netbólan svokallaða, efnahagsbóla sem stóð frá 1995 til 2000 og stafaði af ofmati á vaxtarmöguleikum fyrirtækja í Internetgeiranum.
Fáeinum árum síðar varð efnahagshrun á Íslandi.
Þegar hins vegar horft er yfir fjörtíu ára tímabil ber að halda því til haga að á árinu 1979 voru sett lög nr. 13/1979, kennd við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra, um heimild til verðtryggingar fjárskuldbindinga. Árið 2019 verður þannig sögulegt, enda liggja þá fyrir upplýsingar um raunávöxtun lífeyrissjóða í 40 ár eða frá upphafi verðtryggingar. Það er sérlega áhugavert þegar haft er í huga að tryggingafræðilegar forsendur lífeyrissjóða eru metnar einmitt til 40 ára.
Heildarmyndin er því í einföldu máli sú að raunávöxtun eigna lífeyrissjóða hefur í marga áratugi verið að jafnaði nálægt lágmarksviðmiði sem sett var á sínum tíma. Meðalævi Íslendinga og flestra annarra þjóða hefur hins vegar lengst verulega og lengist enn. Það veldur meira álagi á lífeyrissjóði en menn sáu fyrir á mótunarskeiði lífeyrissjóðakerfisins.“
Ofangreind umfjöllun á við um samtryggingardeild Birtu lífeyrissjóðs, en við vekjum athygli á því að upplýsingar um ávöxtun séreignar eru bæði aðgengilegar á heimasíðu og á sjóðfélagavef þeirra sem eiga séreignarsparnað hjá Birtu.